vald.org

Stríð þar sem allar orrustur hafa tapast

19. október 2011 | Jóhannes Björn

Barátta skuldsettra einstaklinga við íslenska banka- og stjórnmálakerfið er orðin löng. Þótt það væri ekki ljóst á sínum tíma, þá hófst þetta stríð þegar svokölluð einkavæðing bankanna fór fram—þegar fullkomlega óábyrg lánapólitík, sem m.a. átti að bola Íbúðalánasjóði í burtu, varð til þess að fasteignamarkaðurinn þandist út og glataði öllu sambandi við raunveruleikann.

Allir sem keyptu sér fasteign á árunum fyrir hrun voru að borga óraunhæft verð vegna þenslu sem að mestu leyti mátti rekja til lánastefnu bankanna. Nær ótakmarkað framboð lána ásamt lítilli útborgun fæða strax af sér fasteignabólu.

Fyrsta orrustan sem tapaðist í þessu langa stríði var pólitísk einkavæðing bankanna og máttlaus viðbrögð við henni. Aðeins á Íslandi og í villtustu löndum Afríku væri það látið líðast að einstaklingar með ákveðin pólitísk sambönd sölsuðu undir sig tvö af öflugustu fyrirtækjum landsins—fyrirtæki í almannaeign sem búið var að byggja upp í áratugi—án þess að borga nokkurn skapaðan hlut fyrir allan pakkann. Ef svona hlutir gerðust hjá siðuðum þjóðum í kring um okkur, leikur ekki nokkur vafi á að yfirvöld teldu það heilaga skyldu sína að rannsaka málið niður í kjölinn, en á Íslandi passar spillt pólitískt kerfi upp á sína. Fordæmið sem hér er gefið flytur öllum þau skilaboð að það borgi sig að hreiðra um sig í reykfylltum bakherbergjum pólitískra flokka og ræna almenning undir borðið.

Rannsóknarskýrslan var mjög góð, en henni var þó ábótavant á tveim stöðum. Það er rangt mat að halda því fram að útrásarvíkingarnir hafi talið sig vera að stunda eðlileg bankaviðskipti og þeir hafi einfaldlega yfirkeyrt sig. Óheyrilegur vöxtur þeirra árum saman sannar að þetta voru Ponzi-bankar sem höfðu miklu meiri áhuga á að soga til sín fjármagn heldur en að stunda eðlilega bankastarfsemi. Það er eitt af undrum veraldar (og töpuð orrusta) að stjórnvöld skuli ekki enn hafa gjörbreytt bankalögum, t.d. með því að aðskilja fjárfestingar frá venjulegri bankastarfsemi, til þess að koma í veg fyrir að harmleikurinn endurtaki sig.

Rannsóknarskýrslan fjallar um kúlulán sem hljóðuðu upp á 100 milljónir króna eða meira, rétt eins og lán upp á tugmilljónir og jafnvel 99 milljónir séu ekki raunverulegir peningar. Sennilega var línan dregin þarna vegna þess að annars hefðu svo til allir þingmenn og flokkar verið með í myndinni. Það sem vantar hér sárlega (og virðist vera önnur töpuð orrusta) er nákvæm úttekt á þessum lánum. Hversu mörg þeirra getum við t.d. flokkað undir hreinar mútur?

Þjóðirnar í kringum okkur líta á „lán“ sem ekki þarf að greiða til baka sem mútur. Ef pólitíkus fær lán hjá banka og það rennur til sjálfseignarfélags—þar sem hugsanlegur gróði rennur í vasa hans en hugsanlegt tap er afskrifað—þá er einfaldlega verið að múta þessum einstaklingi. Eins og kaupin gengu fyrir sig á eyrinni fyrir hrun, þá brutu bankarnir líka lög um markaðsíhlutun með því að lána til kaupa á sínum eigin hlutabréfum án þess að taka nokkur önnur veð. Hér þarf að fara fram nákvæm rannsókn sem sýnir bæði gróða af kúlulánum og líka tap sem var rúllað óbeint á herðar fólksins.

Hrunbankarnir voru gjörsamlega stjórnlausir og eftirlitslausir á meðan þeir rústuðu landinu. Kúlulán ásamt peningamokstri í stjórnmálaflokka og einhverja fjölmiðla lömuðu eftirlitskerfið—og því fór sem fór.

Til að bæta gráu ofan á svart byrjaði kúlulánaliðið snemma áróðurshjal um nauðsyn þess að vera ekki að mæna á fortíðina—það væri öllum farsælast að horfa fram á veginn. Ósvífnin á sér engin takmörk! Hugsum okkur innbrotsþjóf sem ávarpar rétt með eftirfarandi orðum: „Háttvirtur dómari. Áður en ég var gómaður braust ég kerfisbundið inn í 60 hús í Reykjavík—en það er liðin tíð. Góssið er farið og ég blankur, þannig að það er öllum fyrir bestu að gleyma málinu og horfa aftur með bjartsýni til framtíðar.“

Heilt þjóðríki var sett á hausinn vegna skorts á eftirliti og réttu regluverki á fjármálamarkaði. Tugþúsundir Íslendinga eru gjaldþrota, sumir hafa stytt sér aldur, heimili hafa sundrast og öryggisnet samfélagsins er að rifna. Og við eigum að stinga höfðinu í sandinn og neita að læra af mistökunum!

Íslenska bankakerfið var komið í þrot 2006 en því var leyft að skrölta í önnur tvö ár og þannig gefið tækifæri til þess að grafa þjóðinni enn dýpri gröf. Með því að leyfa ólögleg gjaldeyristryggð lán sem, þrátt fyrir að vera greidd út í íslenskum krónum voru færð í bókhaldið eins og hver annar gjaldeyrir, þá var hægt að fara fram hjá bindiskyldunni. Þetta er eitt af því sem hlutlausir aðilar þyrftu að rannsaka, en sjálfsagt er þetta mál enn ein töpuð orrusta.

Árið 2008 varð algjör forsendubrestur á lánamarkaði. Verð- og gjaldeyristryggð fasteignalán, sem starfsmenn bankanna höfðu selt fólki með þeim væntingum að verðbólga og gengisskráning kæmu til með að sveiflast innan eðlilegra marka, snarhækkuðu. Á þessum tímapunkti var það SKYLDA stjórnvalda að taka lánavísitölur úr sambandi. Sú staðreynd að þetta var ekki gert (væntanlega skipun frá AGS sem rakkarnir hlýddu) var stærsti ósigur fólksins í landinu í öllu þessu máli. Allar aðgerðir síðan þessi forsendubrestur átti sér stað eru útúrsnúningar og málþóf. Það verður að færa öll fasteignalán aftur til áramótanna 2007–2008 og reikna eðlilega vexti frá þeim tíma.

Sala ríkisins á nýju bönkunum kallar á alveg sérstaklega nákvæma rannsókn. Hvernig gat það gerst að erlendum vogunarsjóðum væri gert kleift að kaupa skuldir heimila og fyrirtækja fyrir slikk? Það er talað um 50% afslátt á skuldum heimilanna—lán sem núna eru endurreiknuð á fullu verði og birtast í hagnaðartölum bankanna—og Michael Hudson, heimsfrægur hagfræðingur sem kom til Íslands, bloggaði nýlega að sjóðirnir hafi í mörgum tilfella borgað aðeins 10% fyrir skuldir fyrirtækja. Stóð íslenskum fjárfestum, t.d. lífeyrissjóðum, til boða að kaupa þessa pappíra? Svör óskast.

Tillögur hafa komið fram á Alþingi um að skattleggja þennan ofsagróða bankanna, en eins og við var að búast sjá ráðherrar litla möguleika á slíku. Þetta lið er greinilega á bandi bankanna og sér ekkert nema erfiðleika þegar hagsmunir fólksins eru annars vegar. Skattur af þessu tagi er þó vel þekktur erlendis og gengur t.d. undir nafninu windfall skattur í Bandaríkjunum. Skatturinn er lagður á þegar fyrirtæki græðir óvænt og ekki vegna eigin útsjónarsemi. Þegar olíuverðið snarhækkaði vegna stríðs 1973 (olíufarmar hækkuðu oft um 100% á meðan á heimsiglingu stóð) þá borguðu olíufélögin windfall skatt einu eða tveimur árum seinna. Nýju bankarnir eiga samkvæmt þessu að borga skatt af óeðlilegum og óverðskulduðum tekjum sínum.

Eftir allt sem á undan er gengið sitjum við uppi með óbreytt bankakerfi, sem að stórum hluta virðist hafa verið fært upp í hendurnar á útlendingum fyrir smáaura, aðila sem greinilega ætla sér að mergsjúga þjóðina. Kúlulánaliðið heldur enn um stjórnartaumana á meðan tugþúsundum einstaklinga er kerfisbundið ýtt út í gjaldþrot. Gamlir útrásarvíkingar fá afskrifað á meðan almenningur nær aldrei athygli stjórnvalda nema eftir löng málaferli eða fjölmenn mótmæli. Hvar er réttlætið?

Ekkert gefur betri innsýn í hugarheim pólitíkusa heldur en forgangsröðin sem þeir nota. Hvers konar þjóð býr í landi þar sem lífi sjúklinga er stefnt í hættu og önnur nauðsynleg þjónusta er sett í fjársvelti á meðan pólitíska stéttin—og þá sérstaklega utanríkisþjónustan—sleppir ekki spenanum? Sendiráð eru úreltir forngripir sem kosta okkur 2600 milljónir árlega í beinhörðum gjaldeyri. Sendiráðin eru geymslustaðir fyrir afdankaða pólitíkusa og þau afreka ekkert sem einn ræðismaður getur ekki auðveldlega séð um. Og þetta er aðeins hluti utanríkisbáknsins.

Stéttarfélag pólitíkusa úr öllum flokkum sýndi sitt rétta andlit þegar Össur Skarphéðinsson setti tvo hrunverja, Árna Mathiesen og Halldór Ásgrímsson, í þægilegar stöður erlendis. Þetta voru ekki flokksbræður ráðherrans, en svona eru leikreglurnar. Þegar kjósendur eru búnir að losa sig við Samfylkinguna heimtar Össur sendiráð fyrir sig eða einhvern úr flokknum. Og almenningur heldur áfram að borga fyrir bruðlið.

Pólitíska stéttin og fjársterkir stuðningsmenn hennar virðast vinna allar orrustur … og með hliðsjón af nýjustu yfirlýsingum bankanna um endalok leiðréttinga, þá er kerfið sennilega líka búið að vinna stríðið.