vald.org

Kína blikkar rauðum ljósum

13. nóvember 2011 | Jóhannes Björn

Glundroðinn í Evrópu hefur undanfarið haldið allri athygli fjölmiðla og það hefur verið frekar hljótt um hvert stefnir í Kína. Margt bendir þó til þess að hagkerfið þar um slóðir sé mjög fallvalt og árið 2012 verði ákaflega erfitt. Í mildasta falli eigum við eftir að sjá samdrátt sem tekur hráefnisútflytjendur Ástralíu og Brasilíu með sér í fallinu. Í versta falli mesta fasteignahrun sögunnar og blóðug innanlandsátök sem líklega leiða til falls kommúnistaflokksins.

Kínverska efnahagsundrið hefur aldrei verið jafn stórkostlegt og margir vilja láta í veðri vaka. Vestrænir talsmenn óheftrar hnattvæðingar hafa skiljanlega hampað kínverska „undrinu“—þessir riddarar einkaframtaksins sem vilja einkavæða allt heima fyrir lofsyngja miðstjórn kínverska kommúnistaflokksins stanslaust og telja hana óskeikula—en hagvöxtur síðustu áratuga var í sjálfu sér frekar einfaldur í framkvæmd. Hundruð milljónum fátækra einstaklinga var smalað inn í verksmiðjur sem voru starfræktar eins og risastórt færiband fyrir ríkari markaði, náttúrunni var nauðgað í nafni „framfara“ og erlend fjárfesting ásamt tækniþekkingu streymdi í þennan arðbæra farveg. Ótrúleg harka og heragi keyrðu svo allt kerfið áfram.

Mjög miðstýrt hagkerfi stenst aldrei til lengdar og allra síst þar sem millistéttin fer vaxandi. Gömlu Sovétríkin voru skólabókadæmi um þetta. Kínverska hagkerfið byrjaði að fara úr böndunum um leið og það náði því þróunarstigi að alræðisstjórnin neyddist til að auka innlenda eftirspurn. Handstýring gengur aldrei í hagkerfi sem hefur náð ákveðnu flækjustigi—þar sem ruglingslegt samspil framboðs og eftirspurnar ræður ríkjum—og miðstýrðar ákvarðanir eyðileggja það þegar fram líða stundir.

Eftir bankahrunið 2008 dró úr útflutningi Kína og stjórnvöld svöruðu því með því að beina stórauknu fjármagni inn á við. „Fastar“ fjárfestingar—hús, vegir, járnbrautir o.s.frv.—náðu bólustigi og soguðu til sín 46% fjármagnsins, en þessi tala er að jafnaði um 12% í Bandaríkjunum. Miðstjórn kommúnistaflokksins gaf borgum og sýslum skipanir um að ná ákveðnum hagvexti. Því markmiði var auðveldast að ná fram með því að byggja milljónir húsa og önnur mannvirki.

Það er talið að á þessu augnabliki búi enginn í yfir 60 milljónum íbúða í Kína. Fólk hefur fjárfest í sumum þeirra af þeirri einföldu ástæðu að það hefur aldrei séð fasteignaverð lækka … þar til núna. Byggingafélög eru byrjuð að gefa allt að 30% afslátt og óeirðir hafa brotist út þegar fyrri kaupendur heimta sama afslátt. Kínverska fasteignabólan er sú svakalegasta sem heimurinn hefur nokkru sinni séð og verðið á eftir að falla meira en flesta grunar. Vítahringurinn sem fasteignamálin eru komin í er algjör og það er enn verið að byggja á fullu þrátt fyrir að hrun blasi við. Allt að 40% tekna margra borga má nefnilega rekja til sölu lóða undir nýjar fasteignir.

Þrátt fyrir staðreyndir málsins virðast flestir sem tjá sig um málið á Vesturlöndum halda að kínverski fasteignamarkaðurinn sé alls ekki í svo slæmum málum. Þetta fólk bendir á að það vanti húsnæði fyrir um 300 milljónir, miðstjórn flokksins sé með áform um að koma þessu fólki inn í borgirnar og að þeir sem þegar hafa keypt hafi borgað út helming söluverðsins eða jafnvel meira. Þessi rök minna á aðrar fasteignabólur í öðrum löndum, þar sem braskarar prédikuðu að „Guð skapaði ekki meira land“ og fasteignir hlytu því að hækka endalaust.

Til að byrja með þá eru meðaltekjur í Kína um $4000 á ári (nánast fyndið í ljósi þess að Ítalir, sem eru með um $40.000 í meðaltekjur, grátbáðu Kína um að redda sér) og meðalverð nýrra íbúða er yfir 30 sinnum hærra (er um 4X á eðlilegum markaði). Þetta er svipað og ef 5000 nýjar íbúðir risu í Reykjavík á þessu ári og þær kostuðu 300 milljónir stykkið, en það væri hið besta mál vegna fjölda þeirra sem leigja eða yfirleitt vantar húsnæði!

Það er rétt að slatti Kínverja hefur efni á að borga íbúðir út í hönd, en flestir sem versla á þessum markaði slá lán annars staðar en í bankakerfinu. Fjölskyldur leggja oft allt undir og svo er starfandi stór sjálfstæður lánamarkaður í landinu.

Fasteignir eru byrjaðar að lækka, hlutabréfamarkaðurinn hefur verið á niðurleið í nokkurn tíma og yfirvöld í Kína hafa þurft að draga úr almennri lánastarfsemi vegna vaxandi verðbólgu. Samkvæmt skýrslu China Economic Net frá 15. september hefur atburðarásin orðið til þess að fyrirtæki hafa í vaxandi mæli neyðst til þess að taka óhagstæðari lán fyrir utan bankakerfið.

Samkvæmt Forbes og fleiri heimildum þá er í gangi gífurlegur peningaflótti frá Kína. Nærri 60% einstaklinga sem eiga 10 milljónir júan í reiðufé eru annað hvort að ráðgera að flytja erlendis eða eru að leggja síðustu hönd á að flytja. Könnun gerð af China Merchants Bank og Bain & Co. leiddi í ljós að 27% einstaklinga með yfir 100 milljónir júan hafa þegar flutt og 47% þeirra eru að íhuga að skipta um ríkisfang.

Deild á vegum bandaríska fjármálaráðuneytisins sem fylgist með ólöglegum peningafærslum tilkynnti nýlega um gífurlega aukningu peningaþvættis frá Kína sem byrjaði síðasta vor. Fréttastofur á Vesturlöndum tala um „mjúka lendingu“ í Kína, stöðugan fasteignamarkað og vaxandi lánastarfsemi banka vegna lægri verðbólgu. En rotturnar sem eru að flýja sökkvandi skip—menn sem raunverulega skilja kínverskt hagkerfi og hafa hrærst í því árum og áratugum saman—eru miklu betri vísbending um hvað raunverulega er að gerast á bak við bambustjaldið.