vald.org

Hvað gerist 2012?—Fyrri hluti

2. janúar 2012 | Jóhannes Björn

Það er erfitt að spá í hagkerfi sem lýtur ekki lengur eðlilegu lögmáli framboðs og eftirspurnar. Stærstu hagkerfi heimsins eru þessa stundina á öndunarvélum seðlabanka og fjármagnið er hætt að flæða eins og það gerði fyrir aðeins örfáum árum. Neikvæðir raunvextir af sparifé eru víða 4–5%—seðlabankar sem halda stýrivöxtum við núllið gera bönkum kleift að ræna alla sparifjáreigendur jafnt og þétt með hjálp verðbólgunnar—og millibankaviðskipti í Evrulandi eru óveruleg. Á meðan skútan sekkur hlaðast ruslapappírar upp í seðlabönkum heimsins.

„Gefið einstaklingi byssu og hann getur rænt banka. Gefið einstaklingi banka og hann getur rænt allan heiminn.“

—Jim Trotter

Peningakerfið sem við búum við hefur í raun aldrei staðist og það hrundi haustið 2008. Hér áður fyrr voru einhverjar hömlur á þessu kerfi, bankarnir lánuðu t.d. um tíu sinnum meira fjármagn en þeir sjálfir áttu. Margir gjaldmiðlar voru líka tryggðir með gulli eða silfri. Eftir 1944 var aðeins einn gjaldmiðill, bandaríski dollarinn, gulltryggður, en eftir að fallið var frá því fyrirkomulagi 1971 opnuðust allar flóðgáttir og gervipeningar flæddu hömlulaust um hagkerfi heimsins.

Alltaf þegar mikil peningaframleiðsla á sér stað—þegar bankakerfið lánar umfram aukið framboð vöru og þjónustu í hagkerfinu—heldur verðbólgan innreið sína. Aðilar sem sitja næst kjötkötlunum, t.d. bankar og alls konar spákaupmenn með aðgang að lánalínum, græða háar upphæðir á meðan allir aðrir tapa. Þeir eru einfaldlega í aðstöðu til þess að braska með meira peningamagn. Þetta fyrirkomulag skapar arfavitlausar áherslur í hagkerfinu. Árið 1960 runnu t.d. um 5% alls gróða sem myndaðist í bandaríska hagkerfinu til peningageirans (banka, hlutabréfamiðlara, skuldabréfasala o.s.frv.), en núna sogar þessi starfsemi til sín yfir 30%.

Þegar örfáir einstaklingar ríkis byrja að græða gífurlegar upphæðir, þá líður venjulega skammur tími þar til þeir mynda þrýstihóp sem stingur þorra þingmanna í vasann. Það eru engar ýkjur að segja að peningaelítunni hafi á síðustu 10–15 árum verið gefið byssuleyfi á alla aðra þjóðfélagsþegna Evrópu og Bandaríkjanna. Fjárfestingabankar fá að braska með sparifé fólks, ruslalán eru stimpluð AAA gæðastimpli af eftirlitsstofnunum sem fá borgað fyrir ómakið, afleiðuviðskiptum er leyft að ná stigi truflunar og einkabankar á framfæri ríkisins (seðlabanka) eru trekktir upp fjörtíufalt. Gjaldþrota bankar borga síðan milljarða í bónusgreiðslur, oft nokkrum dögum áður en þeir fara undir hamarinn … og skattgreiðendur fá síðan allt klúðrið í hausinn.

Elítan lætur þingmenn skrifa skattalög sem eru bæði óréttlát og hættuleg hagkerfinu. Risafyrirtæki víkja sér undan sköttum með því að búa til flókið fjárstreymi á milli landa, t.d. með því að hækka verðið (lækka gróðann) þegar varan flýtur á pappírsferðalagi í gegnum skúffur á einhverri aflandseyju—eða með því að láta skúffurnar selja aðalstöðvunum verðmæta gerviþjónustu. Minni fyrirtæki, sem alls staðar eru hagfræðilega mjög mikilvæg, borga því hærri skatta og eru því ekki eins samkeppnishæf. Allir nema stórlaxarnir tapa.

Eitt mesta óréttlæti sem viðgengst víða um heim er kerfi þar sem ofurríkir einstaklingar komast upp með að borga sjálfum sér kaup eftir krókaleiðum, gagngert til þess að lækka eigin skatta. Það er ekki óalgengt að ritarar eða þjónar elítunnar borgi hærri skatta (í prósentum) heldur en milljarðamæringar sem geta skammtað sér fjármagnstekjur. Við vitum að málið er komið á allt að kómískt stig þegar einu helsta málgagni kapítalsins, Forbes, er farið að blöskra:

Top 0.1% of the Nation Earn Half of All Capital Gains

The top 0.1%—about 315,000 individuals out of 315 million—are making about half of all capital gains on the sale of shares or property after 1 year; and these capital gains make up 60% of the income made by the Forbes 400.

It's crystal clear that the Bush tax reduction on capital gains and dividend income in 2003 was the cutting edge policy that has created the immense increase in net worth of corporate executives, Wall St. professionals and other entrepreneurs.

The reduction in the tax from 20% to 15% continued the step-by-step tradition of cutting this tax to create more wealth. It had first been reduced from 35% in 1978 at a time of stock market and economic stagnation to 28%. Again 1981, at the start of the Reagan era, it was reduced again to 20%—raised back to 28% in 1987, on the eve of the October 19th—23% crash in the market. In 1997 Clinton agreed to reduce it back to 20%, which move was an inducement for the explosion of hedge funds and private equity firms—the most „rapidly rising cohort within the top 1 per cent.“

Make no mistake; the battle that is to be fought over the coming attempt to reverse this reduction in capital gains will be bloody and intense.

… the super wealthy plutocrats obtained the largest share of national income—25% of the nation's wealth—greater than any other industrial nation in the period of 1979 to 2005.

Risafyrirtæki og ofurríkir einstaklingar fela forréttindi, sporslur og annað samfélagslegt óréttlæti með alls konar torfi og endalausu pappírsflóði. Flestir hljóta að vera sammála um að einföld og réttlát skattalög geti verið bæði gagnorð og auðskilin. Árið 1969 voru bandarísku skattalögin prentuð á 16.500 blaðsíður. Árið 2007 á 67.506 síður!

Kjarni málsins er að of mikill tekjumunur drepur hagkerfið, því hjólin hægja á sér þegar heilar stéttir verða að halda að sér höndum og draga úr neyslunni. Ekki ósvipað ástand og með beljur sem hætta að mjólka vegna þess að bóndinn sveltir þær. Millistéttin í Evrópu og Bandaríkjunum er að skreppa saman ótrúlega hratt. Ungt fólk er í enn verri málum og atvinnuleysi meðal evrópskra og amerískra ungmenna hefur ekki verið meira síðan í kreppunni miklu. Við þetta bætast hærri námsskuldir en dæmi eru um í sögunni, sérstaklega í Bandaríkjunum.

Stór hluti eldri borgara í Bandaríkjunum er líka að drukkna í skuldum. Samkvæmt samantekt William Apgar hjá Harvard Joint Center for Housing Studies, þá hafa skuldir fólks 62 ára og eldri verið að aukast í tvo áratugi. Þessi hópur skuldar að meðaltali $71.000 af fasteignum, sem er fimm sinnum meira en 1987 þótt verðbólgan sé reiknuð inn í dæmið. Bandaríkjamenn sem tilheyra millistétt eða lágstétt skulda að meðaltali $10.000 á greiðslukortum (oft á 20% vöxtum), sem er 26% hærri upphæð heldur en 2005.

Kannski er það skuggalegast við þróun peningamála í Bandaríkjunum að elítan virðist halda (eða vita) að hún þurfi ekki að leika samkvæmt sömu reglum og aðrir þjóðfélagsþegnar. Lög eru brotin til hægri og vinstri án þess að nokkur fjárglæframaður sé einu sinni kærður. Þegar William Black stjórnaði rannsókn á svindli sparisjóðanna fyrir um 20 árum kom hann yfir þúsund einstaklingum á bak við lás og slá. Glæpastarfsemin fyrir hrunið 2008 var margfalt, margfalt stórtækari, en samt hefur enginn verið kærður og frekar lítið fer fyrir rannsókn málsins.

Oft er engu líkara en að það sé hreinlega búið að byggja óheilindi inn í kerfið. Í júlí 2008 gekk fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Henry Paulson, fyrrverandi forstjóri Goldman Sachs, fyrir þingheim og lýsti því yfir að fjárreiður tveggja risa á fasteignalánamarkaði, Fannie Mae og Freddie Mac, væru í góðu lagi („well-capitalized“). Aðeins tveim vikum síðar, samkvæmt Bloomberg fréttastöðinni, sat þess sami Paulson á einkafundi með fulltrúum 20 stærstu vogunarsjóða í New York, þar sem hann sagði allt aðra sögu. Fannie og Freddie eru stórslys, sagði hann, þurfa aðstoð upp á milljarða dollara og ríkið verður að yfirtaka fyrirtækin. Hlutabréfaeigendur, bætti Paulson við, verða þurrkaðir út.

Hér var sem sagt háttsettur embættismaður á kaupi hjá skattgreiðendum að gefa nokkrum fulltrúum ríkasta fólks landsins (hvaða aðrir aðilar leggja fé í vogunarsjóði?) upplýsingar sem auðveldlega gátu gefið tugmilljarða dollara í aðra hönd, t.d. með afleiðubraski og skortsölum.

Paulson var aftur á ferðinni seinna árið 2008 þegar hann fékk þingið til þess að gefa bankaelítunni $800 milljarða, en á sama tíma var seðlabankinn að moka ótrúlegum upphæðum í sömu elítu á bak við tjöldin. Eftir tveggja ára málaferli var loks hægt að toga þessar upplýsingar út úr seðlabankanum. Sjálfsögð spurning hlýtur að vakna: Hvað annað sem aldrei hefur komið upp á yfirborðið hefur bandaríski seðlabankinn verið að bralla síðustu 99 árin?

Þegar spáð er í framtíðina er hollt að reyna að gera sér grein fyrir hvar spottarnir liggja og hvaða hagsmunaaðilar toga í þá. Verð á hlutabréfum, gjaldmiðlum, hráefnum og góðmálmum á eftir að ráðast af afdrifaríkum ákvörðunum. Annað hvort verður grynnt á skuldum kerfisins með afskriftum—sem sjálfkrafa myndi leiða af sér miklu minna bankakerfi—eða vandinn verður „leystur“ með enn meiri skuldum. Atburðir síðustu ára segja okkur að meiri peningaprentun verði ofan á.

Krónískur fjárlaga- og viðskiptahalli langstærsta hagkerfis heimsins, Bandaríkjanna, skilar sér í aukinni dollaraeign erlendra seðlabanka. Með tímanum verða þessi nýju pappírsverðmæti til þess að hækka verðmæti raunverulegra hluta (miðað við pappírspeninga), t.d. orku og landbúnaðarvara. Markaðsverð á gulli virðist breytast í beinu hlutfalli við upphæðirnar sem seðlabankar heimsins eiga í bandarískum dollurum og bandarískum skuldabréfum.

Spá eitt:

Vegna aukinnar seðlaprentunar í mörgum löndum, sérstaklega Bandaríkjunum, Evrulandi og Japan, þá mun gullverðið fara vel yfir $2000 árið 2012. Enginn sem ekki hefur efni á að tapa peningum á þó að fjárfesta í gulli eða hlutabréfum. Besta fjárfestingin er að borga skuldir.

Spá tvö:

Það eru sáralitlir möguleikar á að Grikkland noti evru sem gjaldmiðil í árslok 2012. Það er ekki hægt að beita miklum niðurskurði í miðri efnahagskreppu og ætlast til þess að eitthvað jákvætt gerist. Það er heldur ekki hægt að breyta heilu hagkerfi eða félagslegri uppbyggingu lands á örstuttum tíma. Það tekur áratugi.

Framhald …