vald.org

Gunnar Tómasson—maðurinn sem ætti að vera seðlabankastjóri

11. janúar 2012 | Jóhannes Björn

Seðlabanka Íslands er stjórnað af bókstafstrúarfólki sem sífellt endurtekur sömu mistökin. Enginn vottur um sjálfstæða hugsun virðist vera til staðar þegar bankinn bregður fæti fyrir hagkerfið með afdönkuðum íslenskum lausnum eða innfluttum kreddum sem ekkert erindi eiga til landsins.

Þegar hráefnisverð hækkaði nýlega á heimsmarkaði, þá hafði það vissulega áhrif á vöruverð á Íslandi. Til þess að sporna við þessu hækkaði bankinn stýrivexti! Hvað átti að gerast næst? Áttu hærri vextir á Íslandi að lækka heimsmarkaðsverð á kaffi og olíu? Vitleysan ristir þó enn dýpra, vegna þess að hækkun vaxta hefur aldrei verið raunverulegt vopn í baráttunni við íslenska verðbólgu. Samkeppnin er of lítil, hagkerfið of fábreytt og menn geta því reiknað aukinn vaxtakostnað beint inn í verðlagið. Háir vextir eru og hafa frá upphafi lýðveldisins alltaf verið verðbólguhvetjandi—ekki öfugt.

Seðlabankastjóri er mjög hlynntur verðtryggingu lána, þessu séríslenska fyrirbæri þar sem lánastofnunum er gefið veiðileyfi á lánþega. Hvernig getur það flokkast undir eðlileg viðskipti, þar sem tveir aðilar semja, að aðeins annar þeirra taki alla áhættu af öllum áföllum framtíðarinnar? Ef menn í annarri heimsálfu byrja að berjast og olíuverð hækkar (sem skerðir lífskjör þjóðarinnar), þá hækka öll verðtryggð lán á Íslandi. Ef uppskerubrestur í Bandaríkjunum hækkar heimsmarkaðsverð á korni þá hækka íbúðalán á Íslandi um leið. Og ef ríkisstjórnin hækkar verð á brennivíni, skuldar fólk allt í einu meira! Hvernig getur æðsti stjórnandi peningamála á Íslandi varið slíkt óréttlæti og bull?

Menn innan Seðlabankans vissu árum saman að gengistryggð lán voru ólögleg. Þegar dómstólar loks dæmdu rétt í málinu tóku yfirvöld, ríkisstjórn og seðlabanki, þá furðulegu ákvörðun að breyta skilmálum lánanna bankakerfinu í hag. Íslensk stjórnvöld hafa afrekað margt í tímans rás, en þessi einhliða afskipti að gerðum samningum voru með því svívirðilegasta sem hefur sést.

Það var mikil ógæfa fyrir þjóðina að Gunnar Tómasson var ekki hvattur til þess að sækja um stöðu seðlabankastjóra eftir hrun. Hann skilur hagkerfið í víðara samhengi og er ekki hræddur við að kasta gömlum kreddum út í hafsauga. Þetta viðtal var tekið við hann sl. föstudag.