vald.org

Hvað gerist 2012—Seinni hluti

3. febrúar 2012 | Jóhannes Björn

Nútíma peningakerfi, þar sem ákveðið verðgildi er prentað á pappír sem ekki er studdur öðru en loforði um að hann sé löglegur viðskiptamiðill, gengur , fræðilega séð, út á að mæta vaxandi framleiðslu með auknu seðlamagni í umferð. Við getum hugsað okkur lítið þorp sem árum saman hefur hjakkað í sama farinu með svipað peningamagn í umferð. Einn góðan veðurdag er byrjað að reisa álver í plássinu. Mikill fjöldi framkvæmda fylgir slíku dæmi kallar á aukið peningamagn í umferð og það skapar ekki verðbólgu svo lengi sem það eykst í réttu hlutfalli við meiri umsvif í hagkerfinu.

Sagan hefur sýnt okkur að það er aldrei hægt að snúa þessu dæmi á haus og framleiða fyrst meira peningamagn og ætlast síðan til þess að raunverulegur hagvöxtur fylgi í kjölfarið. „Hrá“ peningaprentun endar alltaf með ósköpum, en samt hafa allir helstu seðlabankar heimsins tekið höndum saman um þessa lausn síðan 2008. Elítan sem stjórnar þessu kerfi er í raun aðeins að fresta ákveðnu uppgjöri … og hún er fullmeðvituð um hvað er að gerast.

Hrunið sem varð haustið 2008 var algjörlega fyrirsjáanlegt. Allir sem hafa lesið sér eitthvað til um sögu peningamála heimsins þekkja fjölda dæma um hliðstæðar bólur og vita nákvæmlega um orsakir þeirra. Hrein peningaprentun rústaði franska hagkerfinu tvisvar á átjándu öld og þýska þjóðarsálin er ekki enn búin að ná sér eftir óðaverðbólguna 1923. Gullkílóið seldist fyrir lægra verð en kíló túlípana í Hollandi 1622, en túlípanaæðið 1619–1622 er sennilega brjálaðasta bóla allra tíma.

Það er ekki hægt að halda því fram með neinum vitrænum rökum að hrunið 2008 hafi komið seðlabankastjórum í Evrópu og Bandaríkjunum á óvart. Bólan á fasteignamarkaði, alls staðar nema í Þýskalandi, var augljós og alveg borðleggjandi að afleiðubraskið í kringum þessi viðskipti átti eftir að keyra bankakerfið í gjaldþrot. Seðlabankastjóri Bandaríkjanna—sjálfur prófessor í hagfræði og með hundruð sprenglærðra hagfræðinga í vinnu—hélt því samt oft fram á árunum fyrir hrun að engin hætta væri á ferðum: „Ég endurtek“, tjáði hann t.d. þingnefnd í mars 2006, „að ég tel ólíklegt að fasteignamarkaðurinn setji hagvöxtinn út af sporinu.“

Berum þetta saman við það sem var skrifað á þessa vefsíðu af einum meðalskussa, bæði fyrir og eftir þessi ummæli seðlabankastjórans.

Sápukúla sem springur með háum hvelli

24. maí 2005 | Jóhannes Björn

Það kraumar í fasteignapottinum í Bandaríkjunum. Einbýlishús og íbúðir hafa hækkað um 50% á fjórum árum og í sumum fylkjum miklu meira. Í Flórída hefur fasteignabraskið t.d. gengið svo langt að menn eru farnir að versla með kauprétt á húsum sem ekki er byrjað að byggja og verð fasteigna hefur rokið upp um 45% á síðustu 12 mánuðum. Allir nema þeir sem eru á kafi í þessum viðskiptum sjá að endalokin eru ekki langt undan.

Afsakið … hlé

20. mars 2007 | Jóhannes Björn

… Allt sem hér hefur verið skrifað á undanförnum mánuðum um útlit efnahagsmála heimsins stendur óhaggað og engar grunnstaðreyndir hafa breyst. Eins og margoft hefur verið bent á þá stefnir í efnahagslægð sem á upptök sín á bandarískum fasteignamarkaði.

Eins og rakið er í bókinni Falið vald voru öflugustu seðlabankar heimsins stofnaðir af einkaaðilum og þeir voru lengi í einkaeign.Tæknilega séð hefur bandaríski seðlabankinn verið einkabanki frá upphafi. Það þarf heldur ekki að skoða lengi tengsl manna sem stjórna seðlabönkum til þess að sjá að þeim stærstu er óbeint stjórnað af sama kjarna og rekur alþjóðlega bankakerfið. Á meðan bankakerfið græddi hundruð milljarða á fasteignabólu og braski með ónýta fasteignapappíra var enginn vilji á æðstu stöðum til þess að stöðva hrunadansinn. Elítan vissi allan tímann að skattgreiðendur yrðu rukkaðir um reikninginn.

Þetta kerfi—að stiga glannalegum gróða í vasann og þjóðnýta síðan tapið—á sér langa sögu. Á árunum í kringum 1980 var New York við það að verða gjaldþrota. Borgin gat ekki endurgreitt skuldir og fasteignafyrirtæki fóru á hausinn í stórum stíl. Chase Manhattan bankinn kom til með að fara verst allra banka út úr þessu hruni, en David Rockefeller var yfirbankastjóri hans um þær mundir og hafði fulla ástæðu til þess að vera á nálum. John F. Ince, höfundur bókarinnar Main Street Versus Wall Street, lýsir því hins vegar hve sallarólegur Rockefeller var á neyðarfundum sem bankamenn héldu um málið. Hann hafði lánað New York gífurlegar upphæðir á háum vöxtum (áhættulán), og á meðan allir aðrir voru miður sín af ótta, þá haggaðist hann ekki. Rockefeller vissi nefnilega hvernig elítan hafði gengið frá hnútunum.

Yet, I was surprised at David Rockefeller's composure during those meetings. He was calm amidst the storm of widespread panic in the financial markets. It was only years later that I came to realize how he could be so calm—he knew that the system was functioning exactly as it was designed. Chase, which had taken imprudent risks in its real estate and municipal loans, would ultimately be bailed out by the government. Sound familiar?

David Rockefeller knew this would happen. At the time I thought this crisis was an isolated instance of the government acting, in a state of crisis, to rescue the system from collapse. Since then I have come to see that these periodic spasms of the financial markets are entirely predictable. It is also predictable that in a state of crisis, the government will act to rescue the banks that caused the problems by taking on too much risk. The Congressional bailout bill was part of a larger pattern which would be repeated. It had rescued Penn Central and Lockheed in 1970. Later they would rescue Chrysler, Commonwealth Bank of Detroit, First Pennsylvania Bank, Continental Illinois and others. Then of course there was the savings and loan crisis in the late eighties and Long Term Capital Management in 1998, the bailout of Mexico and of course, the bailout bill of 2008, each instance rescuing a financial system that had come perilously close to collapse and required federal intervention.

This is how the system works. It's all part of the design of the system. It's reliable. It's hugely profitable for those on the inside, working on Wall Street. It's unfair to those on the outside, living on Main Street.

Bankakerfið setti Evrópu á hausinn með glannalegri lánastarfsemi. Á milli 2000 og 2007 fjölgaði t.d. íbúðum og einbýlishúsum á Spáni um fimm milljónir, en það var 50–60% meiri þensla en markaðurinn þoldi. Bankarnir héldu áfram að lána Spáni, Grikklandi, Ítalíu og Portúgal peninga þótt að það væri ekkert sérstakt leyndarmál að þessar þjóðir stefndu í greiðsluþrot. Gróði hluthafa var gífurlegur og bankamenn borguðu sjálfum sér metbónusa ár efir ár. Þegar keðjubréfið sigldi í strand fengu skattgreiðendur reikninginn.

Áætlun elítunnar er tvíþætt—ríkisstjórnir skulu borga, hvað sem það kostar, á meðan seðlabankar pumpa nýju fjármagni (nýjum peningum í umferð) inn í bankakerfið. Seðlabanki Evrópu var fyrst í stað eitthvað tregur en hefur nú opnað allar gáttir. Nærri 500 milljarðar evra flæddu nýlega inn í 523 banka í Evrulandi og nú hefur bankinn tilkynnt enn stærri innspýtingu.

Evrópa er í efnahagslægð og samt er verið að ganga á kjör fólksins af fullri hörku. Það getur ekki endað vel, en kannski er tilgangurinn líka að halda verðbólgunni í skefjum. Bankamenn vita að bein peningaprentun (framleiðsla á auknu peningamagni á meðan framboð vöru og þjónustu eykst ekki) orsakar alltaf verðbólgu og mikil bein peningaprentun óðaverðbólgu. Sem sagt, elítan prentar peninga handa bönkunum, en heldur verðbólguáhrifunum í skefjum með því að ganga á kaupmátt fólksins.

Fyrir ríki í S-Evrópu þýðir allt þetta óstöðvandi hrun og sviðna jörð. Peningaflóttinn frá Grikklandi (rauða strikið) gefur nokkra hugmynd um hvað koma skal.

Nú er svo komið að um 20% Grikkja á ekki til hnífs og skeiðar—bókstaflega—og ástandið fer versnandi. Atvinnuleysi á Spáni er að nálgast 23% og verð fasteigna í landinu hefur verið að hrapa í nærri fjögur ár. Hagkerfi Portúgal er að dragast saman um 5% reiknað á ársgrundvelli og skuldabréf ríkisins seljast aðeins á okurvöxtum. Meira að segja belgíska ríkið, sem þarf að borga €54 milljarða (14% þjóðartekna) vegna gjaldþrots Dexia bankans og hefur tryggt skuldir peningastofnana upp á €138 milljarða (35% þjóðartekna) er komið á hálan ís. En ef eitthvað ætti að halda vöku fyrir ráðamönnum í Evrópu þá er það atvinnuleysi meðal ungs fólks á aldrinum 16–24 ára.

Spá þrjú:

Evran lækkar um 15–20% á árinu. Grikkland tekur upp sína gömlu mynt og sennilega verður Portúgal neytt til þess að fara sömu leið. Við þau tímamót verður reynt að reisa „eldvegg“ til að verja hagkerfi veikari ríkja Evrulands og evran hækkar aftur.

Talsmenn bankaelítunnar, sem aðallega eru forstokkaðir nýfrjálshyggjupostular, halda uppi áköfum áróðri fyrir húsbændur sína og fullyrða að stórfelld lífskjaraskerðing (svo bankarnir fái borgað) sé hið eina rétta í stöðunni. Já, þrátt fyrir samdrátt þá er best að draga úr opinberri þjónustu, hækka gjöld og helst svelta gamla fólkið. Hagfræðilega séð er þetta alveg út í hött og það sýnir vankunnáttu fjölmiðlafólks—eða varpar ljósi á þá staðreynd að t.d. í Bandaríkjunum eiga sex stórfyrirtæki 80% allra fréttamiðla—að þessar málpípur skuli fá að halda uppi slíkum áróðri linnulaust.

Einn helsti áróðursmeistari bankanna, Anders Aslund—sem nýlega gaf út bók sem bankakerfið fjármagnaði í gegnum Petersen Institute í Bandaríkjunum (nýfrjálshyggjustofnun)—heldur því stöðugt fram í fjölmiðlum að hrottalegur niðurskurður ríkisstjórna og undirgefni við bankakerfið hafi bjargað Eystrasaltslöndunum og fleiri ríkjum Austur-Evrópu. Þetta er eins rangt og hugsast getur.

Litháen er að horfa upp á mesta landflótta síðan 1945 og best menntaða fólkið flýr fyrst. Kynslóðin sem átti að koma landinu inn í 21. öldina er horfin. Atvinnuleysi var 4,1% í Litháen 2007 en var komið í 18,3% í ársbyrjun 2011.

Ungverjaland stendur í stríði við erlenda banka sem hafa í hótunum við landið ef það stendur ekki í skilum. Mörg fasteignalán voru miðuð við erlenda mynt (mest svissneska franka), og þegar gjaldmiðill Ungverjalands hrundi um 40% í kjölfar bankakreppunnar, hækkuðu fasteignalán í landinu um sem svarar 22.000 milljónum dollara. Erlendir bankar tóku þá heimskulegu ákvörðun að lána sumum Ungverjum gengistryggð fasteignalán en heimta núna að allir Ungverjar (ríkið) borgi til baka.

Anders Aslund og félagar benda stöðugt á Lettland sem dæmi um blómstrandi land sem bjargaði öllu með niðurskurði og aukinni skattheimtu. Það var hagvöxtur í landinu 2011, segja nýfrjálshyggjutrúboðarnir, og atvinnuleysi minnkaði. Sannleikurinn er hins vegar sá að hagkerfið dróst saman bæði 2008 og 2010—og það hrundi um 14,7% 2009. Hagvöxturinn 2011 var því smá bakslag. Þessi hagvöxtur hverfur þó sem dögg fyrir sólu þegar banki sem varð hressilega gjaldþrota í nóvember, Snoras, verður gerður upp. Atvinnuleysi í Lettlandi var komið upp í 17,8% 2010 og féll niður í 15,6% 2011. Höfuðástæðan fyrir þessari fækkun atvinnulausra var gífurlegur landflótti. Samkvæmt nýjustu tölum hefur þjóðinni fækkað um 400.000 manns—úr 2,3 milljónum niður í 1,9 milljónir—á nokkrum árum. Greinilega sér Anders Aslund hlutina frá svipuðu sjónarhorni og Stalín sem stundum sagði: „Ekkert fólk—engin vandræði!“

Hvað gerist á hlutabréfamörkuðum heimsins 2012? Bandaríski markaðurinn (S&P 500) hækkaði um 0,4% árið 2011, en allir aðrir markaðir töpuðu samanlagt $6,3 trilljónum (evrópskum billjónum). Nikkei í Japan lækkaði um 17,3%, Hong Kong lækkaði um 20% og Shanghai í Kína lækkaði um 22%.

Bókfært verð bandarískra fyrirtækja miðað við markaðsverð hlutabréfa er ekki hátt, en það er erfitt að sjá hvernig þau geta haldið áfram að sýna hlutfallslega góðan hagnað í stöðnuðu hagkerfi. Lítum á tvö línurit. Á því fyrra sjáum við (vinstra megin) að meðalverð fyrirtækja var, vegna tæknibólunnar í kringum árið 2000, allt of hátt. Hins vegar eru fyrirtækin frekar ódýr í dag. Hafa ber í huga að bókfært verð miðað við verð hlutabréfa er aðeins ein mælistika af mörgum sem fólk notar þegar það verðleggur fyrirtæki.

Þegar við skoðum línurit yfir gróða fyrirtækja (bláa línan og skalinn til hægri) miðað við hvað allir vinnandi Bandaríkjamenn fá í sinn hlut (græna línan og skalinn til vinstri), þá sjáum við misræmi sem getur ekki haldið áfram mikið lengur. Kýrnar fá einfaldlega ekki nóg að éta til þess að mjólka meira fyrir húsbændur sína.

Spá fjögur:

Bandarísk hlutabréf lækka um 15–25%. Þetta er frekar glannaleg spá á kosningaári, en það er ekkert sérstakt í sjónmáli sem getur hjálpað þessum markaði. Margir þættir geta hins vegar lækkað hlutabréfin, t.d. Evrópa, Kína, hátt olíuverð vegna líklegrar árásar á Íran og þverrandi kaupmáttur bandarísku millistéttarinnar.

Spá fimm:

Eftir því sem líður á árið kemur betur í ljós að kínverska hagkerfið er í lægð sem einræðisstjórnin getur ekki lagað með handstýringu. Fasteignaverð, sem hefur verið að falla í nokkra mánuði, hrynur, bankakerfið verður sett í gjörgæslu og hópmótmæli stóraukast.

Kínverski kommúnistaflokkurinn reynir að koma í veg fyrir að það fréttist að fjöldamótmæli brutust út í landinu í um 180.000 skipti 2011 … en það eru smámunir miðað við það sem koma skal. Og þótt talsmenn stórfyrirtækja á Vesturlöndum haldi áfram að tala um „mjúka lendingu“ í Kína og óskeikulleika alræðisaflanna þar um slóðir, þá er hlutabréfamarkaðurinn í Shanghai á markvissri niðurleið.

Spá sex:

Japanska jenið byrjar að veikjast fyrir árslok og verður veikur gjaldmiðill í mörg ár eða áratugi. Skuldir ríkisins eru óyfirstíganlegar og meðalaldur þegnanna hækkar hratt. Peningakerfið hefur flotið á því einu að svo til allar skuldir ríkisins eru keyptar innanlands á hlægilega lágum vöxtum. Vaxandi hópur gamlingja er byrjaður að selja ríkisskuldabréf frekar en að kaupa þau og ókeypis lán ríkisins heyra brátt sögunni til. Vextir þurfa ekki að hækka í meira en 3% til þess að setja japanska ríkið lóðbeint á hausinn.

Land Endurfjármögnun ríkisskuldabréfa 2012 Útborgun (í dollurum)
Japan 3,000 milljarðar 117 milljarðar
Bandaríkin 2,783 milljarðar 212 milljarðar
Ítalía 428 milljarðar 72 milljarðar
Frakkland 367 milljarðar 54 milljarðar

Við búum við ákaflega einkennilegt hagkerfi um þessar mundir. Eðlileg hringrás fjármagnsins hefur stöðvast og helstu seðlabankar heimsins halda ballinu gangandi upp á sitt eindæmi. Bankakerfið tekur ókeypis peninga út úr seðlabönkum (óbeint frá skattgreiðendum) og lánar þá aftur ríkisstjórnum (skattgreiðendum) á hærri vöxtum. Gjaldþrota bankar og stórfyrirtæki fá ekki að fara á hausinn—skattgreiðendur redda þeim. Fólk sem mótmælir þessu óréttlæti er beitt sívaxandi ofbeldi. Hér áður fyrr var þetta fyrirkomulag—samruni stórfyrirtækja og ríkisvalds ásamt skertu frelsi einstaklingsins—kallað fasismi.