vald.org

Áróður og raunverulegar hagtölur

12. mars 2012 | Jóhannes Björn

Forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum í nóvember og miðað við fréttaflutning (sex stórfyrirtæki eiga 80% allra fréttamiðla í landinu) gæti maður haldið að efnahagslífið sé í mikilli sókn. Atvinnuleysi féll nýlega úr 9% niður í 8,3% og hlutabréfavísitala Dow Jones gælir við 13.000. Allt stingur þetta óneitanlega í stúf við nýlega spá á þessari síðu um 15–25% lækkun á bandaríska markaðinum á þessu ári. Sú spá stendur þó enn og við skulum skoða nokkrar staðreyndir sem útskýra hvers vegna.

Það er algeng skoðun meðal óháðra hagfræðinga að bandaríska hagstofan sendi iðulega frá sér mjög villandi upplýsingar þegar tölur um atvinnuleysi og verðbólgu eru á dagskrá. Það ætti ekki að vera erfitt að mæla atvinnustigið í hagkerfi þar sem skattar eru staðgreiddir, en embættismennirnir kjósa frekar að flækja málið. Alls konar reiknilíkön eru notuð, árstíðasveiflur jafnaðar, fjöldi nýstofnaðra fyrirtækja áætlaður, giskað á hve mörg fyrirtæki hafi hætt starfsemi á tímabilinu o.s.frv. Milljónir atvinnulausra sem fá ekki lengur atvinnuleysisbætur detta út úr kerfinu á meðan ungt fólk sem aldrei hefur komist inn á vinnumarkaðinn er ekki talið með. Sem dæmi þá hurfu hvorki fleiri né færri en 1,2 milljónir af vinnumarkaði í sama mánuði og atvinnuleysið féll niður í 8,3%.

Þegar prósentuhlutfall alls vinnufærs fólks á vinnumarkaði er skoðað kemur líka í ljós að atvinnusköpun heldur ekki í við eðlilega fólksfjölgun.

Það eru um 115 milljón manns í Bandaríkjunum í fullu starfi, sem er sama tala og árið 2000, en samt hefur einstaklingum á vinnumarkaði fjölgað um 33 milljónir.

Ekkert gefur skýrari vísbendingu um heilbrigði hagkerfisins heldur en upphæðin sem fólk borgar í skatta. Betri tíð skilar sér strax í hærri sköttum. Miðað við árið 2011 (svarta strikið) þá hafa innheimtir skattar á fyrstu mánuðum 2012 (bókhaldsárið byrjar 1. október) lækkað.

Þegar allt er tínt til—fólk sem ekki hefur komist á atvinnuleysisskrá, þeir sem hafa dottið út og einstaklingar í hlutastarfi sem vilja fullt starf—þá virðist raunverulegt atvinnuleysi í Bandaríkjunum vera yfir 20%. Ef fortíðin er einhver mælistika, þá er ólíklegt að vinnumarkaðurinn nái sér verulega á strik fyrr en ný íbúðahverfi byrja aftur að spretta upp, en það bólar ekkert á fjárfestingum í þessum geira (svarta strikið á botninum sem sýnir þróunina frá 2007).

Evruland er í frjálsu falli og á eftir að þrýsta öllum öðrum mörkuðum niður. Nýjar tölur frá Eurostat sýna að samdrátturinn er miklu meiri en reiknað var með. Á síðustu fjórum mánuðum hafa 450.000 störf gufað upp og Suður-Evrópa er í mjög alvarlegri kreppu. Atvinnuleysi á Spáni er komið í 23,2% (um 50% hjá ungu fólki) og 20,9% í Grikklandi. Atvinnuleysi í Portúgal er á hraðri uppleið og komið upp í 14,8% og áætlanir gera ráð fyrir 4,4% samdrætti þjóðarframleiðslu á yfirstandandi ári. Í Lettlandi og Litháen er atvinnuleysið að nálgast 15%.

Ef eitthvað ætti að halda vöku fyrir ráðamönnum í Evrópu þá er það atvinnuleysi meðal ungs fólks. Í Evrulandi er það að meðaltali komið yfir 20% og yfir 50% í Grikklandi og á Spáni. Þrátt fyrir að ástandið fari versnandi með hverjum deginum sem líður, þá slá pólitíkusarnir skjaldborg um handhafa skuldabréfa í gjaldþrota bönkum og miða allar aðgerðir við að ríkasta fólki heimsins sé bjargað. Niðurskurður í miðri kreppu er hreint brjálæði.

Blóðugur niðurskurður og skattahækkanir áttu að auka tekjur gríska ríkisins um 8,9%. Tekjurnar lækkuðu hins vegar um 7% í janúar 2012 miðað við janúar 2011. Tekjur af virðisaukaskatti lækkuðu um 18,7% og fyrirtækjum fækkaði um 36.000 á síðasta ári. Við þessar aðstæður vill evrópska elítan reka 150.000 Grikki úr vinnu og lækka kaup allra í landinu (nema hjá lögfræðingum fjármálaráðuneytisins sem fengu bæði kauphækkanir og bónusa).

Það er ekki verið að bjarga Grikklandi þessa dagana. Það er verið að bjarga bönkum sem brugðust hlutverki sínu þegar þeir veittu landinu glannaleg lán á háum vöxtum. Grikkland er alveg jafn gjaldþrota eftir þessar aðgerðir. En í heimi afleiðuviðskipta (þar sem lán eru tryggð af þriðja aðila) ríkir nýr veruleiki sem á eftir að hækka vexti á ríkisskuldabréfum um alla S-Evrópu. Afleiður veittu ekki þá tryggingu sem menn væntu og áhættuþóknunin verður því að hækka. Á sama tíma eru bankar í S-Evrópu, sérstaklega í Grikklandi og Portúgal, að tæmast.

Framhald …