vald.org

Gunnar Tómasson: Bréf til Alþingismanna

15. mars 2012 | Gunnar Tómasson

Sakamálara​nnsókn á háttsemi lánastofna​na við gengistryg​gingu krónulána

Ágætu alþingismenn:

Í framhaldi af fyrri tölvupósti mínum um dóm Hæstaréttar í máli nr. 600-2011 leyfi ég mér að framsenda á ykkur eftirfarandi innlegg mitt á Facebook fyrr í dag:

Hæstiréttur Íslands hefur úrskurðað að gengistrygging krónulána eftir setningu laga nr. 38/2001 hafi brotið gegn ótvíræðu banni þeirra á slíkri gengistryggingu.

Fjárhagslegt tjón tugþúsunda lántakenda af ólöglegri gengistryggingu krónulána nemur ótöldum milljörðum króna.

Eftir úrskurð Hæstaréttar er ekkert því til fyrirstöðu að embætti ríkissaksóknara og/eða ríkislögreglustjóra hefji sakamálarannsókn á háttsemi lánastofnana við gengistryggingu krónulána.

Upplýsingar á vef ríkissaksóknara árétta að slík sakamálarannsókn er lögbundin skylda embætta ríkissaksóknara og/eða ríkislögreglustjóra:

Samkvæmt gildandi skipan fara ríkissaksóknari og lögreglustjórar, þar með talinn ríkislögreglustjórinn, með ákæruvaldið í landinu í öllum megin atriðum.

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og sæta lögreglustjórar, 17 talsins að meðtöldum ríkislögreglustjóranum, eftirliti og leiðsögn af hálfu ríkissaksóknara í störfum sem ákærendur og handhafar ákæruvalds.

Hlutverk ákærenda
Ákærendur fara með opinbert vald, ákæruvald, og hafa það hlutverk að tryggja, fyrir hönd samfélagsins og í almannaþágu, að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum.

Af ýmsum ákvæðum laga um meðferð sakamála má ráða hver eru megin viðfangsefni ákærenda og skal þeirra getið hér:

Ákærendur taka ákvörðun um hvort opinber rannsókn (sakamálarannsókn) sem lögreglan framkvæmir skuli fara fram eða ekki. Ber þeim að hafa í huga að ekki á að hefjast handa um opinbera rannsókn nema rökstuddur grunur sé kominn fram um að refsiverð háttsemi, sem á undir ákæruvaldið, hafi verið drýgð. Markmið rannsóknar er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómstólum.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur


Vald.org birti eftirfarandi grein um þetta mál á sínum tíma.

Setti Seðlabankinn Ísland á hausinn?

27. október 2010 | Jóhannes Björn

Eitt lykilatriði sem Gunnar Tómasson hefur bent á í sambandi við hrunið hefur ekki fengið nægjanlega umfjöllun: Seðlabankinn braut sennilega lög þegar hann frestaði gjaldþroti bankanna um a.m.k. tvö ár.

Gömlu bankarnir tóku gríðarlega há erlend lán árið 2003 sem voru til fimm ára. Strax 2005 eða í ársbyrjun 2006 var ljóst að bankarnir yrðu ekki í aðstöðu til þess að endurgreiða þessi lán haustið 2008. Rannsóknarskýrslan segir að bankarnir hafi verið komnir í veruleg vandræði 2006.

Næst gerast tveir hlutir sem rannsaka verður niður í kjölinn.

Stjórnendur Seðlabankans vissu vel að gjaldeyristryggð lán voru ólögleg, enda var Eiríkur Guðnason í nefnd sem samdi frumvarp að lögum nr. 38/2001, en samt voru þau leyfð.

Næst kom (að virðist) hroðalegasta bókhaldsvindl Íslandssögunnar. Seðlabankinn skilgreindi gjaldeyristryggð lán—lán veitt í íslenskum krónum sem voru endurgreidd í íslenskum krónum—sem gjaldeyriseign í bókhaldi bankanna!

Hvers vegna var þetta gert? Jú, samkvæmt 13 gr. Seðlabankalaga frá 2001 máttu gjaldeyrisskuldir bankanna ekki fara yfir 10% eigna þeirra í erlendri mynt. Sá sem átti eignir upp á milljón dollara mátti ekki skulda meira en 1,1 milljón dollara. Með því að reikna lán í íslenskum krónum sem voru endurgreidd í íslenskum krónum sem GJALDEYRI var bönkunum haldið á floti.

Þegar bankarnir rúlluðu í septemberlok 2008 mátti neikvæð gjaldeyriseign þeirra vera, lögum samkvæmt, um 100 milljarðar. Staðan var hins vegar neikvæð um 2800 milljarða! Þróun sem gat átt sér stað eingöngu vegna þess að íslenskar krónur voru bókfærðar sem gjaldeyrir.

Bankarnir voru gjaldþrota 2006 og bókhaldið hefði sýnt þá staðreynd ef Seðlabankinn hefði ekki leyft þeim að spila með bókhaldið. Tíminn hafði feikilega mikið að segja. Það hefur verið reiknað út að ef bankarnir hefðu farið á hausinn í ágúst 2007 þá hefði þjóðin sparað sér 2250 milljarða.

Við skiljum aldrei almennilega IceSave-delluna, ástarbréf bankanna og annað nema við fáum skýr svör við nokkrum spurningum:

Hvaða aðilar innan Seðlabankans tóku ákvörðun um að leyfa bönkunum að stunda ólöglega lánastarfsemi í formi gjaldeyristryggðra lána?

Hvaða aðilar tóku þá ótrúlegu ákvörðun að breyta íslenskum krónum í gjaldeyri í bókhaldi bankanna og hvers vegna?

Þetta eru lykilspurningar og við skiljum aldrei hrunið fullkomlega nema við fáum greinagóð svör við þeim.