vald.org

Áróður og raunverulegar hagtölur … framhald

19. mars 2012 | Jóhannes Björn

Þegar tímarit sem ekki sérhæfa sig í peningamálum, eins og t.d. og Time og Newsweek, birta forsíðufréttir um „heitar“ fjárfestingar, þá bendir það venjulega til þess að einhver bóla sé rétt í þann mund að springa. Þannig átti Dow hlutabréfavísitalan að vera á leið til skýjanna (36,000) rétt áður en hún hrundi árið 2000. Skömmu fyrir hrun fasteignamarkaðarins í Bandaríkjunum birtust fleiri en ein forsíðufrétt um „nýtt“ hagkerfi þar sem allir gátu keypt sér þak yfir höfuðið.

Forsíðufrétt í Barron's 17. mars 2012 spáir nýju blómaskeiði á bandarískum fasteignamarkaði.

Höfundur greinarinnar er Jonathan R. Laing, en svo skemmtilega vill til að hann skrifaði svo til nákvæmlega sömu grein fyrir fjórum árum! Þann 14. júlí 2008 spáði þessi spekingur að botninum væri náð og fasteignaverð á Bandaríkjamarkaði færi brátt hækkandi. Raunverulegar tölur segja okkur hins vegar að bandarískt íbúðahúsnæði hefur lækkað úr samtals $22,711 milljörðum í árslok 2006 niður í $15,963 milljarða í dag. Almenningur hefur því tapað $6,746 milljörðum á þessu tímabili. Verðið er enn á niðurleið og tölur um eignarhlutfall fólks í íbúðahúsnæði landsins (verð fasteigna miðað við fasteignaskuldir) sýna ljóta þróun. Árið 1980 áttu landsmenn að meðaltali um 70% í húsnæði sínu, en í dag er þetta hlutfall komið niður í 38,4%. Bankakerfið fengi 61,6% allra fasteigna í sinn hlut ef dæmið væri gert upp í dag.

Ritstjórar Barron's gera sér sennilega fulla grein fyrir að flestar upplýsingar benda til þess að bandaríski fasteignamarkaðurinn verði frekar slappur í mörg ár til viðbótar. Tekjur 90% vinnandi fólks hafa lækkað, atvinnuleysi er mikið, framboð á húsnæði í hámarki og hækkun vaxta fyrirsjáanleg. Námsskuldir hafa hækkað gífurlega á nokkrum árum og nálgast þúsund milljarða dollara. Milljónir ungmenna, sem í eðlilegu árferði hefðu hafið búskap, búa enn í foreldrahúsum og koma ekki til með að fara inn á fasteignamarkaðinn fyrr en hagkerfið hefur náð sér varanlega á strik. Barron's virðist vera að nota forsíðuna til þess að „kjafta upp“ markaðinn.

Hitler, sem var valinn maður ársins hjá Time 1938, og margir aðrir skuggalegir náungar hafa lent á ruslahaugi sögunnar skömmu eftir að vera hampað á forsíðu blaðsins. Mussolini og enski fasistinn Oswald Mosley eru í þessum hópi.

The Atlantic er með nýja forsíðufrétt um Ben Bernanke, hetjuna sem bjargaði hagkerfi heimsins … hallelúja … og það vantar ekkert nema geislabaug til þess að undirstrika að tímaritið er að fjalla um hálfguð en ekki dauðlegan mann! Sennilega er þetta vísbending um að vúdú-hagfræði þyrlu-Bens sé að renna sitt skeið á enda og timburmenn stanslausar seðlaprentunar komi brátt í ljós.

Það hefur aldrei í sögu hagfræðinnar verið hægt að prenta óhóflegt peningamagn (umfram hagvöxt) án þess að fá verðbólguskot í hausinn skömmu síðar. Verðbólguskot koma oftast á óvart og það er mjög erfitt að stilla verðlaginu aftur í hóf. Væntingar um áframhaldandi verðbólgu auka nefnilega veltuhraða peninga vegna þess að fólk reynir strax að breyta verðbólgupappírum í föst verðmæti (fasteignir, gull o.s.frv.).

Árið 1922 höfðu margir hagfræðingar áhyggjur af því að þýski seðlabankinn prentaði ekki nóg af peningum. Markaðurinn var of „þröngur“ og New York Times sagði í fyrirsögn: Tight Money in German Market: Causes of the Abnormally Rapid Currency Deflation at Year-End. Aðeins ári síðar var verðbólgan í Þýskalandi komin í 50% á mánuði.

Á síðustu öld sáu Bandaríkjamenn mörg dæmi um verðbólguskot sem mátti rekja beint til aukinnar seðlaprentunar. Prentvélarnar fjármögnuðu fyrra stríð að verulegu marki og verðbólgan stökk úr 1% árið 1915 í 17% 1917. Árið 1945 höfðu menn litlar áhyggjur af 2% verðbólgu þrátt fyrir aukið peningamagn í umferð … en tveim árum seinna var hún komin í 14%. Verðbólgan var líka óveruleg 1972 en seðlaprentun vegna hækkandi olíuverðs og stríðsins í Víetnam komu henni upp í 11% 1974.

Það sem stærstu seðlabankar heimsins aðhafast þessa daganna er miklu stórtækara heldur en fyrrefnd dæmi frá Bandaríkjunum. Peningakerfi heimsins, sem byggir á stigvaxandi skuldasöfnun, hrundi 2008 og öflugustu seðlabankarnir hafa síðan reynt að bjarga kerfinu með miklu meiri skuldum (lánum til stórra banka). Þetta er eins og að reyna að bjarga drukknandi manni með því að sprauta á hann vatni! Ráðamenn vita sennilega vel að seðlafjallið (að mestu rafrænt nú til dags) á eftir að unga út verðbólgu og þess vegna leita þeir mótvægis með því að lækka lífskjör almennings þar sem hægt er að koma því við.

Elítan sem raunverulega togar í alla spotta rekur áróður á tveimur vígstöðvum:

  1. Almenningur ber ábyrgð á lánafylleríi nokkra stórbanka og skal því borga. Fólk hefur það of gott, vinnur of fáar vinnustundir og fær borgað úr eftirlaunasjóðum sem brátt munu tæmast. Íbúar S-Evrópu eru letingjar sem eyða löngum stundum í léttvínsþamb á sólríkum baðströndum. PIIGS-löndin steyptu sér sjálf í óraunhæfar skuldir og þau skulu borga … og borga. Stóru fjölmiðlarnir tyggja þetta dag eftir dag.
  2. Nokkrir stórbankar eru svo mikilvægir að skattgreiðendur verða að bjarga þeim og um leið redda nokkrum ríkustu einstaklingum heimsins. Þetta 0,001% jarðarbúa eru auðmenn sem eiga skuldabréf í bönkunum, lán til bankanna sem eru lykilinn að því sem stundum er kallað power of control—eða óbein yfirráð án þess að vera sýnilegur stórhluthafi. Til þess að afsaka þetta hróplega óréttlæti er okkur sagt að sumir bankar séu of stórir til þess að falla.

Sem sagt, heimurinn hrynur ef illa reknir bankar eru gerðir upp. Charles Huge Smith segir um þetta atriði:

„Að halda því fram að það hafi verið nauðsynlegt að bjarga peningastofnunum til þess að bjarga hagkerfinu er svipað og að segja að það sé nauðsynlegt að bjarga stórum hringormi, sem búinn er að festa sig innvortis í sjúklingi, til þess að bjarga sjúklingnum. Rökunum er snúið á haus. Bankarnir (hringormurinn) sýktu hagkerfið (sjúklinginn) og báru ábyrgð á að það hrundi.“

Helsta hlutverk banka er að stunda gott áhættumat og sjá til þess að fjármunir samfélagsins renni í rétta (arðsama) farvegi. Þegar bankar byrja að kenna viðskiptavinum sínum (sem ekki hafa brotið lög) um eigin ófarir, þá eru hlutirnir hræðilega öfugsnúnir. Ef við skoðum stöðu nokkra banka fyrir hrunið 2008—stórbanka sem skattgreiðendur voru neyddir til þess að bjarga—þá sjáum við að þeir höfðu ekki hugmynd um (eða földu í bókhaldinu) hættuna sem var á næstu grösum.

Bæði Barclays og Society Genarale töldu stöðuna fara batnandi á milli 2004 og 2007. Áhættan minnkaði árlega á meðan báðir bankarnir söfnuðu ruslabréfum og stunduðu glannalega lánastarfsemi.

BNP Paribas, franskur stórbanki, virtist líka vera í góðum málum.

Bankinn riðaði til falls í ágúst 2009 og markaðirnir skulfu. Evrópski seðlabankinn varð að dæla 95 milljörðum evra inn í kerfið. Næsta dag dældi hann inn öðrum156 milljörðum evra á meðan bandaríski seðlabankinn bætti við $45 milljörðum og japanski seðlabankinn þúsund milljörðum jena.

Commerzbank í Þýskalandi var með flott bókhald þar til þýskir skattgreiðendur neyddust til þess að kaupa 25% hlutabréfanna fyrir 18,9 milljarða evra.

Framhald …