vald.org

Rafrænt gull og raunverulegt

10. apríl 2012 | Jóhannes Björn

Draumur gullgerðarmanna miðalda um að skapa verðmæti úr engu með því að breyta óæðri málmum í gull, rættist að sumu leyti þegar fyrstu seðlabankar heimsins voru stofnaðir. Lengi vel voru seðlabankarnir í einkaeign og þeir lánuðu ríkisstjórnum og venjulegum bönkum miklu meira fjármagn heldur en þeir áttu í gulli eða öðrum verðmætum.

Gullgerðarlistin virkaði vel fyrir eigendur seðlabankanna, sem uppskáru vexti af nýju fjármagni í umferð, en almenningur borgaði fyrir þessi töfrabrögð á endanum þegar útþynntir gjaldmiðlar glötuðu verðgildi sínu eða einfaldlega hrundu. Óðaverðbólga rústaði t.d. franska hagkerfinu tvisvar á átjándu öld og ævintýraleg verðbólga í Þýskalandi hjálpaði nasistum að ná völdum.

Nútíma bankakerfi—þar sem nýir peningar eru stöðugt settir í umferð í formi lána sem bera vexti—stenst ekki til lengdar vegna þess að hagkerfið í heild verður alltaf að slá ný lán til þess að geta borgað vextina. Þetta er eins og að blása í blöðru á uppgangstímum og hleypa síðan úr henni þegar hagkerfið hægir á sér. Græðgi, mannlegt eðli og vaxandi völd þeirra sem græða mest á að blaðran sé þanin tryggja síðan að hún springur með vissu millibili.

Í kjölfar kreppunnar 1929 gerðu stjórnvöld ýmislegt rétt, en enginn hróflaði þó við tæknilegum hliðum peningakerfisins. Kreppan hélt líka sínu striki (ástandið byrjaði aftur að versna 1937) þar til mesta eyðilegging sögunnar, styrjöldin 1939-1945, færði allt spilverk neyslu og uppbyggingar marga áratugi til baka. Hrunið 2008 var af sama toga og hrunið 1929—þar sem greiðslufærni fjaraði út, en ekki, eins og við sjáum í venjulegum efnahagslægðum, vandinn er bundinn við minna peningaflæði (t.d. vegna hærri vaxta sem fylgja ofþenslu)—en í þetta skipti hafa yfirvöld stóru landanna ekki gert neitt af viti. Elítan sem með réttu ætti að taka í karphúsið er búin að kaupa pólitíkusana.

Nokkrir stórbankar settu hagkerfi heimsins á hausinn og ríkisstjórnir sendu fólkinu reikninginn. Bönkunum var bjargað og yfirmenn þeirra borguðu sjálfum sér ríflega bónusa. Hagkerfi heimsins hrundi 2009. Það sama ár voru 25 stjórnendur stærstu vogunarsjóða heimsins—sömu menn og græddu mest á ónýtum verðbréfavöndlum—með $25,3 milljarða í tekjur eða $2000 á mínútu á mann.

Seðlabankar Bandaríkjanna, Bretlands, Japan og Evrulands hamast við að prenta peninga. Það leysir engan vanda vegna þess að vandinn liggur ekki í þverrandi peningaflæði. Það er aðeins verið að hlaða meiri skuldum á gjaldþrota kerfi. Þetta er tímasprengja sem á einhverjum tímapunkti orsakar annað hvort miklu meiri verðbólgu en flesta grunar eða hærri vexti á ríkisskuldabréfum. Frekar hóflegir (í sögulegu samhengi) 5% vextir af 10 ára ríkisskuldabréfum er þyngri baggi en þessi skuldugu hagkerfi þola. Sem dæmi, þá skuldar bandaríska ríkið $15, 6 trilljónir (evrópskar billjónir) og ef það þyrfti að borga 5% vexti af þessari upphæð, þá væri árleg vaxtabyrði um $780 milljarðar eða 35% allra tekna ríkisins. Það gengur ekki upp í hagkerfi sem nú þegar fær lánað fyrir 40% allra útgjalda.

Hlutfallslega séð verður Japan, sem hefur steypt sér í ofurskuldir til þess að halda dauðum bönkum gangandi í yfir 20 ár, í miklu verri málum þegar vextir hækka og S-Evrópa er nú þegar að kveðja. Stjórnmálamenn og fréttafjölmiðlar í eigu risafyrirtækja eiga hins vegar eftir að halda áfram að boða nýtt blómaskeið alveg fram í andlátið. Þannig var það líka 1929.

Aðilar sem sitja næst kjötkötlunum, bankar og brasksjóðir, græða mest á óhóflegri peningaframleiðslu seðlabanka heimsins. Peningarnir eru nærri því ókeypis (vextir nálægt núllinu) og bankar og braskarar nota þá aðallega til þess að kaupa ríkisskuldabréf, hráefni og hlutabréf. Eins og eftirfarandi línurit sýnir þá spilar t.d. bandaríski hlutabréfamarkaðurinn eftir því hvernig prentvélarnar (tölvuinnslátturinn) hamast. Hreinræktuð seðlaprentun, kaup seðlabankans á ríkisskuldabréfum, sést á gráu svæðunum. Markaðurinn hækkar í hvert skipti sem flóðgáttirnar opnast.

Raunverulega ætti hlutabréfamarkaðurinn að lækka í hvert skipti sem „hrá“ seðlaprentun á sér stað. Menn ættu að óttast verðbólgu og hærri vexti í náinni framtíð. En bandaríski hlutabréfamarkaðurinn hefur breyst í spilavíti þar sem sekúndubrot og klukkustundir skipta meira máli en morgundagurinn. Yfir 80% allra kauphallarviðskipta fara fram með ofurtölvum sem græða á minnstu sveiflum, t.d. með því að bjóða þúsundir hlutabréfa til sölu og draga síðan tilboðið til baka á sömu sekúndu, þ.e. áður en nokkur hefur tíma til þess að kaupa.

Gull og silfur hafa heldur betur orðið fyrir barðinu á ofurtölvum á markaðinum í New York og London, og af einhverjum ástæðum hafa eftirlitsaðilar ekki skipt sér af þessum endalausu lögbrotum. Allar hundakúnstir sem orsaka hærra eða lægra markaðsverð heldur en eðlilegt samspil framboðs og eftirspurnar ákveður eru ólöglegar. Þótt gull hafi hækkað gífurlega síðasta áratuginn, þá hefði það hækkað miklu meira ef sterkir aðilar í New York og City of London væru ekki í stöðugum slag við það.

Já, gullið glóir … en hér kemur eitt furðulegasta graf allra tíma. Ef einstaklingur hefði keypt sama gullmagn á hverjum degi í 11 ár á mörkuðum London og New York, og síðan selt það aftur þegar markaðirnir í Asíu opnuðu, þá hefði hann staðið uppi með 70% tap þótt heimsmarkaðsverð á gulli hafi hækkað um 500% á sama tímabili!

Eftirfarandi myndband sýnir blóðbaðið sem átti sér stað 29. febrúar þegar heimsmarkaðsverð á gulli og silfri hrapaði eins og grjót á örstuttum tíma. Þetta var afrekað með „nöktum skortsölum“ (sennilega mest með ofurtölvum), sem þýðir að einhverjir aðilar voru að selja gull og silfur sem þeir hvorki áttu né leigðu tímabundið sem tryggingu. Þetta eru ekki eðlileg viðskipti þar sem menn eru að reyna að græða. Þetta er glannaskapur sem hefur það eitt markmið að lækka verð góðmálma.

Svipað atvik og lýst er í atburðarásinni hér að ofan átti sér stað á markaðinum í New York 20. mars þegar 75.000 gullsamningar voru seldir á einni sekúndu!

Eins og fyrr sagði þá er markaðsíhlutun af þessu tagi ólögleg, en hún viðgengst vegna þess að yfirvöld eru með í leiknum. Viðmiðunargjaldmiðilinn, dollarinn, er í lífshættu og sama má segja um evruna, en seðlabanki Evrópu hefur nýlega margfaldað peningaframleiðsluna. Hækkandi gullverð minnir fólk stöðugt á þá staðreynd að þessir gjaldmiðlar byggja á sandi. Hafa yfirvöld beinlínis játað að vera samsek í þessu samsæri gegn gulli? Já, í leyniplaggi, en skeyti frá bandaríska sendiráðinu í Kína til Washington sem Wikileaks birti hljóðar svona:

Gullforði Kína hefur nýlega verið að aukast. Mest af gullforða heimsins hefur hingað til verið geymdur í Bandaríkjunum og Evrópu. Bandaríkin og Evrópa hafa alltaf haldið hækkandi gullverði í skefjum [„… suppressed the rising price of gold.“]. Þau [Bandaríkin og Evrópa] vilja veikja viðmiðunargjaldmiðilsstöðu gulls. Þau vilja ekki að önnur lönd safni gullforða í stað dollara eða evru.

Þess vegna hentar það Bandaríkjunum vel að halda gullverði í skefjum svo dollarinn haldi áfram að vera alþjóðlegur viðmiðunargjaldmiðill. Vaxandi gullforði Kína mun verða fyrirmynd sem hvetur önnur lönd til þess að safna meiri gullforða.

The War on Gold, eins og Antony C. Sutton kallaði það í frábærri bók sem kom út 1977, hefur staðið í marga áratugi og er alvöru stríð sem er viðurkennt af flestum sem þekkja til viðskipta með góðmálma. Þegar fylkisstjórn Suður-Karólínu íhugaði að fjárfesta í góðmálmum fékk hún t.d. eftirfarandi svar frá fjármálastjóra fylkisins, Curtis M. Loftis Jr.:

Similar to other commodities, the value of gold and silver is determined by supply and demand, as well as speculation. The Federal Reserve, The London Bullion Market Association, JP Morgan Chase, and HSBC Holdings have practiced fractional-reserve banking and engaged in naked short selling causing artificial price suppression.

Skipulagðar, naktar skortsölur hægja á hækkunum góðmálma en koma ekki í veg fyrir þær. Gamli áróðursfrasinn um að gull sé of sjaldgæft til þess að hægt sé að nota það sem viðmiðunargjaldmiðil virkar heldur ekki mikið lengur. Flestir gera sér grein fyrir að framboð og eftirspurn ráða verðinu og magnið skiptir því litlu máli. Hér áður fyrr, þegar gull var notað til þess að jafna viðskiptareikninga á milli landa, þá þurfti sáralítið magn til þess að dæmið gengi upp.

… gulltrygging gjaldmiðla, þegar henni er stýrt í gegnum greiðslujöfnunarstöð, útheimtir hlutfallslega mjög lítið gullmagn. Á milli 1944 og 1971 varð gulltrygging dollarans (og þar með óbein gulltrygging allra helstu gjaldmiðla) til þess að koma á betra jafnvægi á milli út- og innflutningstekna helstu iðnríkja heims. Þess vegna þurfti greiðslujöfnunarstöðin í London, Global Clearing House, aldrei að liggja með meira en nokkur hundruð tonn gulls. Þetta gerðist á mestu uppgangstímum allra tíma, þegar vinnuvikan var stytt og lífskjör venjulegs fólks bötnuðu til muna.

Margir seðlabankar eru að kaupa gull, sennilega vegna væntinga um að það verði notað þegar peningakerfi heimsins verður næst stokkað upp. Flest bendir til þess að Kínverjar séu bókstaflega að hamstra gull. Þeir liggja með gjaldeyrisforða upp á yfir $3000 milljarða og stór hluti upphæðarinnar er bundinn í erlendum ríkisskuldabréfum sem verða vafasamari með hverjum deginum sem líður. Gullkaupin eru líka liður í lengri áætlun. Í sumar opna Kínverjar nýja gullkauphöll, Pan Asia Gold Exchange, og það styttist í að gjaldmiðill landsins verði látinn fljóta á alþjóðlegum mörkuðum. Gjaldmiðill, eins og t.d. svissneski frankinn, sem hefur hlutfallslega mikla gulleign ríkisins á bak við sig, nýtur bæði trausts og virðingar.

Kínverska ríkið auglýsir ekki gullkaup sín af ótta við að það hækki heimsmarkaðsverðið áður en það hentar Kínverjum sjálfum. Það er þó ekki hægt að vera alveg ósýnilegur á svona markaði. Árið 2009 viðurkenndi Kína að hafa aukið gullforða sinn í leyni um 75% á sex árum. Við vitum lítið um gullkaup Kína síðan þá, en „ósýnilegir“ kaupendur eru býsna áberandi á þessum markaði. Reuters sló því t.d. nýlega allt að föstu að nafnlaus kaupandi á 150 tonnum gulls væri Kína. Bloomberg greindi líka nýlega frá því að Kína hafi keypt 3,6 milljónir únsa frá Hong Kong, en það var 483% aukning frá fyrra ári.

Gullmarkaðurinn sem opnar brátt í Kína á með tímanum eftir að bylta þessum viðskiptum og um leið grafa undan stöðu dollarans. BRIC-löndin (Brasilía, Rússland, Indland, og Kína) eru í hagfræðilegu tilliti vaxin úr grasi og vel í stakk búin til þess að skapa sinn eigin viðmiðunargjaldmiðil.