vald.org

Afstaða Framkvæmda​stjórnar ESB til ákæru ESA gegn Íslandi fyrir EFTA dómstólnum

3. júní 2012 | Gunnar Tómasson

Ágætu alþingismenn,

Í frétt á visir.is í dag um afstöðu Framkvæmdastjórnar ESB til ákæru ESA gegn Íslandi fyrir EFTA dómstólnum segir m.a.:

Framkvæmdastjórnin, sem stefndi sér til meðalgöngu inn í málið, heldur því meðal annars fram í greinargerð að alltaf hafi verið ljóst að í mjög víðtækum bankakrísum þyrftu stjórnvöld að grípa inn í innistæðutryggingar. Orðalag tilskipunar 94/19 sé skýrt og það sé enginn vafi á því að íslenska ríkið hafi brotið gegn svokallaðri árangursskyldu (e. obligation of result) með því að innistæðueigendur fengu ekki greitt innan þess frests sem tilskipunin kveður á um. Kerfið væri þýðingarlaust ef stjórnvöldum nægði að setja upp tóma tryggingarsjóði.

Umsögn

Það reyndi ALDREI á það hvort „innistæðueigendur [myndu fá] greitt innan þess frests sem tilskipunin kveður á um.“

Skv. tilskipun ESB er ekki um neina greiðsluskyldu innistæðutryggingarsjóðs að ræða FYRR EN Fjármálaeftirlitið getur út formlega yfirlýsingu um ógjaldfærni viðkomandi fjármálafyrirtækis—Landsbankans í þessu tilfelli.

Fjármálaeftirlitið gaf út slíka yfirlýsingu 27. október 2008.

Í Icesave I samningsdrögunum var tekið mið af gengi krónu gegn evru þann 27. október við umreikning á lágmarkstryggingarupphæð í evrum í íslenzkar krónur.

Það er því ljóst að aðila greindi ekki á um lögformlega þýðingu yfirlýsingar Fjármálaeftirlitsins.

Daginn eftir greiðsluþrot Landsbankans 6. október 2008 lýsti brezki fjármálaráðherrann því yfir að Ísland NEITAÐI að standa við SKULDBINDINGAR sínar skv. tilskipun ESB.

Hér er um tvöfalda rangfærslu að ræða:

  1. Hvorki innistæðutryggingarsjóðurinn né ríkisstjórn Íslands settu fram neina slíka neitun.
  2. Skuldbindingar innistæðutryggingarsjóðs skv. tilskipun ESB voru ekki til staðar á umræddum tíma.

Þegar hugsanlegar skuldbindingar innistæðutryggingarsjóðs urðu virkar þann 27. október 2008 höfðu brezk og hollensk stjórnvöld yfirtekið greiðsluskyldu gagnvart eigendum Icesave-reikninga—og höfðu til þess fullan rétt enda töldu þau að það þjónaði þjóðarhagsmunum þeirra á þeim tímapunkti.

Stjórnvaldsaðgerðir í þágu þjóðarhagsmuna geta ekki skapað endurgreiðsluskyldu annarra þjóða.

Ísland SKULDAÐI því Bretum og Hollendingum ekkert—nema þakkir fyrir að taka ómakið af íslenzka innistæðutryggingarsjóðnum!

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur