vald.org

Gunnar Tómasson: Bréf til Alþingismanna

11. júní 2012 | Gunnar Tómasson

Ágætu alþingismenn,

Eftirfarandi samantekt mín varðar tölfræðilegt mat Þjóðmálastofnunar HÍ á samdrætti í landsframleiðslu á árabilinu 2008–2010.

Við fyrirhugaða athugun á valkostum við afnám gjaldeyrishafta skiptir meginmáli að greiðsluþol þjóðarbúsins verði ekki ofmetið.

Af einhverjum ástæðum hefur AGS ekki gert athugasemd við útreikninga á samdrættinum 2008–2010 á föstu krónuverði.

Eins byggja umsagnir erlendra hagfræðinga um íslenzka hagkerfið eftir hrun á tölfræðilegu mati Þjóðmálastofnunar.

Vanmat á vandanum við afnám gjaldeyrishafta þjónar ekki íslenzkum hagsmunum.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur

* * *

Í skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands sem kom út í apríl 2012 var samdráttur í landsframleiðslu eftir bankahrunið 2008 sagður vera „samanlagt um 10% og kom hann fram á árunum 2009 og 2010” (bls. 11).

Hér er átt við verga landsframleiðslu á föstu krónuverði, en hún jókst um 1,3% árið 2008, en dróst saman um 6,8% árið 2009 ogum 4,0% árið 2010. (Tölur úr síðustu skýrslu AGS um Ísland.)

Miðað við 2007 lækkaði vísitala vergrar landsframleiðslu þannig úr 100,0 í 90,6 eða um samtals 9,4% á árabilinu 2008–2010.

Aðferðafræði við útreikninga af þessu tagi ræðst af tilgangi þeirra, sbr. fyrirvara Alþingis við samninginn sem Forseti Íslands vísaði til við undirritun laga nr. 96/2009 um ríkisábyrgð vegna Icesave.

Þar var kveðið á um að „vöxtur á vergri landsframleiðslu Íslands skv. 3. mgr. skal mældur frá 2008 til greiðsluárs á árabilinu 2016–2024 annars vegar í pundum vegna lánasamningsins við breska ríkið og hins vegar í evrum vegna lánasamningsins við hollenska ríkið. Útreikningur á greiðslum skv. 3. mgr. skal byggjast á meðalgengi miðgengis Seðlabanka Íslands á pundi og evru gagnvart krónu á ársgrundvelli og mati á vergri landsframleiðslu samkvæmt skilgreiningu Eurostat.‟

Með öðrum orðum, stjórnvöld gerðu sér grein fyrir því að greiðsluþol þjóðarbúsins vegna Icesave myndi ráðast af andvirði vergrar landsframleiðslu í pundum og evrum en ekki í íslenzkum krónum.

Með hliðsjón af gengishruni krónunnar frá 2007 til 2010, þá skiptir meginmáli hvort mat á samdrætti vergrar landsframleiðslu á árunum 2008–2010 byggir á andvirði hennar í krónum (ISK) eða erlendri mynt (t.d. bandaríkjadal/USD).

Þannig má fá grófa hugmynd um samdrátt vergrar landsframleiðslu 2008–2010 með því að umbreyta nafnvirði hennar í ISK í USD. Frá miðju ári 2007 til miðs árs 2010 breyttist gengið úr ISK62 = USD1 í ISK128 = USD1.

Samtíma breytinga á vergri landsframleiðslu í USD var minus 10,9% árið 2008, minus 27,2% árið 2009 og 1,7% árið 2010. Eða úr jafngildi USD21,1 milljarður árið 2007 í USD12.0 milljarð árið 2010.

Með öðrum orðum, samdráttur vergrar landsframleiðslu í USD á árabilinu 2008–2010 nam því samtals um 43% í stað þeirra 9,4% sem fæst með útreikningi á samdrættinum miðað við fast krónuverð.