vald.org

Gunnar Tómasson: Bréf til Alþingismanna

13. júní 2012 | Gunnar Tómasson

Ágætu alþingismenn.

Í innleggi kollega ykkar Lilju Mósesdóttur á Facebook fyrr í dag (Afskriftir í nafni mannúðar) segir m.a.:

„Í stað þess að gera fátækum evrulöndum í vanda kleift að auka útflutning og afskrifa ósjálfbærar skuldir hafa Þjóðverjar neytt þessi lönd til að auka skuldsetningu ríksjóðs og skera niður ríkisútgjöld til að endurfjármagna töpuð lán banka.Töpuð útlán bankakerfisins eru þannig gerð að skuld skattgreiðenda.‟

Þessi orð Lilju urðu mér tilefni til innleggs um málið frá hlið sem er jafn óvænt og umsögn mín er óvægin.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur

* * *

Umsögn.

Glæpir gegn mannkyni (e. crimes against humanity) eru af ýmsu tagi. Atburðir líðandi stundar í Sýrlandi eru dæmi um verklag níðinga á valdastóli þegar um völd og hagsmuni er að tefla.

Alþjóðdómstólar hafa verið settir á fót til að láta viðkomandi svara til saka en aðrir, og nýstárlegri, glæpir gegn mannkyni hafa enn ekki vakið alþjóðasamfélagið til meðvitundar um siðferðilega ábyrgð sína og skyldur þaraðlútandi.

Orð Lilju Mósesdóttur hér að ofan—„Töpuð útlán bankakerfisins eru gerð að skuld skattgreiðenda.“—vísa til myndbirtingar eins slíks glæps gegn mannkyni.

Hér er djúpt tekið í árinni, en staðreyndin er sú þegar grannt er skoðað að útlán alþjóðapeningakerfisins eru búin til úr ENGU.

Alþjóðapeningakerfið er LOKAÐ KERFI þannig að eignir/útlán og skuldir/innstæður í efnahagsreikningi kerfisins eru alltaf í jafnvægi; hver lánveiting eykur jafnt eignir og skuldir lánastofnana innan kerfisins.

Fyrir 30 árum átti ég í skoðanaskiptum við þáverandi bankastjóra Landsbankans á síðum Morgunblaðsins og benti m.a. á þessa staðreynd.

Bankastjórinn svaraði því til að hér væri sagan einungis hálfsögð, og átti þar við þjónustu bankakerfisins við móttöku og útlán sparifjár.

Það má flækja einfalda hluti, en hvert sem hlutverk peninga kann að vera eftir að þeir hafa orðið til úr ENGU breytir ekki umræddri staðreynd.

Allt frá upphafi áttunda áratugar síðustu aldar hefur vaxtarhraði útlána alþjóðapeningakerfisins og vaxta verið langt umfram vaxtarhraða heimsframleiðslu á vörum og þjónustu.

Það hefur jafnlengi blasað við að svo gæti ekki orðið til eilífðar ÁN þess að eitthvað léti undan—að sívaxandi skuldir sem sprottnar eru af ENGU myndu sprengja skuldaþol framleiðslu sem byggir á vinnuafli, hugviti, tækni og náttúruauðlindum.

Þegar hið óumflýjanlega verður ekki umflúið lengur hafa stjórnvöld um tvennt að velja:

  1. Að horfast í augu við nauðsyn breytinga á leikreglum alþjóðapeningakerfisins.
  2. Að umbreyta óreiðuarfleifð peningakerfisins í skuld skattgreiðenda.

Fyrri valkosturinn er raunhæfur—sá síðari er glæpsamlegur.