vald.org

Bréf frá framtíðinni—fyrri hluti

29. júní 2012 | Jóhannes Björn

Heimskreppan sem hófst haustið 2008 kraumaði enn rétt undir yfirborðinu sumarið 2012. Þrátt fyrir botnlausan austur helstu seðlabanka heimsins í svarthol bankakerfisins, þá hélt skuldakreppan áfram að naga göt í stoðir hagkerfisins. Eilífar upphrópanir risafjölmiðla (í eigu risafyrirtækja) um betri horfur með blóm í haga, slógu ryki í augu almennings, og fáir gerðu sér grein fyrir hruninu sem nálgaðist óðfluga.

Þetta voru svo sem engin geimvísindi. Of mikil skuldasöfnun hafði upphaflega ýtt hagkerfinu yfir bjargbrúnina, en timburmönnunum var frestað með því að velta einkaskuldum bankakerfisins yfir á skattgreiðendur. Heildarskuldir, peningar í umferð sem hringsóluðu í hagkerfum landanna, hækkuðu líka gífurlega vegna peningaframleiðslu stærstu seðlabanka heimsins. Skuldavandinn var „leystur“ með miklu meiri skuldum, sem var ámóta gáfulegt og að reyna að bjarga drukknandi manni með því að ausa hann vatni!

Forsaga málsins náði reyndar lengra heldur en til bóluhagkerfis seinni ára og brasks með eitraðar afleiður. David Stockman, sem var fjármálastjóri í stjórn Reagan, orðaði það ágætlega þegar hann spáði endalokunum:

„Við erum að glíma við hrun sem varð vegna 30 ára ofþenslu lána og eftirleik lánabólu [á fasteignamarkaði] sem stóðst ekki. Peningaaustur seðlabankans ásamt 0% stýrivöxtum, komu í veg fyrir að pólitíkusarnir tækju til í ríkiskassanum og skuldbréfamarkaðurinn er núna við það að springa í loft upp: Þetta hefur þegar gerst í Evrópu og skellur bráðum yfir hér.“

Forsaga hrunsins var þó enn lengri en þessi 30 ár sem Stockman nefnir. Þegar Bretton Woods samkomulagið var undirskrifað árið 1944 var bandaríski dollarinn gerður að viðmiðunargjaldmiðli, sem þýddi að alþjóðleg verslun með hráefni var verðlögð í dollurum og flestar þjóðir notuðu dalinn við uppgjör milliríkjaviðskipta. Til þess að koma í veg fyrir að Bandaríkin misnotuðu sér aðstöðu sína—keyptu t.d. vörur eða olíu með því einu að prenta peninga—þá var gengi dollarans fest við ákveðið gullverð. Hugsanlegur viðskiptahalli við önnur ríki skyldi því borgaður með bandarísku gulli.

Stríðið í Víetnam var ekki fjármagnað með aukinni skattheimtu heima fyrir og aukið magn dollara byrjaði að fljóta um hagkerfi heimsins. Aðrar þjóðir—og Frakkar voru þar mest áberandi—byrjuðu að skipta dollurum í gull, og 1971 var svo komið að Bandaríkin höfðu glatað um helmingi gullforða síns. Á þessum tímamótum reiknuðu flestir með gengisfellingu dollarans, en Nixon greip til þess örþrifaráðs að rifta gerðum samningum og hætta verðtengingu dollarans við gull.

Eftir að fallið var frá gulltryggingu dollarans 1971, og þar til peningakerfið sprakk 2008, margfölduðust umsvif peningageirans í þróuðustu hagkerfum heimsins. Bremsan, gullið, var farin og framleiðsla pappírsverðmæta varð sífellt auðveldari. Aðilar sem græddu mest í þessu „nýja“ hagkerfi byrjuðu líka að fjármagna pólitíska kerfið í vaxandi mæli, þannig að fjarstýrðir pólitíkusar greiddu götu þeirra enn frekar. Tvö rothögg 1999 og 2000 innsigluðu dauðadóm peningakerfisins, afnám Glass-Steagall, sem setti sparifé fólks í hendur braskara, og síðan bandarísk lög sem leyfðu óskráð afleiðuviðskipti, frekar en að láta skrá þau opinberlega á miðlægum markaði.

Það eru engar ýkjur að segja að bankar og vogunarsjóðir hafi gengið berserksgang á árunum fyrir 2008. Þessir aðilar spiluðu með fasteignapappíra eins og keðjubréf og báru fulla ábyrgð á víðtækustu fasteignabólu veraldarsögunnar. Stöðugt hækkandi fasteignaverð var fjármagnað með flóknum afleiðuviðskiptum, þar sem „vöndlar“ ruslabréfa voru dubbaðir upp og seldir sem raunveruleg (AAA) verðmæti. Til þess að halda keðjubréfinu gangandi lánuðu bankarnir milljónum einstaklinga sem augljóslega gátu aldrei staðið í skilum.

Þegar spilaborgin hrundi haustið 2008 varð fjöldi banka tæknilega gjaldþrota og peningakerfið sjálft var komið í ákveðna sjálfheldu. Eins og 1929 þá voru skuldirnar orðnar svo háar að þær voru óborganlegar og venjuleg efnahagslægð (með minni eftirspurn) nægði ekki til þess að rétta kerfið af. Við svona aðstæður dugar ekkert annað en miklar afskriftir, en elítan, sem var búin að kaupa sig rækilega inn í pólitíska kerfið, ákvað að rétta skattgreiðendum reikninginn.

Það voru ekki nema um 10 stórbankar (6 í Bandaríkjunum) sem stunduðu flest afleiðuviðskipti með rusl. Það sem þurfti að gera 2008–2009 til þess að bjarga hagkerfinu var ekkert flókið og vel þekkt af hagfræðingum sem ekki eru á jötu elítunnar:

  1. Fara sænsku leiðina frá 1992 með því að tryggja innistæður, afskrifa slæmar skuldir hratt—skipta hverjum banka upp í „góðan“ og „vondan“ banka—láta hluthafana (eigendur bankanna) tapa öllu sínu og borga handhöfum skuldabréfa sem bankarnir höfðu gefið út afganginn þegar búið var að gera þá upp. Loks selja „góðu“ bankana á opnum markaði.
  2. Brjóta risabanka niður í minni einingar (breyta t.d. 10 bönkum í 40) og setja varanlegt þak á mögulega stærð banka. Einkafyrirtæki sem hræða skattgreiðendur með því að þau séu „of stór til þess að fara í gjaldþrot“ eiga ekki heima í frjálsu hagkerfi.
  3. Aðskilja aftur með lögum starfsemi venjulegra banka og fjárfestingabanka að hætti Glass-Steagall. Innlánsfé banka, sem skattgreiðendur venjulega tryggja þegar í harðbakkann slær á aldrei að nota í brask.
  4. Banna leynisamninga með afleiður og skrá öll slík viðskipt á miðlægum markaði.

Þegar William Black stjórnaði rannsókn á glæpastarfsemi bandarískra sparisjóða í kringum 1990 þá kom hann yfir þúsund einstaklingum á bak við lás og slá. Eins og hann hefur oft bent á, þá var glæpastarfsemin fyrir hrunið 2008 þúsund sinnum stórtækari heldur en sparisjóðasvindlið—en ekki einn einasti einstaklingur hefur verið kærður. Lögreglan hefur hins vegar verið iðin við að fangelsa fólk sem mótmælir þessu óréttlæti!

Bankahrunið varpaði ljósi á þá óþægilegu staðreynd að evrópska myntbandalagið stóðst ekki. Án styrkjakerfis og sameiginlegrar stjórnsýslu geta gjörólík hagkerfi aldrei notað sömu mynt. Fasteignabóla í álfunni, alls staðar nema í Þýskalandi, töfraði fram ný verðmæti sem földu brestina tímabundið. Nýir peningar í umferð, sem bankakerfið bjó til út á veð í fasteignum sem seldust á uppsprengdu verði, höfðu ekkert að gera með aukna verðmætasköpun. Þetta var bóla og ný lán í umferð sem aldrei var hægt að borga til baka.

Það er ekki ósanngjarnt að halda því fram að stórbankar í Evrópu og Bandaríkjunum hafi hegðað sér eins og glæpasamtök á árunum fyrir hrun. Bankarnir græddu þúsundir milljarða á sölu ruslabréfa og þeir vissu að þetta voru svik. Samt var eigendum og handhöfum skuldabréfa í þessum bönkum bjargað … og í kjölfarið, strax 2009, borguðu skúrkarnir sjálfum sér himinháa bónusa. Aldrei hefur tak elítunnar á pólitíska kerfinu komið betur í ljós.

Elítan hóf gífurlega auglýsingaherferð þar sem stöðugt var hamrað á nauðsyn þess að skera ofdekraðan almenning niður við trog. Á sama tíma var skuldum bankanna—sem auðvitað báru höfuðábyrgð á glannalegri lánastarfsemi til margra ára—velt yfir á almenning eftir misjafnlega flóknum leiðum. Ríkissjóðir voru skuldsettir og seðlabankar dældu trilljónum inn í bankakerfið.

Sumarið 2012 var ástandið á Spáni, Portúgal, Grikklandi og Írlandi svipað og í kreppunni sem hófst 1929. Fleiri lönd stefndu beint á hengiflugið. Atvinnuleysi í Frakklandi fór í þrjár milljónir. Lyfjaverslanir í Grikklandi tæmdust. Atvinnuleysi á Spáni nálgaðist 25% og helmingur ungmenna fékk enga vinnu.

Hættan á algjöru hruni Evrulands hafði aukist um mitt ár 2012, ekki aðeins vegna minnkandi þjóðarframleiðslu margra landa á sama tíma og skuldirnar hlóðust upp, heldur kannski enn frekar vegna þess að bankakerfið—með hjálp seðlabanka og í samráði við pólitíkusana—hafði breytt skuldafjallinu í nokkurs konar keðjubréf.

Seðlabanki Evrópu, sem sífellt tók lélegri veð frá bönkunum, dældi yfir þúsund milljörðum evra inn í þá á 1% vöxtum. Þrátt fyrir þessa innspýtingu drógu bankarnir úr lánum til atvinnuveganna, en lögðu peningana á sama tíma aftur inn í seðlabankann eða keyptu ríkisskuldabréf á hærri vöxtum. Frjálsi markaðurinn treysti ekki PIIGS-löndunum og ríkisskuldir þeirra báru því mjög háa vexti, eins og gengur og gerist með ruslapappíra. Bankar sem keyptu þessi bréf voru að taka mikla áhættu.

Þetta línurit sýna hvernig erlendir fjárfestar (dökkbláa línan) hafa flúið ríkisskuldabréf sem Spánn og Ítalía hafa gefið út á meðan innlendir aðilar (ljósbláa strikið), sem eru aðallega bankar, hafa notað lán Evrópubankans (guli flöturinn) til þess að kaupa þessi áhættusömu bréf.

Auk þess að safna vafasömum ríkisskuldum, þá höfðu bankarnir lánað innbyrðis og hugsanlegt hrun eins stórbanka ógnaði því skuldakeðjubréfinu og þar með peningakerfinu í heild. Þýskir bankar höfðu líka fjármagnað stóran hluta fasteignabólunnar í S-Evrópu og þess vegna sat þýski seðlabankinn uppi með ógrynni pappíra (veð) sem áttu eftir að umhverfast í hreint rusl við gjaldþrot ríkis eða stórbanka.

Framhald …