vald.org

Bréf frá framtíðinni—seinni hluti

12. júlí 2012 | Jóhannes Björn

Tæknilegt gjaldþrot elsta starfandi banka heims, Banca Monte dei Paschi di Siena á Ítalíu, stofnsettur 1472, var tímanna tákn. Í júlí 2012 bað bankinn stjórnvöld um €3,4 milljarða til þess að afstýra yfirvofandi gjaldþroti. Skömmu áður hafði Bankia á Spáni farið á hausinn og beðið um €19 milljarða innspýtingu. Bækur Bankia höfðu sýnt gróða upp á €43 milljónir árið 2011—afrek sem eflaust fékk marga til þess að fjárfesta í ódýrum hlutabréfum bankans—en nú kom í ljós að sá gróði var hreinn uppspuni. Bankia tapaði €3,3 milljörðum 2011. Fór fjármálastjórinn, Aurelio Izquierdos í fangelsi fyrir bókhaldssvindl? Nei, hann fékk greiddan starfslokasamning upp á rúma tvo milljarða íslenskra króna!

Ríkisstjórnir, seðlabankar einstakra ríkja og seðlabanki Evrulands héldu áfram að moka peningum í allt of stórt og gjörspillt bankakerfi á meðan atvinnuvegirnir voru í peningasvelti. Það þurfti því ekki að koma nokkrum á óvart að laun starfsmanna í fjárfestingabönkum Evrópu og Bandaríkjanna hækkuðu að meðaltali um 37% á milli 2008 og 2011 á meðan kjör venjulegs fólks voru stórlega skert.

Evrópa var í frjálsu falli. Á fyrsta ársfjórðungi 2012 drógust húsnæðislán saman um 70% í Portúgal, 44% á Ítalíu og 42% í Hollandi. Lán til fyrirtækja á Ítalíu drógust saman um 38% og bæði Spánn og Kýpur óskuðu formlega eftir hjálp. Hagkerfi Evrópu stefndi hraðbyri í sama öngþveiti og ríkti á skrifstofu fjármálaráðuneytis Grikklands.

Eftir að stjórnvöld tóku skakkan pól í hæðina strax í upphafi hruns—ákváðu að bjarga elítunni frekar en afskrifa skuldir sem ekki var hægt að endurgreiða—magnaðist upprunalegi vandinn markvisst. Englandsbanki og seðlabanki Evrópu reyndu að blása lífi í kerfið með því að keyra stýrivexti niður í ekki neitt. Þessi gjafastarfsemi ásamt gífurlegum peningaflótta frá Suður-Evrópu varð til þess að lækka vexti á skammtíma ríkisbréfum Sviss, Þýskalands og Frakklands niður fyrir núllið. Fjárfestar borguðu þessum ríkjum fyrir að fá að geyma peningana sína í ríkisskuldabréfum þeirra! Vextir af sex mánaða þýskum ríkisskuldabréfum fóru t.d. niður í mínus 0,0344% þann 9. júlí 2012.

Líkt og flestallar aðgerðir stjórnvalda eftir hrun, þá voru ókeypis lán sem seðlabankar Evrulands og Ameríku veittu, gjafir sem einkabankar fengu á silfurfati. Hinn almenni borgari, sem hafði sýnt ráðdeild og sett sparifé sitt í banka, mátti hins vegar horfa upp á dulbúinn þjófnað, þegar innlánsvextir héldu ekki lengur í við verðbólguna. Tryggingafélög, lífeyrissjóðir og aðrir, sem treystu á eðlilega ávöxtun sjóða sinna til þess að geta staðið við umsamdar skuldbindingar í framtíðinni, voru líka í vandræðum. Í versta falli voru þessir aðilar hraktir út í glannalegar fjárfestingar í von um betri ávöxtun.

Það er hlægilegt að heyra menn sem handstýra vaxtastiginu niður á núllið (eða halda úti okurvöxtum, eins og lengstum hefur tíðkast á Íslandi) blaðra um „frjálsa markaði“ og kapítalisma. Vextir í hagkerfinu eru ekki ósvipaðir götuvitum í umferðinni. Hringrás peninganna á að ráðast af framboði og eftirspurn—og vaxtastigið á að stjórna umferðinni og um leið leiðrétta óeðlilegar sveiflur. Ef menn fara offari á einhverju sviði, logar rauða ljósið og vextir hækka; þegar dregur úr spennunni lækka vextirnir aftur og ljósið er grænt. Frjálst hagkerfi sem byggir á sparnaði, lánum, endurfjármögnun og hringrás peninga verður að búa við eðlilega vaxtaprósentu sem ræðst af framboði og eftirspurn.

Seðlabanki Bandaríkjanna greip til alls konar aðgerða eftir hrun og skírði þær einstaklega frumlegum nöfnum. Quantitative easing og annað í þeim dúr var þó ekkert annað en nýju fötin keisarans—möppudýramál sem reyndi að flækja þá staðreynd að hér var á ferðinni bein seðlaprentun. Sú staðreynd að bandaríska ríkið jók skuldir sínar á milli 2009 og 2012 margfalt hraðar en dæmi voru um síðan í seinni heimstyrjöldinni—og seðlabankinn prentaði peninga fyrir 60% aukningarinnar—hefði einhvern tíma lamað markaði og ýtt dollaranum fram af hengifluginu, en nú hét þetta einhverju öðru nafni og hlutabréfamarkaðir elskuðu fyrirbærið.

Í peningasögu heimsins hefur aldrei, þrátt fyrr ótal tilraunir, verið hægt að skapa hagsæld til lengri tíma með því að fyrst prenta peninga og vona síðan að þetta nýja fjármagn í umferð efli atvinnulífið. Hrein peningaprentun endar alltaf með verðbólgu og hruni. Aðeins vaxandi hagkerfi, þar sem framboð á vöru og þjónustu eykst, þolir (og þarfnast í því gallaða peningakerfi sem við búum við) meiri seðlaprentun.

Þróun ástarsambands hlutabréfamarkaða við prentvélar (rafrænar færslur) seðlabankans gáfu strax 2011 vísbendingu um hvernig væntanlegt hrun mundi bera að. Quantitative easing 1 virkaði vel á hlutabréfamarkaði heimsins—en ekki á hagkerfi 99% fólksins, því spekúlantar notuðu þessa nýju uppsprettu peninga m.a. til þess að hækka hráefnisverð heimsins og rauntekjur lækkuðu—Q.E.2 dugði ekki eins lengi, Operation Twist (kaup langtímabréfa) virkaði stutt og O.T. 2 mjög stutt.

Ástandið í Bandaríkjunum var lítið betra en í Evrópu:

Meðaltekjur á hvert mannsbarn í Bandaríkjunum (svörtu súlurnar) stóðu í stað (lækkuðu hjá 90% fólksins) á meðan þjóðarskuldirnar (rauðu súlurnar) æddu upp. Hvert barn gat séð að dæmið gekk ekki upp.

Vaxandi atvinnuleysi virtist vera höfuðástæða þess að prósentuhlutfall þjóðarinnar sem þáði örorkubætur æddi upp á milli 2009 og 2012. Að minnsta kosti var erfitt að sjá aðra skýringu á þessum skyndilegu veikindum milljóna einstaklinga.

Hagfræðingar sem höfðu kynnt sér efnahagssveiflur síðustu 60 ára í Bandaríkjunum vissu að engin lægð hafði endað fyrr en byrjað var að reisa ný íbúðahverfi af vaxandi krafti. Góðu fréttirnar 2012 voru þær að fasteignamarkaðurinn virtist vera hættur að falla og jafnvel farinn að braggast eitthvað. Línurit sem sýndu sölu nýrra húsa skröpuðu þó enn botninn og voru lægri en 1963, þrátt fyrir fjölgun íbúa landsins um 120 milljónir.

Vondu fréttirnar voru hins vegar þær að batinn kom allt of seint. Hagkerfið var aftur að hægja á sér. Næsti árgangur kaupenda skuldaði þúsund milljarða dollara í námslánum, sem var algjört met og tala sem fáir hefðu getað ímyndað sér fyrir aðeins nokkrum árum. Það var líka mjög slæmt fyrir þennan markað að þriðjungur allra fasteignalána í landinu var hærri en andvirði húsanna sem tryggðu lánin. Neikvæð eignarstaða, sem var $1,2 trilljónir (evrópskar billjónir) um mitt ár 2012, hélt gífurlegum fjölda húsa af markaðinum.

Margir talsmenn viðskiptalífsins stóluðu á að annað stærsta hagkerfi heimsins, Kína, ætti eftir að bjarga hagkerfi heimsins. Viðskiptajöfrar sem komu fram í vestrænum fjölmiðlum gátu vart haldið vatni þegar þeir hældu einræðisstjórn Kína. Þessir kínversku vitringar—flestir menn sem höfðu klórað sig upp valdastiga kommúnistaflokksins með hrottaskap eða í gegnum klíku—voru óskeikulir, tónuðu kapítalistarnir. Kínversku hálfguðirnir áttu eftir að stjórna „mjúkri lendingu“ og síðan dæla peningum inn í hagkerfið. Allur heimurinn átti eftir að njóta góðs af. Hallelúja!

Málið var ekki alveg svona einfalt og kommarnir ekki jafn snjallir og af var látið. Endalaus straumur nær ókeypis vinnuafls og erlendar fjárfestingar höfðu iðnvætt Kína á mettíma. Verksmiðjur voru skrúfaðar í sundur í Evrópu og Ameríku og endurreistar í Kína. Tækniþekking, sem venjulega tekur marga áratugi að þróa, flæddi inn í landið á örskömmum tíma.

En það voru brotalamir í kerfinu og þær voru byrjaðar að koma í ljós töluvert fyrir hrunið 2008. Kaup hækkaði hratt og önnur láglaunasvæði í heiminum urðu samkeppnishæfari. Lítil innlend eftirspurn gerði hagkerfið of einhæft og allt of háð útflutningi. Verst af öllu var e.t.v. að bankakerfið starfaði samkvæmt klíkulögmáli kommúnistaflokksins og miklir fjármunir fóru reglulega forgörðum. Forstjórar ríkisfyrirtækja litu oftar en ekki á bankalán sem styrki.

Bankahrunið í Evrópu og Ameríku dró verulega úr útflutningi Kínverja og miðstjórnin ákvað að gera eitthvað í málinu. Til þess að auka innlenda eftirspurn og útvega fólki atvinnu var ótrúlegum upphæðum (miðað við veltu hagkerfisins) eytt í framkvæmdir af öllu tagi. Mikið af þessu virtist út í hött. Heilar draugaborgir spruttu upp og um 60 milljónir íbúða stóðu tómar. Feikilega dýrt járnbrautakerfi fyrir hraðlestir var svo illa lagt að það reyndist fljótlega nauðsynlegt að hægja á öllum lestunum til þess að halda þeim á sporinu.

Það sem einræðisstjórnin í Kína virðist ekki hafa áttað sig á er að skyndilegt peningaflæði af þessari stærðargráðu spennir upp skuldagildru. Peningar fara í umferð í formi lána sem bera vexti og til þess að geta borgað þessa vexti verður að sækja meiri peninga inn í bankakerfið. Þetta gengur á meðan allt er á fleygiferð og mikill hagvöxtur sér fyrir vaxandi veðum, en á vissum punkti þróast offjárfesting fyrst í verðbólgu og síðan kreppu.

Líklega hefði verið betra fyrir Kínverja að auka innlenda eftirspurn með því að koma á laggirnar tryggingakerfi sem borgar ellistyrk og veitir ódýra heilbrigðisþjónustu. Meira öryggi hefði dregið úr óeðlilega miklum sparnaði, sem er um 50%, og um leið aukið innanlandsneyslu.

Kína var ekki líklegt til þess að bjarga hagkerfi heimsins haustið 2012. Öðru nær. Verð fasteigna féll mánuð eftir mánuð, raforkunotkun minnkaði, flutningar með járnbrautum drógust saman og bankarnir lánuðu minna. Kínverskir kaupendur á járngrýti og kolum báðu seljendur um að seinka sendingum og sumir kaupendur borguðu ekki þegar sendingarnar bárust. Fréttir um forstjóra minni og meðalstórra fyrirtækja sem létu sig hverfa í skjóli nætur eða styttu sér aldur voru daglegt brauð. Það ríkti efnahagslægð í Kína og hagkerfið sat uppi með tæknilega gjaldþrota bankakerfi sem var keyrt áfram með handafli.

Þrátt fyrir alla þessa erfiðleika mátti ekki gleyma því að Kínverjar sátu á risastórum gjaldeyrisforða og þeir ætluðu sér stóra hluti í framtíðinni. Áætlun um sterkan, alþjóðlegan gjaldmiðil var í fullum gangi og á fyrstu fimm mánuðum 2012 fluttu þeir inn 315 tonn gulls frá Hong Kong. Það var meira en allur gullforði Bretlands. Næsta skref var að opna alþjóðlegan gullmarkað á kínverskri grund og láta síðan gjaldmiðilinn fljóta á frjálsum markaði.

Þrátt fyrir allt þá voru vandamál Kína, séð til lengri tíma, smámunir miðað við skuldavandamál Japans, og hagkerfi heimsins gat ekki vonast eftir meiri hagvexti eða hjálp úr þeirri átt. Hár meðalaldur og andstyggð á innflytjendum fjötruðu efnahagslífið í hlekki. Skuldir landsins voru svo ævintýralegar að minnsta vaxtahækkun var óbærileg. Eina sem hafði haldið ballinu gangandi svo lengi var sú staðreynd að innlendir aðilar áttu mest allar skuldir ríkisins, en þegar sífellt stærri hópur gamlingja byrjaði að taka peninga út úr kerfinu, frekar en að fjárfesta í skuldum, þá var leiknum lokið. Ekkert ríki getur áfallalaust skuldað sem svarar til 200–300% þjóðarframleiðslu nema skuldirnar séu yfir 90% tilfella keyptar af innlendum aðilum.

Haustið 2012 var peningakerfi heimsins komið í sjálfheldu. Skuldirnar höfðu aukist gríðarlega á nokkrum árum, en vægi gjaldgengra verðmæta (veða), sem voru skilyrði fyrir auknum lánum úr bankakerfinu til að mæta vaxandi skuldabyrði, nægði ekki til þess að greiða af gömlu skuldunum. Stærstu seðlabankar heimsins reyndu gömlu aðferðina og keyptu fleiri ríkisskuldabréf, en markaðirnir sýndu hikandi viðbrögð. Margir voru farnir að líta á kaup seðlabanka á bréfum skuldugra ríkisstjórna sem hættumerki frekar en eitthvað sem bæri að fagna.

Vorið 2013 blasti við holskefla gjaldþrota nokkra stórbanka og sum lönd gældu við greiðslustöðvun. Heimskreppa af verri endanum virtist óumflýjanleg. Seðlabanki seðlabankanna, Bank for International Settlements í Sviss, boðaði hóp seðlabankastjóra á neyðarfund í Bern. Þar var ákveðið að velta $5 trilljónum (með tölvuinnslætti) inn í hagkerfið í formi 20 ára lána á 1% vöxtum. Hugmyndin var að losa bæði banka og ríkisstjórnir við óæskilega pappíra og sannfæra markaðina um að bankakreppunni væri lokið.

Viðbrögðin voru snögg. Hlutabréfamarkaðir úti um allan heim hækkuðu um 15–20% á einni viku, olían hækkaði um 10% og gull um 12%. Menn komu þó niður á jörðina nokkrum vikum seinna þegar landbúnaðarvörur byrjuðu að hækka og keðjuverkun óstöðvandi verðbólgu virtist gegnsýra allt hagkerfið. Verðstöðvunarlög, hærri vextir, meiri niðurskurður—allt var reynt, en verðbólgan var aðeins síðasti þátturinn í leiksýningu sem var búið að skrifa fyrir löngu. Hún var óstöðvandi.