vald.org

Gunnar Tómasson: Bréf til Alþingismanna

20. júlí 2012 | Gunnar Tómasson

Ágætu alþingismenn.

Ég leyfi mér að deila með ykkur eftirfarandi umsögn minni um verðtryggingu lána sem ég setti inn á Facebook fyrir stu ttu.

Tilefnið var hugmynd þaraðlútandi sem Ólafur Arnarson sett fram í vefriti sínu Tímarími fyrr í dag.

Á sínum tíma deildi ég skoðunum mínum á verðtryggingu lána m.a. með Ögmundi Jónassyni og Guðmundi jaka.

Nokkru áður hafði ég skrifað þáverandi (1983) ritstjóra Morgunblaðsins, Styrmi Gunnarssyni, bréf um málið.

Og taldi afnám verðtryggingar á laun en ekki á lánum vera mestu hagstjórnarmistök frá stofnun lýðveldisins.

Hér væri tjaldað til einnar nætur í baráttu gegn verðbólgu eins og síðar myndi koma á daginn.

Aðspurður sagði þáverandi fjármálaráðherra, Albert Guðmundsson, mér að hér hefði verið farið að ráði “ráðgjafa” ríkisstjórnarinnar.

Að þeirra dómi hefði ekki verið hægt að hrufla við verðtryggingu lána vegna eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar.

Af hverju?

Jú, verðtrygging lána væri SAMINGSBUNDIN—líkt og SAMNINGAR á vinnumarkaði væru óæðri.

Eignarrétt þjóðfélagsþegna má virða að vettugi beint og óbeint, og er hvorugur kosturinn góður.

En þegar upp er staðið skiptir engu hvort brot gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti eru bein eða óbein.

Söm er gerðin hvernig sem að henni er staðið.

Umsögn mín um verðtryggingu fyrr í dag er eftirfarandi:

Hér eru einföld HAGFRÆÐI- og SIÐFERÐISLEG RÖK fyrir hugmynd Ólafs Arnarsonar:

  1. Sjálfbær lífskjör launþega, lífeyrisþega og fjármagnseigenda endurspegla nettó verðmætasköpun í hagkerfinu.
  2. Ef nettó verðmætasköpun eykst/minnkar um 25% frá A til B, þá batna/versna lífskjör landsmanna um 25%. (N.B. Tekjumyndun helzt í hendur við nettó verðmætasköpun.)
  3. Að óbreyttu verðlagi eykst/minnkar kaupmáttur A krónunnar um 25% yfir tímabiið frá A til B.
  4. Raunvirði krónuskulda launþega/eigna fjármagnseigenda myndi breytast í takt við breytingu á verðmætasköpun.

Hvernig lítur svo dæmið út ef krónuskuldir og verðmætasköpun væru óbreytt en verðlag hækkaði um 25% frá A til B?

  1. Að óbreyttu nafnvirði krónuskulda myndi raunvirði þeirra minnka JAFNT fyrir-lántekendur og fjármagnseigendur.
  2. Með verðtryggingu myndi nafnvirði krónuskulda hækka um 25% fjármagnseigendum til hagsbóta.
  3. M.ö.o., VERSNANDI lífskjör/skuldastaða launþega/lántakenda = BATNANDI lífskjör/eignastaða fjármagnseigenda.

Hver er þá siðferðisleg SKYLDA norrænnar velferðarstjórnar gagnvart verðtryggingu LÁNA en ekki LAUNA?

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur