vald.org

Gunnar Tómasson: Verðtrygging og gengistryggð lán—Dómstóll Evrópusambandsins

28. júlí 2012 | Gunnar Tómasson

Ágætu alþingismenn:

Dómstóll Evrópusambandsins hefur kveðið upp dóm um óréttmæta lánaskilmála.

Dóm sem kann að hafa miklar afleiðingar á sviði íslenzkra dóms- og stjórnmála.

Eftirfarandi er umsögn mín um málið á Facebook í gær, 26. Júlí.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur

Dómstóll Evrópusambandsins ógildir óréttmæta lánaskilmála.

Skv. frásögn á svipan.is í dag, 26. júlí, kvað Dómstóllinn nýlega upp tímamótadóm í máli spánsks banka gegn lántakanda.

Dómurinn felur m.a. í sér

  1. að Hæstiréttur braut gegn ákvæðum viðkomandi tilskipunar ESB/EES með breytingu á vaxtaákvæðum gengistryggðra lánasamninga sem hann úrskurðaði ólöglega á grundvelli laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu; og
  2. að verðtryggingarákvæði lánasamninga sem gerðir hafa verið eftir afnám verðtryggingar á launum en ekki lánum árið 1983 hafi verið og séu óréttmæt í skilningi tilskipunar ESB/EES og verða því ekki fullnustað af íslenzkum dómstólum.

Þann 19. júlí sl setti ég inn á Facebook eftirfarandi færslu þar sem færð eru rök fyrir því að afnám verðtryggingar launa en ekki lána árið 1983 hafi verið óréttmætt:

Hér eru einföld HAGFRÆÐI- og SIÐFERÐISLEG RÖK fyrir hugmynd Ólafs Arnarsonar:

  1. Sjálfbær lífskjör launþega, lífeyrisþega og fjármagnseigenda endurspegla nettó verðmætasköpun í hagkerfinu.
  2. Ef nettó verðmætasköpun eykst/minnkar um 25% frá A til B, þá batna/versna lífskjör landsmanna um 25%. (N.B. Tekjumyndun helzt í hendur við nettó verðmætasköpun.)
  3. Að óbreyttu verðlagi eykst/minnkar kaupmáttur A krónunnar um 25% yfir tímabiið frá A til B.
  4. Raunvirði krónuskulda launþega/eigna fjármagnseigenda myndi breytast í takt við breytingu á verðmætasköpun.

Hvernig lítur svo dæmið út ef krónuskuldir og verðmætasköpun væru óbreytt en verðlag hækkaði um 25% frá A til B?

  1. 5. Að óbreyttu nafnvirði krónuskulda myndi raunvirði þeirra minnka JAFNT fyrir-lántekendur og fjármagnseigendur.
  2. 6. Með verðtryggingu myndi nafnvirði krónuskulda hækka um 25% fjármagnseigendum til hagsbóta.
  3. M.ö.o., VERSNANDI lífskjör/skuldastaða launþega/lántakenda = BATNANDI lífskjör/eignastaða fjármagnseigenda.

Hver er þá siðferðisleg SKYLDA norrænnar velferðarstjórnar gagnvart verðtryggingu LÁNA en ekki LAUNA?

Hér að neðan er stuðst við frásögn á vefsíðu svipan.is í dag—að mestu orðrétt eftir fyrstu málsgreinina:

Dómstóll Evrópusambandsins kvað nýlega upp dóm í máli þar sem banki á Spáni og lántakandi deildu um hvort dómstóll aðildarríkis hefði heimild til að breyta efni óréttmæts skilmála í lánasamningi. Dómstóllinn úrskurðaði að ef skilmáli er óréttmætur, skal viðkomandi dómstóll víkja slíkum skilmála til hliðar.

Til skýringar á afstöðu sinni benti Dómstóllinn á að í samræmi við viðkomandi tilskipun ESB „er óréttmætur skilmáli í samningum milli seljanda eða veitanda og neytanda ekki bindandi fyrir hin síðarnefnda og að samningur sem inniheldur slíkt ákvæði er bindandi fyrir aðila að öðru leyti verði hann efnanlegur án skilmálans. Í samræmi við þetta telur Dómstóllinn að tilskipun útiloki spænska löggjöf að svo miklu leyti sem þessi löggjöf heimili innlendum dómstóli, í þeim tilvikum þegar það telur óréttmætan skilmála ógildan, að breyta efni skilmálans.

Dómstóllinn telur að slíkt vald, væri því veitt héraðsdómi, líklegt til að koma í veg fyrir fyrirbyggjandi áhrif á seljendur eða birgja í beitingu óréttmætra skilmála gagnvart neytendum. Af þeirri ástæðu, myndi þetta vald leiða til minni skilvirkni í neytendavernd en leiðir af óbeinni beitingu þessara skilmála. Ef það væri opið fyrir það að innlendir dómstólar gætu breytt efni óréttmætra skilmála, myndu seljendur eða birgjar freistast til að nota þá skilmála vitandi að, jafnvel þó þeir væru lýstir ógildir, breyta mætti samningnum fyrir dómi á þá leið að hagsmuna þeirra yrði gætt.

Þar af leiðandi, þar sem þeir komast að þeirri niðurstöðu að skilmáli sé óréttmætur, skulu innlendir dómstólar einungis víkja slíkum skilmála til hliðar þannig að hann sé ekki bindandi fyrir neytenda, án þess að hafa vald til að breyta efni skilmálans. Samningurinn sem inniheldur skilmálann skal gilda, í grundvallaratriðum, án annarra breytinga en sem leiða af brottnámi óréttmæta skilmálans, að svo miklu leyti sem, í samræmi við landslög, slíkt gildi samningsins er lagalega mögulegt.‟