vald.org

Athugasemd

25. janúar 2013 | Jóhannes Björn

Sá misskilningur hefur komið upp á Internetinu að ég sé hættur að styðja Dögun. Hið rétta í málinu er að ég styð enn Dögun, enda er flokkurinn eina stjórnmálaaflið í sjónmáli sem tekur af fullri alvöru á vanda heimila landsins og böli verðtryggðra lána.

Eins og ég sé stöðuna þá verður íslenskt samfélag óþekkjanlegt eftir nokkur ár ef skuldsett heimili landsins fá ekki eðlilega leiðréttingu á okurlánunum. Landflóttinn magnast og eðlilegt samspil kynslóðanna brenglast. Það verður miklu erfiðara að fjármagna samneysluna eftir að stórir hópar hæfileikafólks á besta aldri hafa verið hrakir úr landi. Margir eru enn að bíða eftir skjalborginni frægu, en pólitíska stéttin er að falla á tíma. Fólk lætur ekki ljúga að sér endalaust.

Fjórflokkurinn á aldrei eftir að leiðrétta óréttlætið sem skuldsett heimili landsins hafa þurft að þola. Hagsmunagæsla kúlulánafólksins gengur út á að passa lánakerfið og afskrifa hjá fáum útvöldum. Venjulegt fólk fær ekkert nema dýrtíð, lægri rauntekjur og okurlán. Höfnum fjórflokknum og kjósum fólk sem hangir ekki í spottum lánastofnana, lífeyrissjóða eða klíkunnar sem telur sig eiga auðlindir fólksins.