vald.org

Prentvélar elítunnar—fyrri hluti

15. febrúar 2013 | Jóhannes Björn

Þetta eru einkennilegir tímar og afgerandi uppgjör getur ekki verið langt undan. Hagkerfi Vesturlanda hrundi 2008 vegna of mikilla skulda. Samt segja seðlabankastjórar og pólitíkusar okkur, ár eftir ár, að það sé verið að vinna að lausn vandans með því að hlaða upp miklu meiri skuldum. Á síðustu fimm árum hafa átta stærstu seðlabankar heimsins aukið peningamagn í umferð (skuldir) um 11 trilljónir dollara ($11.000.000.000.000). Fyrir þessa upphæð, sem er aðeins fimm ára aukning peningamagnsins, væri hægt að kaupa allt gull sem hefur verið grafið úr jörðu síðustu 6000 ár og góðan slatta af silfri.

Þessi svimandi peningaprentun er í besta falli heimska eða örvænting—í versta falli kerfisbundin aðferð til þess að koma miklu meiri auðæfum í hendur lítillar elítu.

Samkvæmt skýrslu frá Bank for International Settlements (BIS, sem er seðlabanki seðlabankanna) hækkuðu skuldir 18 stofnríkja OECD gríðarlega á milli 1980 og 2010. Þessar tölur sýna glöggt að peningakerfi Vesturlanda hefur þróast í nokkurs konar Ponzi-kerfi, þar sem sífellt meira peningamagn þarf til þess að halda hjólunum gangandi. Samanlagðar skuldir fyrrnefndra 18 landa—ríkisstjórna, heimila og fyrirtækja sem standa utan fjármálageirans—fóru úr 160% þjóðartekna 1980 í 321% árið 2010. Þegar verðbólgan er reiknuð inn í dæmið hafa raunskuldir ríkisstjórna hækkað meira en fjórfalt, heimilanna meira en sexfalt og skuldir fyrirtækja utan fjármálageirans um meira en 300%.

Þegar nýtt peningamagn fer í umferð er það alltaf í formi lána til einstaklinga, fyrirtækja eða ríkisstjórna. Lánin bera vexti og til þess að borga þessa vexti verður að sækja nýtt fjármagn inn í bankakerfið—lán sem bera vexti … og þannig koll af kolli. Þegar hagvöxtur heldur ekki lengur í við vaxtabyrðina, sjáum við efnahagslægðir myndast. Ef bankakerfið skapar óvenju mikið peningamagn (í formi skulda) á hlutfallslega stuttum tíma, þá sjáum við hrun á borð við 1929 og 2008.

Við upphaf djúprar kreppu gengur markaðurinn í gegnum mjög mótsagnarkennt ferli, sem hagfræðingar kalla Minsky-augnablik, en það er tímabilð þegar traustar og skynsamlegar fjárfestingar falla í verði. Þetta stafar af því að fjölmargir aðilar verða að selja gulleggin til þess að standa straum af öðru tapi. Hyman Minsky, sem er kenndur við þessa atburðarás, er líka frægur fyrir skilgreiningu sína á breytilegri heilsu hagkerfis sem styðst við banka sem notar svokallað brotaforðakerfi (fyrirkomulag sem leyfir banka að eiga aðeins lítið brot andvirði útlána í eigin sjóði). Þetta kerfi, samkvæmt Minsky, hefur þrjú blæbrigði þegar fjármögnun er annars vegar:

Varnagla-fjármögnun
Fólk, fyrirtæki og ríkið sjálft eru í góðum málum. Bankar lána gegn traustum veðum og raunvextir eru hagstæðir vegna þess að áhættan er lítil. Hæfileg spenna og markviss hagvöxtur halda verðbólgunni í skefjum. Einstaklingar byggja upp fyrirtæki og innviðir samfélagsins eru traustir. Höfuðstóll lána er iðulega greiddur niður.
Fjármögnun spákaupmennsku
Vaxtabyrði skulda er orðin slík að hagkerfið í heild getur ekki greitt niður lánin. Hagkerfið er eins og hamstur í hjóli og hamast við að borga vexti, en höfuðstóllinn stendur í stað eða jafnvel hækkar. Aukin ásókn í lán—sem skila sér ekki í aukinni uppbyggingu heldur fara í að greiða vexti—og aukin áhætta á vanskilum, hækka vaxtastigið og efnahagsvandinn eykst.
Ponzi-fjármögnun
Skuldirnar í hagkerfinu eru slíkar að hvorki er hægt að greiða niður lánin né borga vexti. Sífellt hærri lán á hærri vöxtum eru tekin í þeirri von að eitthvað gott gerist eða tími vinnist. Þetta er augljós atburðarás þegar einstaklingar eða fyrirtæki eiga í hlut, en seðlabankar margra ríkja eru þessa stundina í nákvæmlega sama Ponzi-dansinum. Þeir eru að reyna að leysa skuldavanda með vaxandi skuldum í þeirri von að hagkerfið byrji allt í einu að framleiða meiri verðmæti upp í skuldirnar. Það er að minnsta kosti opinbera útskýringin.

Hyman Minsky birti þessar vangaveltur sínar upp úr 1970 eða á svipuðum tíma og Nixon tók dollarann úr sambandi við gull. Þá skuldaði bandaríska hakerfið—heimili, fyrirtæki og ríkið—$3 trilljónir, en í dag er þessi tala komin í $56 trilljónir og hækkar hratt. Fyrir 30 árum þurfti bankakerfið að lána fjóra dollara út í hagkerfið til þess að skapa eins dollara hagvöxt. Árið 2006 þurfti $20 til þess að ná sama árangri.

Strangt á litið er rangt að túlka verðbólgu sem hækkun vöruverðs eða dýrari þjónustu. Verðbólgan byrjar með meira seðlamagni í umferð (aðallega rafrænum færslum nú á dögum) og það er aðeins tímaspursmál hvenær þetta aukna seðlamagn hækkar verð vöru og þjónustu. Verðbólga er sjúkdómur sem myndast í hagkerfinu þegar seðlamagnið sem sett hefur verið í umferð skilar sér ekki aftur í samsvarandi aukningu vöru og þjónustu. Þegar við t.d. skoðum tölur um verðbólgu í Bandaríkjunum síðan 1775 sjáum við að það var mjög lítið svigrúm til þess að hækka verðlag á meðan dollarinn var beintengdur gulli. En 1971 var þessu viðnámi aflétt og eftir 1996—þegar lögum um aðskilnað venjulegra banka og fjárfestingabanka var rutt úr vegi—tók Ponzi við stjórninni.


Hagkerfi sem í vaxandi mæli byggir á seðlaprentun og flóknum útfærslum við að ávaxta nýtt fjármagn í umferð, t.d. með afleiðuviðskiptum og gjaldmiðlabraski upp á stjarnfræðilegar tölur, stenst raunverulega ekki. Peningageirinn bæði stækkar allt of hratt og hann sogar líka til sín hæfileikafólk, sem annars hefði snúið sér að verkefnum sem þjóna heildinni betur. Í Ponzi-hagkerfi tekur peningageirinn miklu meira til sín heldur en hann gefur og hann borðar sífellt stærri sneið af þjóðarkökunni. Þetta gerðist líka á Íslandi fyrir hrun og er aftur að fara í sama farveg.

Gróði fjármálafyrirtækja í Bandaríkjunum, sem hlutfall þjóðarframleiðslu, hefur margfaldast á síðustu áratugum. Það er líka athyglisvert að sjá hversu fljótar fjármálastofnanir voru að ná sér á strik eftir hörmungarnar 2008. Trilljónir dollara sem áttu að „bjarga“ atvinnuvegunum, eins og það er auglýst, hafa runnið beint í vasa elítunnar sem fjármagnar stærstu banka heimsins. Handhafar skuldabréfa í þessum bönkum virðast aldrei mega tapa eyri.


Berum þetta saman við atvinnuþróun í bandarískum byggingaiðnaði, þar sem verkamenn, iðnaðarmenn, verkfræðingar, arkitektar og fleiri stéttir vinna—sem sagt, greinagott meðaltal „venjulegs“ fólks á vinnumarkaði.


Það er ekkert skrýtið við að rauntekjur lækki í hagkerfi sem verðlaunar sífellt stærri hóp fólks sem skilar samfélaginu litlu öðru en veðmálum á alls konar pappíra. En þetta er eðli Ponzi-fjármögnunar. Fjármagnið leitar ekki lengur í hefðbundna farvegi langtímafjárfestinga, vegna þess að tíminn leyfir ekki fjárfestingar nema þær skili skyndigróða. Hagkerfið í heild (meðaltalið) á raunverulega ekki fyrir vöxtum og afborgunum. Reiknað á raunvirði dollara (1982–1984) hafa meðallaun í Bandaríkjunum lækkað verulega síðan dollarinn og gullið skildu lögskilnaði 1971.

Ef við lítum aðeins á líðandi öld þá hafa rauntekjur lækkað um 7,9% (rauða strikið sýnir tekjur í dollurum án tillits til verðbólgu).

Þar til fyrir nokkrum árum léku stóru seðlabankarnir frekar lítið hlutverk á skuldabréfamarkaði. Þeir pössuðu að viðskipti með skammtíma ríkisskuldabréf (3–6 mánuðir) væru sveigjanleg, t.d. með kaupum á bréfum á rólegum dögum og síðan endursölu þeirra þegar eftirspurn var meiri. Það datt engum í hug að láta seðlabanka fjármagna ríkisstjórnir beint með því að hamstra skuldabréf eða bjarga bönkum með lánum út á vafasama pappíra. Allir vissu að það var hrein peningaprentun, eitthvað sem stundum gerðist í S-Ameríku rétt áður en hagkerfi einhvers ríkis fuðraði upp á verðbólgubáli.

Þetta viðhorf breyttist hratt þegar nokkrir seðlabankastjórar þurftu að bjarga vinum sínum í bankaelítunni og hjálpa ríkistjórnum að eyða um efni fram. Stærstu seðlabankarnir eru þessa stundina stútfullir af ríkisskuldabréfum og alls konar pappírsrusli. Við skulum ekki blekkja okkur sjálf og horfast í augu við það að við erum að horfa á púðurtunnu sem einn góðan veðurdag springur með miklum látum. Það hefur aldrei í sögu hagfræðinnar verið hægt að prenta yfir sig hagvöxt nema í örstutta stund áður en verðbólgudraugurinn vaknar.

Englandsbanki hefur keypt helming allra ríkisskuldabréfa síðan 2009 og liggur núna með 32% allra útistandandi skuldabréfa breska ríkisins. Evrópubankinn leikur þó jafnvel enn hættulegri leik, þegar hann lánar gjaldþrota bönkum í S-Evrópu, sem síðan kaupa ríkisskuldabréf. Þessi bréf bera háa vexti vegna þess að þau eru rusl, en það hefur þó tímabundið tekist að róa markaðina með þessum aðferðum. Svona galdraþulur eru þó ekki til langframa og það styttist í að markaðurinn sýni vanþóknun sína með því að heimta hærri vexti af öllum skuldabréfum. En flýtur á meðan ekki sekkur.