vald.org

Prentvélar elítunnar—seinni hluti

20. febrúar 2013 | Jóhannes Björn

Stjórnlaus seðlaprentun hefur á seinni áratugum orðið til þess að mynda margar bólur í hagkerfi heimsins. Þeir sem sitja næst prentvélunum—bankar, fjárfestar og ríkisstjórnir—fjárfesta óhóflega og of mikið framboð peninga orsakar óeðlilegar hækkanir sums staðar í hagkerfinu. Ágæt dæmi eru hlutabréfabólan, sem sprakk upp úr 2000, og fasteignabólan, sem setti hagkerfi heimsins á hliðina 2008.

Þegar efnahagsblaðra springur brenna verðmæti venjulega upp þegar afskriftir lækka skuldir, en í þessari síðustu kreppu gerðust frekar einkennilegir hlutir. Fólk, fyrirtæki og smærri bankar sáu gífurlegt tap þegar fasteignaverð hrapaði, en stórbankar fengu aðstoð upp á þúsundir milljarða dollara frá seðlabönkum og ríkisstjórnum. Með öðrum orðum, skattgreiðendur voru skikkaðir til þess að borga fyrir afskriftir stóru bankanna. Gamla tuggan um að bankarnir væru „of stórir“ og því hættulegt að neyða þá til þess að afskrifa var notuð til þess að réttlæta einhverjar mestu millifærslur fjármuna sem heimurinn hefur nokkurn tíma séð.

Peningaframleiðsla síðustu ára er skelfileg. Fjórir seðlabankar (í réttri röð á þessu grafi—talið ofanfrá—japanski, bandaríski, evrópski og kínverski) hafa á 10 árum hækkað efnahagsreikninga sína (prentað) úr $3 trilljónum í $13 trilljónir. Árið 2002 jafngilti seðlamagnið í bókhaldi bankanna 10% af heildarframleiðslu heimsins, en 2012 hvorki meira né minna en 25%.

Peningaprentun stærstu seðlabankanna er viss tegund bólu sem kemur fram í allt of lágu vaxtastigi og botnlausri útgáfu ríkisskuldabréfa. Eins og alltaf þegar blásið er í blöðrur halda menn að þeir hafi fundið einhverja töfralausn eða eilífðarvél sem öllu bjargar. Dow 36.000 hét bók sem kom út nokkrum dögum fyrir hrunið árið 2000 og viðskiptablöð á þessum tíma voru full af spádómum um endalausan vöxt tæknifyrirtækja. Og það voru tvö ár í fasteignahrunið þegar Time birti þessa forsíðumynd:

Seðlabankastjórar eru hetjur dagsins um þessar mundir. Mario Draghi er hampað fyrir að róa markaði í Evrópu og sjálfur yfirprentarinn, Ben Bernanke, er nánast í guðatölu. The Atlantic kallar hann hetju og myndaði eins og um dýrling væri að ræða.

Allt bendir þetta til þess að bóla seðlaframleiðslu og núllvaxta springi á næstunni. Nýleg ræða Adair Turner, stjórnarformanns Britain´s Financial Services—sem Reuters segir að sé „ein áhrifamesta stofnun heims á sviði ráðgjafar varðandi regluverk fjármálafyrirtækja“—staðfestir þetta. Turner lýsti því yfir blákaltað að fyrir hendi væri örugg leið til þess að örva efnahagslífið: Við eigum að gefa einstaklingum og aðþrengdum ríkisstjórnum peninga—beint úr prentvélunum! Með þessum hætti er hægt að fjármagna skattalækkanir og greiðsluhalla ríkisjóðs. Orð Adair Turner minna óþægilega mikið á ráðabrugg Skotans John Law 1716, en hann innleiddi hráa seðlaprentun í Frakklandi og setti landið á hausinn á örfáum árum.

Síðan evran kom til sögunnar hafa skuldir svæðisins nærri þrefaldast, og þá er efnahagsreikningur Evrópubankans ekki einu sinni reiknaður inn í dæmið. Grikkland er ónýtt ríki næstu áratugina og búið er að glata heilli kynslóð menntafólks. Þrátt fyrir hallelúja söng pólitíkusa og bankamanna um að vandi Evrópu sé leystur, þá dýpkar kreppan í álfunni og S-Evrópa heldur áfram að vera gjaldþrota. Atvinnuleysi á Spáni og í Grikklandi nær sennilega 30% á þessu ári og kynslóð ungs fólks horfir bráðum upp á 60% atvinnuleysi. Portúgal er tæknilega gjaldþrota og það þarf enga þekkingu á geimvísindum til þess að sjá að skuldir Spánar eru óyfirstíganlegar án utanaðkomandi hjálpar.

Tvö stórveldi Asíu eru að drukkna í pappírum.

Seðlaprentun Kínverja minnir á peningastjórn Þýskalands skömmu fyrir óðaverðbólguna 1923. Miðað við Evruland eða Bandaríkin er þjóðarframleiðsla Kína um þriðjungur ($6 trilljónir á móti $17 trilljónum á svæði ESB), en á bilinu janúar 2005 til janúar 2013 hækkuðu innistæður í bönkum landsins—og allar innistæður í innlendri mynt sjá fyrst dagsins ljós sem lán—úr $4 trilljónum (evrópskar billjónir) í $15 trilljónir! Þetta er um 500% hærra hlutfall innistæðna (miðað við þjóðarframleiðslu) heldur en t.d. í Bandaríkjunum.

Kínverjar spyrntu við kreppunni 2008 með því að stórauka lán á innanlandsmarkaði. Hugmyndin var að mæta samdrætti í útflutningi með aukinni eftirspurn innanlands, sem tókst að því leyti að meira húsnæði var byggt (sumt draugaborgir) og alls konar þarfar og óþarfar framkvæmdir fóru í fullan gang. Líklega hefðu Kínverjar frekar átt að auka neysluna með betra félagslegu öryggis- tryggingakerfi, því þótt nýjar skuldir í umferð örvi hagkerfið tímabundið, þá dregur óumflýjanlega aftur úr hagvexti þegar endurgreiðsla lánanna hefst. Um síðustu áramót neyddust stjórnvöld í Kína til þess að skikka banka landsins til þess að framlengja 75% allra lána til borga og héraða landsins—lán upp á tæpa 200.000 milljarða, reiknað í íslenskum krónum. Kínverska handstýringin getur varla virkað mikið lengur og meiri háttar uppgjör virðist skammt undan.

Japan er alveg sér kapítuli í viðskiptasögunni. Á árunum fyrir 1990 blésu þeir út sjaldséða hlutabréfa- og fasteignabólu, og ráðsettir menn á Vesturlöndum vöruðu við óstöðvandi framsækni Japans, sem virtist vera u.þ.b. að eignast allt bitastætt í heiminum. Fólk hefði átt að sjá að keisarinn var nakinn þegar landsvæðið í kringum höllina í Tokýo var metið dýrara heldur en allt land í Kaliforníu! Blaðran sprakk loks og fasteignamarkaðurinn hefur verið í lægð í yfir 20 ár. Hlutabréfamarkaðurinn, sem nálgaðist 40.000 fyrir röskum tveimur áratugum, stendur í 11.400 þegar þetta er skrifað.

Japanska hrunið 1991 var mjög svipað hruninu á Vesturlöndum 2008. Fasteignaverð féll og tók flest annað með sér í fallinu. Japanskir stórbankar voru upp til hópa gjaldþrota, en líkt og á Vesturlöndum voru eigendur þeirra heilagar kýr (zajbatsu) sem ekki máttu tapa á heimskulegri lánastarfsemi. Seðlabankinn lækkaði vexti niður á núllið, mokaði peningum í bankakerfið—og yfir tveggja áratuga efnahagslægð varð staðreynd.

Íslendingar hafa lengi þurft að þola okurvexti og eiga sjálfsagt erfitt með að ímynda sér að gjafavextir geti verið skaðlegir fyrir hagkerfið, en þannig er það samt. Hæfilegir (eðlilegir) vextir eru eins og umferðaljós sem stjórna peningaflæði hagkerfisins. Þeir blikka rauðu (hækka) þegar eftirspurn keyrir úr hófi, en sýna grænt ljós (lækka) þegar taflið snýst við. Hringrás peninga, t.d. endursala lána til sjóða og margvísleg endurfjármögnun, byggist á eðlilegum vaxtamuni. Þegar seðlabanki heldur stýrivöxtum á núllinu í langan tíma, riðlast öll lögmál og hringrás fjármagnsins brenglast. Það er raunverulega verið að stela af öllum sem spara og, það sem verra er, sumir aðilar, t.d. lífeyrissjóðir og tryggingafélög, sem verða að ávaxta sitt pund, eru hraktir út í vafasamar fjárfestingar. Léleg skuldabréf, kölluð ruslabréf, seljast t.d. á ótrúlega góðum kjörum þessa stundina í Bandaríkjunum. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar sjóðir og einstaklingar eru neyddir að taka óþarfa áhættu.

Það leikur enginn vafi á að Japan er tæknilega gjaldþrota, sem þýðir að skuldir landsins verða ekki borgaðar eða þær verða borgaðar með miklu ódýrari jenum eftir verðbólgubál.

Skömmu áður en bólur springa myndast venjulega almennt samkomulag um að dellan sem er í gangi eigi eftir að vara að eilífu. Hér að ofan var vitnað í Adair Turner, sem vill prenta peninga beint inn um lúguna hjá borgurunum, og í Japan er nýlega búið að sverja inn nýjan forsætisráðherra, Shinzo Abe, sem hvetur seðlabankann til þess að prenta miklu meira og ná verðbólgunni upp í 2%. Jenið hefur fallið yfir 10% í stuttri stjórnartíð Abe, og ef skuldabréfamarkaðurinn sér ósk hans um verðbólgu rætast, hækka vextir yfir 2% og lánsþörf ríkisins (nú þegar 45% af eyðslu eftir innheimtu skatta) stóreykst. Við allt þetta bætist að meðalaldur hækkar hratt í Japan—á síðasta ári seldust í fyrsta skipti fleiri bleyjur fyrir gamalt fólk heldur en á börn—og lífeyrissjóðir, sem hingað til hafa leikið stórt hlutverk við kaup ríkisskuldabréfa, eru farnir að selja fleiri bréf en þeir kaupa.

Kreppan í heiminum hefur vakið upp gamlan draug, skipulagðar gengisfellingar, með það í huga að auka útflutningstekjur einstakra ríkja. Seðlaprentun skipar veglegan sess í þessari baráttu, eins og fall jensins í kjölfar yfirlýsingar nýja forsætisráðherrans sýnir. Atburðarás sem byrjaði 1931 virðist ætla að endurtaka sig á næstunni, en 19. september það ár féll Bretland frá gulltryggingu pundsins. Í desember 1931 hafði pundið sigið um 30% gagnvart dollara og aðrar þjóðir hófu sama leikinn, þar í hópi Bandaríkin, Þýskaland, Frakkland og Svíþjóð. Samkvæmt bók Roderick Floud, The Economic History of Britain Since 1700: Volume 2: 1860–1939, þá felldu líka 25 önnur ríki sem tengdust heimsveldinu gengið.

Venesúela felldi gengið nýlega um 47% og margar aðrar þjóðir eru að reyna að lækka gjaldmiðil sinn til að geta keppt betur á alþjóðlegum mörkuðum. Víða stendur valið um vaxandi hallarekstur ríkisins og seðlaprentun—leið sem þegar hefur verið ofnotuð og er að ganga sér til húðar—eða auknar útflutningstekjur. Suður-Kórea, sem keppir beint við Japan á fjölmörgum sviðum úti um allan heim, getur t.d. ekki horft upp á frekari lækkun jensins. Ef Kórea ákveður að feta í fótsporið og lækkar gjaldmiðil sinn (vonnið), ríður yfir alda gengisfellinga um alla Asíu og víðar. Þegar öllu er á botninn hvolft stendur enginn uppi sem sigurvegari í svona leik. Þetta er kapphlaup niður á botninn.

Hvers vegna hefur þessi fáheyrða seðlaprentun úti um allan heim ekki hleypt verðbólgunni upp úr öllu valdi nú þegar? Svarið liggur í veltuhraða peninga. Seðlafjall lokað inni í hvelfingu eða geymt undir milljón koddum orsakar ekki verðbólgu. Peningamagn í umferð sem hringsólar skapar eftirspurn og verðbólgu. Á bæði kreppu- og styrjaldartímum hægir peningaveltan verulega á sér. Fólk heldur að sér höndum og bankakerfið lánar minna vegna óvissu og minni eftirspurnar. Veltuhraði peninga í hagkerfinu er mældur með því að deila peningamagni í umferð í verga þjóðarframleiðslu. Þetta línurit frá Bandaríkjunum, sem nær til upphafs kreppunnar 1929, sýnir okkur, minnsta kosti miðað við veltuhraða peninga, að yfirstandandi kreppa er miklu alvarlegi en almennt er auglýst.

Víðtækt atvinnuleysi og minnkandi tekjur hafa líka mikil áhrif á hvernig verðbólgan þróast. Þótt stórir þjóðfélagshópar, t.d. Bandaríkjunum, eyði eins og fyrr eða jafnvel um efni fram, miðað við tölur um skuldastöðu heimilanna, þá standa nógu margir fyrir utan neyslufylleríið til þess að halda verðlagi í skefjum. Bandarískar tölur um hagvöxt og atvinnuleysi eru byggðar á hagfræðilíkönum sem endurspegla ekki lengur raunveruleikann. Frá desember 2007—þegar eðlileg fjölgun á vinnumarkaði er tekin með í reikninginn—hafa 16 milljónir starfa gufað upp.

Þegar bankakerfið sem við notum—brotasjóðakerfið, sem byggir á nýsköpun lána með bókhaldsaðferðum—virkar eðlilega, þá mætir meira peningamagn í umferð vaxandi framleiðslu og aukinni þjónustu. Ef þessir hlutir eru í jafnvægi helst verðlag líka stöðugt. Hins vegar hefur aldrei í sögunni tekist að prenta mikið peningamagn í þeirri von að hagkerfið fylgi á eftir. Aldrei. Sagan er hins vegar barmafull af gullgerðarmönnum af ýmsu tagi sem hafa reynt að skapa auð úr engu og í leiðinni rústað heilum þjóðum. Frakkar reyndu að prenta sig inn í ríkidæmi tvisvar á átjándu öld með vægast sagt hörmulegum afleiðingum. Óðaverðbólgan í Þýskalandi 1923 situr enn í þjóðarsálinni og er sennilega ástæðan fyrir því að landið slapp eitt Evrópuríkja við fasteignabólu á árunum fyrir 2008. Mörg lönd í S-Ameríku hafa á liðnum áratugum fuðrað upp á verðbólgubáli eftir að einhverjir snillingar reyndu að fjármagna ríkisbúskapinn með seðlaprentun.

Það er mjög erfitt að spá í hlutabréfamarkaði eða aðrar fjárfestingar á meðan seðlabankar stórauka peningamagn í umferð og halda vöxtum fyrir neðan verðbólgustigið. Það gilda engin eðlileg lögmál við slíkar aðstæður. Reynslan hefur sýnt að þeir sem sitja næst kjötkötlunum, bankar, vogunarsjóðir og aðrir slíkir, eltast við hlutabréf og hráefni af ýmsu tagi. En þetta er óraunveruleg bóla og flest hlutabréf falla þegar hún springur. Það getur líka gerst með undraverðum hraða.

Viðvörunarskotið kemur þegar markaðurinn byrjar að krefjast raunvaxta á ríkisskuldabréfum.

Eftir það er fjandinn laus og eins gott að eiga aðeins hlutabréf í landbúnaðarfyrirtækjum, góðmálmum eða fela sig í norskum ríkisskuldabréfum. En þetta er skoðun greinarhöfundar sem ekki er fjármálaráðgjafi.