vald.org

Krónan og lélegir stjórnendur

14. mars 2013 | Jóhannes Björn

Aumingja krónan á undir högg að sækja. Henni er kennt um veðbólgu, gjaldeyrishöft, verðtryggð okurlán, lélegt bankakerfi, fákeppni og nærri því allt annað sem á bjátar í þessu samfélagi. Talsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið klifa stöðugt á veikleika krónunnar máli sínu til stuðnings. Helsta röksemd þeirra fyrir inngöngu er einmitt betri gjaldmiðill sem færir þjóðinni langþráðan stöðuleika.

Hér er dálítill tvískinnungur á ferðinni. Því er haldið fram að reynslan hafi kennt okkur að dvergkróna í litlu hagkerfi geti aldrei gengið upp, en á sama tíma er horft framhjá þeirri staðreynd að við getum ekki innleitt evru fyrr en ákveðnum skilmálum er mætt. Við verðum að ná stöðugleika til margra ára, festu sem felur í sér litla verðbólgu og óverulegan halla á rekstri ríkisins. Þetta hlýtur óneitanlega að vekja upp eftirfarandi spurningu: Ef það er framkvæmanlegt að skapa festu og stöðuleika í mörg ár í krónuhagkerfi til þess að geta innleitt evru—hvers vegna er þá ekki hægt að skapa þennan sama stöðuleika áfram þótt evran sé ekki á dagskrá?

Það er alrangt sem haldið er fram, að ótrúleg verðbólga síðustu áratuga og þörf fyrir verðtryggingu lána, stafi af litlu hagkerfi og dvergkrónu. Léleg hagstjórn, þar sem litlir kjarnar hagsmunaaðila og vel tengdir þrýstihópar hafa alltaf haft forgang yfir hagsmuni heildarinnar, er helsta orsök efnahagsöngþveitisins. Raunverulega ætti góð hagstjórn að vera auðveldari í litlu hagkerfi og krónan styrkur frekar en hitt. Minni hagkerfi Evrópu—t.d. Sviss, Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Lichtenstein og Andorra—eru í miklu betri málum heldur en flest stóru hagkerfin í álfunni. Auðvitað eru þessi ríki að mörgu leyti ekki sambærileg við Ísland, en þau undirstrika að stærð skiptir ekki máli þegar hagkerfið er annars vegar. Helsti munurinn á þessum ríkjum og Íslandi felst einfaldlega í því að þau búa við betri hagstjórn og heiðarlegri pólitíkusar ráða ferðinni.

Krónan er aðeins verkfæri sem misjafnlega hæfir einstaklingar hafa stjórnað í gegnum tíðina. Líkt og við kennum ekki hamri rangeygðs smiðs um alls konar klúður, þá getum við ekki kennt krónunni um verðbólgu og gengisfellingar. Vitlausar ákvarðanir koma fyrst og sjúkdómurinn—verðbólga og gengisfellingar—fylgja í kjölfarið. Misvitrir stjórnmálamenn og seðlabankastjórar vilja auðvitað að fólk haldi að þetta sé á hinn veginn.

Verðbólgan er ekkert dularfullt fyrirbæri sem læðist að okkur óvænt eða sprettur upp sjálfkrafa eins og illgresi. Verðbólga er sjúkdómur sem myndast í hagkerfinu þegar peningamagnið sem bankakerfið skapar skilar sér ekki aftur í samsvarandi aukningu vöru og þjónustu. Peningamagn í umferð og veltuhraði fjármagnsins ráða verðbólgustiginu. Veltuhraðinn eykst þegar traust fólks á gjaldmiðlinum minnkar og það reynir að losa sig við hann.

Verðtrygging lána er eitt mesta böl seinni áratuga. Að vera með verðtryggingu lána er eins og að aka bifreið sem er með stjórnlausa aukavél, sem hrekkur í gang annað veifið. Það er ekki hægt að stjórna verðtryggðu hagkerfi af neinu viti. Þetta er sjálfstýring sem huglausir eða heimskir pólitíkusar settu í gang og var (og er enn) taktísk viðurkenning á að þessir aðilar kunnu ekki að stjórna.

Seðlabanki Íslands getur stýrt grunnfjármagninu sem fer í umferð og haft stjórn á útlánagleði banka á bólutímum, t.d. með mismunandi stigi bindiskyldu. Eina sem pólitíkusarnir þurfa að gera er að halda ríkisbúskapnum í hæfilegu jafnvægi og spyrna við fótum þegar þrýstihópar heimta óraunhæfar efnahagsaðgerðir.

Hvernig sem við lítum á málið blasir sú staðreynd við að Ísland verður að halda áfram að nota krónuna og hagstjórnin verður að breytast. Verðtryggingin verður að víkja. Við verðum að minnka bankakerfið með því að aðskilja venjulega bankastarfsemi frá fjárfestingabraski. Ef innleiðing evru verður raunkostur, þá verðum við fyrst að mynda efnahagslegan stöðuleika til margra ára. Ef við erum tilbúin til þess að vinna að slíkum stöðugleika fyrir evruna, þá getum við allt eins vel haldið áfram á þeirri braut um ókomna tíð þótt krónan haldi velli.