vald.org

Aðvörun til þeirra sem eiga innistæður á evrusvæðinu

31. mars 2013 | Jóhannes Björn

Þegar fólk gengur inn í banka á Kýpur gæti það fyrst haldið að það hafi villst inn á lögreglustöð. Öryggisgæslan þykir nauðsynleg í ljósi þess að viðskiptavinir bankanna sem eiga yfir 100.000 evrur inni á reikningi virðast ætla að tapa 40–80% innistæðna sinna—og þeir eru reiðir. New York Times áætlar, að af heildainnistæðum í öllum bönkum á Kýpur, gufi upp á milli 60% og 77%. Stærstu innistæðurnar eru ansi veglegar og vega þungt í dæminu. En þessar tölur eru allar enn á fleygiferð.

Því skal spáð hér að sagnfræðingar framtíðarinnar líti á atburðarásina á Kýpur sem ein mestu mistök fjármálasögu seinni ára. Fyrir litla €5 milljarða var trú fólks á bankakerfi alls evrusvæðisins varpað út í hafsauga. Mistökin eru svo hrikaleg, að sá grunur hlýtur að vakna að bankakerfi ESB hafi verið komið í óleysanlegan hnút. Það eitt að háttsettir aðilar hjá ESB, AGS og Evrópubankanum hafi fyrst ætlað að ráðast á alla bankareikninga, líka innistæður undir €100.000, nægir til þess að peningaflótti verður snöggur alls staðar þar sem grunur um fjármálaójafnvægi skýtur upp kollinum. Við slíkar aðstæður er stjórn peningamála allt að því ógerleg.

Brotaforðakerfið sem bankar nútímans vinna samkvæmt byggist á því að eigin sjóðir bankanna dekka aðeins brot veltunnar. Ef óeðlilega stór hluti innistæðueigenda mætir allt í einu til þess að ná í peningana sína, þá springur kerfið. Þess vegna verður að byggja upp traust viðskiptavinanna með innistæðutryggingum eða einlægri trú um að ríki eða seðlabanki standi við bakið á bankakerfinu. Forystumenn Evrulands hafa nú beinlínis sagt fólki að engu sé að treysta þegar innistæður eru annars vegar. Það eru engar ýkjur að segja að nýtt tímabil óvissu sé runnið upp.

Samkvæmt Weiss Research, sem fylgist með miklum fjölda banka út um allan heim, þá standa margir þeirra mjög tæpt. Hér er listi yfir nokkra stórbanka (með eignir upp á $1090–$2585 milljarða) sem auðvelt væri að gruna um að vera tæknilega gjaldþrota og aðeins starfandi vegna þess að þeim er haldið á floti af tengdum seðlabönkum. A+ er besta einkunn sem banki getur fengið, en hann fær F þegar hann skellir í lás.

Crédit Agricole E-
Lloyds Banking Group E-
Société Générale E+
Uni Credit SpA E+
Barclays D-
BNP Paribas D-
Banco Santander D
Credit Suisse Group D
Deutsche Bank D
Mizuho Financial Group D
UBS D

Þetta mat þýðir ekki að hættan á falli bankanna fari nákvæmlega eftir þessari einkunnargjöf. Það er t.d. miklu líklegra að Uni Credit SpA rúlli heldur en Lloyds. Allir bankar í S-Evrópu eru hættulegir og elsti banki heims, sem ekki er á þessum lista—Monte dei Paschi á Ítalíu—er að sumra mati í andaslitrunum. Bankakerfi Slóveníu er svo gott sem hrunið.

Eins og venjulega þegar þjóðum S-Evrópu er slátrað (Kýpur er næsta Grikkland og það gerist undurhratt) þá hófst mikil og vel skipulögð áróðursherferð. Grikkir voru latir rauðvínsþambarar sem borguðu ekki skatta og því einsdæmi. Kýpur græddi á rússneskum mafíupeningum og var því einsdæmi. En það verður allur almenningur á Kýpur sem fær að þola ómældar hörmungar og í þetta skipti dugir engin auglýsingatækni til þess að villa umheiminum sýn. Fjölmargir breskir eftirlaunaþegar búa nefnilega á Kýpur og enska pressan mun flytja endalausar fréttir af píslargöngu þeirra.

Líklega ættum við öll á næstu mánuðum eða jafnvel árum að geyma peningana okkar í ríkisskuldabréfum landa sem við treystum.