vald.org

Þjófnaður aldanna—fyrsti hluti

31. maí 2013 | Jóhannes Björn

Allar fjármálakreppur fela í sér mikinn tilflutning eigna. Þótt bankar rúlli og gjaldmiðlar hrynji, þá halda flest raunveruleg verðmæti áfram að vera til. Eina sem gerist, þegar á heildina er litið, er að það verða eigendaskipti á mörgum mannvirkjum, fyrirtækjum, vélbúnaði o.s.frv. Sum fyrirtæki loka og aukið atvinnuleysi hægir á öllu kerfinu, en raunverulegur þjóðarauður hefur ekki farið neitt og ef rétt er haldið á spöðunum fara hlutirnir aftur í eðlilegt horf eftir nokkur ár.

Flest bendir til þess að kreppan sem byrjaði árið 2008—og hefur síðan verið haldið niðri með mestu seðlaprentun sem heimurinn hefur séð síðan Þjóðverjar fluttu seðla í hjólbörum á milli búða 1923—sé aftur að vakna til lífsins. Því miður þá hefur elítunni (aðallega ríkasta 0,1% heimsins) tekist að sölsa undir sig ótrúleg auðævi á þessum tíma. Þetta er kannski mesti þjófnaður í sögu heimsins.

Áður en þessi atburðarás er rakin í smáatriðum og við skoðum kauphallir, gjaldeyrisviðskipti, gull, gjaldmiðlastríð, seðlabanka, veð búin til úr lausu lofti og yfirvofandi hrun japanska hagkerfisins, þá er nauðsynlegt að fara fyrst ofan í saumana á hvernig banka- og peningakerfið raunverulega virkar. Ef fólk skilur ekki fullkomlega bókhaldsbrellur bankakerfisins og hvernig það starfar tæknilega, þá getur það aldrei áttað sig almennilega á hvernig kerfið rænir alla daglega.

Við skulum byrja á því að renna í gegnum nokkrar blaðsíður bókarinnar Falið vald, sem kom út 1979. Á þeim tíma var varla hægt að finna nokkurn Íslending sem gat skilið eða vildi trúa því að gullgerðarlist bankanna væri möguleg (þótt beinar tilvitnanir í marga frægustu hagfræðinga heimsins hefðu átt að duga), en eftir hrun 2008 fylltist Internetið af upplýsingum sem útskýrðu töfrabrögð kerfisins. Menn eins og Frosti Sigurjónsson og fleiri hafa síðan verið mjög duglegir við að kynna Íslendingum málið.

Peningagaldur—Hvernig bankarnir skapa sér auð úr engu

Áratugum saman hefur almenningur á Íslandi og annars staðar horft með vaxandi undrun á útþenslu bankakerfisins. Við höfum orðið vitni að hvernig bankar, sem margir hverjir hafa byrjað með rýra sjóði og búið við þröngan húsakost, hafa á nokkrum árum unnið sig upp í að verða stórveldi með tug- og hundruð milljarða veltu—skartandi háhýsum og útibúum út um allar jarðir. Við höfum einnig orðið vitni að hvernig sífellt fleiri hendur ljá þessu ríki í ríkinu starfskrafta sína …

Hvernig fara allir þessir bankar að því að ávaxta pund sitt jafn ríkulega og raun ber vitni? Ekki þarf að ganga lengi um marmarasali þeirra og virða fyrir sér tækjakost og starfsmannafjölda (eða blaða í árskýrslum þeirra) til að sjá, að gróðinn stafar ekki af rekstrarhagræðingu. Ekki ætti óðaverðbólga og almenn upplausn í efnahagsmálum heldur að hjálpa upp á sakirnar. Hvar liggur þá hundurinn grafinn? [Innskot: Þegar þetta var skrifað 1979 voru vextir af bankalánum lægri heldur en verðbólgustigið en samt ríkti mikið blómaskeið hjá bönkunum. Allir sem hefðu lánað eigið fé með þessum skilmálum hefðu strax orðið gjaldþrota, en verðbólgan kallaði á stöðugt meiri peningaprentun og bankarnir framleiddu nýjar skuldir á færibandi.]

Flestir bankamenn mundu svara spurningunni um gróða bankanna á þessa leið: Almenningur og fyrirtæki leggja peninga inn í bankana gegn vöxtum. Bankarnir lána síðan þessa sömu peninga gegn hærri vöxtum. Mismunurinn er álagning bankans. Einfalt?

Já, þetta er nógu einfalt og hefur reyndar verið endurtekið látlaust í meira en 200 ár. Gallinn er aðeins sá að ÞETTA ER EKKI SATT. Þegar málið er skoðað í heild, þá kemur í ljós að bankarnir lána ALDREI sparifé almennings. Öll lán og yfirdráttalán þýða einfaldlega að nýir peningar í umferð hafa séð dagsins ljós.

Þessar síðustu fullyrðingar kunna að koma flatt upp a marga, og þá sérstaklega bankamenn af „gamla skólanum.“ Hér er þó ekki verið að tala um hluti sem eru alveg óþekktir. Þeim hefur einfaldlega ekki verið haldið á lofti á æðstu stöðum. En sem betur fer eru staðreyndir þessa máls bæði einfaldar og auðsannaðar.

Flest höfum við vaxið úr grasi með ákaflega óljósar hugmyndir um peninga (þökk sé hagfræðinni, sem hefur tekist að gera þennan einfalda hlut svo flókinn). Við vitum þó að stjórnvöld eða einhver banki hefur einkarétt á að gefa út seðla og mynt, og við lítum á þessa seðla og mynd sem undirstöðu allra viðskipta. Þarna verður okkur fyrst fótaskortur. Staðreyndin er sú, að hinir lögboðnu peningar—seðlar og mynt—eru notaðir til að þekja innan við 5% greiðslna í viðskiptalífinu Meira en 95% allra viðskipta fara fram með tékkum eða hliðstæðum færslum á milli skuldaliða. Því má segja að tékkar [rafrænar greiðslur] séu peningar sem bankinn býr til—peningar sem notaðir eru á nákvæmlega sama hátt og þeir lögboðnu. Þetta fyrirkomulag gerir bankanum kleift að lána níu til tíu sinnum hærri upphæðir en raunveruleg seðlaeign hans segir til um.

Prófessor Soddy, eðlisfræðingur við Oxford háskóla, spyr:

„Er það mögulegt á þessum tímum vantrúar á efnisleg kraftaverk að dubba upp stofnanir, sem þykjast lána peninga, en lána þá ekki, heldur búa þá til? Og þegar þeim er endurgreitt, afmá þá? Og hafa því náð tökum á því efnislega óhugsandi kraftaverki, ekki aðeins að fá eitthvað fyrir ekkert, heldur einnig að uppskera af því óþrjótandi vexti?“

Í fjórtándu útgáfu alfræðibókarinnar Encyclopædia Britannica, undir fyrirsögninni Banking and Credit, getur að líta þessar fróðlegu línur:

„Bankar búa til lánsfé. Það væri skyssa að ætla að lánsfé banka verði til að einhverju teljandi marki vegna innlána í þá.“

Sir Edward Holden, yngri, breskur bankaeigandi, sagði eitt sinn:

„Bankarekstur er lítið annað en vinna við bókfærslu, þ.e. að flytja innistæður frá einum manni til annars. Tilfærslurnar fara fram með tékkum. Tékkar eru gjaldmiðill (ekki lögboðnir peningar). Gjaldmiðill er peningar.“

Við skulum líta á tæknilega hlið bankalána, hvernig bankarnir búa til peninga úr engu. Segjum að fyrirtækið Þöngull h/f fái lánaðar 10 milljónir hjá viðskiptabanka sínum. Upphæðin er færð inn á reikning fyrirtækisins; peningar sjást ekki. Þegar Þöngull h/f síðan losar sig við þessa upphæð, gerist það með tékkum sem lenda í yfir 95% tilfella inn á reikningum annarra aðila (það skiptir ekki máli þótt þessir reikningar séu að einhverju leyti í öðrum bönkum, vegna þess að reikningshafar þeirra gefa einnig út tékka sem lenda í viðskiptabanka Þönguls h/f). Bankakerfið hefur aukið veltuna um 10 milljónir og er vöxtunum ríkara.

Merkilegast við lán Þönguls h/f er þó hvaða meðferð það fær í bókhaldi bankans. Upphæðin, í þessu tilfelli 10 milljónir, verður fyrst til þegar bankinn færir hana inn á reikning fyrirtækisins. Á efnahagsreikningi bankans kemur hún fram sem eign (bankinn á þessa peninga hjá Þöngli h/f) og einnig sem skuld (bankinn skuldar Þöngli h/f þá upphæð sem er á ávísanareikning fyrirtækisins). Þegar Þöngull h/f borgar lánið, hverfur upphæðin úr bókhaldinu og vextirnir sitja einir eftir. Tíu milljónirnar voru aldrei til. Eina sem gerist varðandi bankann er að hlutfall lána og eignar löglegra peninga verður hagstæðara þegar lánið er endurgreitt.

John Maynard Keynes, sem var bankastjóri Englandsbanka á stríðsárunum, sagði í A Treatise on Money, Volume 1, THE PURE THEORY OF MONEY, 1958:

„Það getur ekki nokkur vafi leikið á að allar innistæður eru skapaðar af bönkunum.“

Hér skulum við staldra við augnablik og draga saman í nokkrar setningar helstu atriðin sem hafa komið fram. Við höfum séð að:

  1. Yfir 95% allra viðskipta fara fram með tékkum [eða rafrænum greiðslum], ekki lögboðnum peningum.
  2. Þess vegna er bankakerfið í aðstöðu til að lána 9–10 sinnum hærri upphæð en peningaeign þess segir til um.
  3. Bankarnir lána ekki sparifé almennings, heldur búa þeir til nýja peninga í hvert skipti sem þeir lána.
  4. Þegar banki fær lán endurgreitt, þá hverfur það úr bókhaldinu. Vextirnir sitja einir eftir.
  5. Allar innistæður voru í upphafi bankalán.

Öll þessi atriði hafa eitthvað að gera með að skapa sér auð úr engu. Þó er óupptalið eitt atriði enn sem fellur undir sömu skilgreiningu og er e.t.v. skemmtilegast (tæknilega séð) af þeim öllum. Þegar bankarnir kaupa lóðir, byggja marmarahallir, kaupa skrifstofuvélar, borga kaup og yfirleitt fjárfesta á einhvern hátt, þá kostar það þá sama og ekki neitt. Þegar litið er til lengri tíma, alls ekki neitt. Þetta er þó bundið því skilyrði (ef maður lítur á hvern einstakan banka fyrir sig) að bankarnir fjárfesti nokkuð jafnt og í hlutfalli við veltuna (sem þeir venjulega gera).

Gerum dæmið einfalt og hugsum okkur að aðeins væru starfandi tveir bankar á Íslandi, banki A, sem veltir 600 milljörðum, og banki B, sem veltir 300 milljörðum. Við sjáum að banki A er helmingi stærri en banki B. Það þýðir að hann getur leyft sér helmingi meiri fjárfestingar. Nú byggir banki A marmarahöll sem kostar 600 milljónir. Hann borgar fjölda aðila fyrir verkið með því að gefa út tékka [eða hann borgar rafrænt] á sjálfan sig. Þessir tékkar eru, að sjálfsögðu, tilbúnir peningar sem jafnast út í bókhaldinu með því að færa andvirði marmarahallarinnar til eignar. Vegna þess að banki A veltir 2/3 alls fjármagns í landinu, koma 400 milljónir af þeim 600 sem hann gaf út inn í hann aftur og auka veltuna. Á sama tíma fara tékkar fyrir 200 milljónir inn í banka B.

Banki B hefur ekki setið auðum höndum. Hann hefur byggt minni marmarahöll sem hann borgar í tékkum, samtals 300 milljónir. En af því að hann veltir aðeins 1/3 af heildarfjármagninu, þá skila aðeins 100 milljónir sér til baka; 200 fara inn í banka A. Um áramót gera banki A og banki B upp reikningana. A skuldar B 200 milljónir og B skuldar A 200 milljónir. Marmarahallirnar kostuðu ekki neitt!

Auðvitað gætu bankarnir reynt að klóra í bakkann og haldið því fram að þeir keyptu marmarahallirnar fyrir gróðann eða peninga úr eigin sjóðum. Þær fullyrðingar fá ekki staðist vegna þess að bankinn missir ekki neitt. Sjóðirnir standa óhaggaðir eftir sem áður.

Marriner Eccles, fyrrum formaður stjórnarnefndar Federal Reserve System (alríkisseðlabankakerfi USA), kemur inn á þessi sömu atriði er hann segir:

„Bankarnir geta búið til og afmáð peninga. Lán banka eru peningar. Með þeim peningum framkvæmum við flest viðskipti okkar, ekki með þeim peningum sem við venjulega hugsum okkur sem peninga.“

Ein broslegasta sönnunin fyrir því að bankar lána ekki sparifé viðskiptavina sinna er þessi: Hefur nokkur lesenda upplifað að innistæða hans í banka hafi verið lækkuð til þess að bankinn geti lánað hana? Hvernig ætti bókhaldið að ganga upp ef allir halda sínum fullu innistæðum á sama tíma og bankinn lánar þær?

Ársskýrslur allra banka leggja ríka áherslu á eitt atriði: Innlán (peningastreymi inn í bankana) eru hærri en útlán. Þetta er venjulega sett upp í súlur sem eiga að sanna regluna: „bankar lána sparifé viðskiptavinanna.“ Þessi uppsetning er villandi vegna þeirra augljósu sanninda að bankakerfið er uppspretta allra peninga. Allir peningar sem lagðir eru inn á banka hafa einhvern tíma verið lánaðir út úr banka.

Reginald McKenna, forseti stjórnarnefndar Midland Bank, kom inn á þetta atriði er hann ávarpaði hluthafa bankans, hinn 25. janúar 1925—skráð í bók hans Post-War Banking:

„Magn peninga í umferð breytist aðeins með tilliti til aðgerða bankanna við að auka eða minnka innistæður og fjárfestingar þeirra. Við vitum hvernig þetta gengur fyrir sig. Öll lán, yfirdráttarheimildir og allar fjárfestingar bankanna skapa innistæður, en allar endurgreiðslur lána, yfirdráttarheimilda og sölur bankanna afmá innistæður.“

Chamber’s Encyclopædia, annað hefti (1950), undir fyrirsögninni “Banking and Credit”, segir um þetta atriði:

„… bankalán skapa innistæður. Sköpunin á sér stað þegar andvirði lánsins er lagt inn á reikning viðskiptavinarins, eða, þegar annar háttur er hafður á, þegar skuld eins viðskiptavinar verður innistæða annars.“

R.G. Hawtrey, sem eitt sinn var háttsettur starfsmaður í breska fjármálaráðuneytinu, segir í bók sinni, Trade Depression and the Way Out:

„Þegar banki lánar þá býr hann til peninga úr engu.“

Og í annarri bók, The Art of Central Banking, segir Hawtrey:

„Þegar banki lánar þá býr hann til peninga. Á móti þeirri upphæð sem bætist við eignir hans vegur innlegg sem bætist við skuldir hans. En aðrir lánadrottnar búa ekki yfir þessu dularfulla valdi að skapa sér gjaldmiðil úr engu.“

Til að skilja þetta skrýtna fyrirkomulag fullkomlega verðum við að hverfa nokkur hundruð ár aftur í tímann og sjá hvernig það varð upphaflega til.

Innbrot og rán á þjóðvegum voru mjög algeng á Englandi áður en Sir Robert Peel kom þar á fót skipulagðri lögreglu árið 1835. Af þessum sökum kaus fólk að koma gulli sínu fyrir á öruggum stað og sneri sér til gullsmiðanna, en þeir voru einu aðilarnir sem réðu yfir nægilega sterkbyggðum geymslum. Þegar fólk lagði inn gullið sitt fékk það vottorð eða ávísun fyrir innistæðunni. Smámsaman þróuðust þessar ávísanir upp í að verða virkur gjaldmiðill. Svo lengi sem fólk treysti greiðslugetu viðkomandi gullsmiðs, þá var því sama hvort það fékk greitt í ávísun frá honum eða gulli. Færri og færri kusu að meðhöndla hið raunverulega gull, því auðvitað var pappírinn bæði léttari og meðfærilegri til allra viðskipta, svo ekki sé talað um öryggið gagnvart þjófum.

Ekki leið á löngu áður en gullsmiðirnir gerðu sér grein fyrir þeirri frábæru stöðu sem þeir voru komnir í. Vegna þess hve fáir vitjuðu um gullið sitt voru þeir í aðstöðu til að gefa út pappíra fyrir 9–10 sinnum hærri upphæðum en gulleign þeirra sagði til um. Hver 1000 sterlingspund í gulli gáfu möguleika á að lána 9000–10.000 á vöxtum. Í bókinni Anatomy of Credit, segir Garet Garrett um þetta fyrirkomulag:

„Hvernig getur banki lánað allt að nífalt meira fjármagn en peningaeign hans segir til um? Kannski er auðveldast að útskýra það með því að segja söguna um gömlu gullsmiðina, sem fengu gull til varðveislu, og gáfu út ávísanir fyrir því. Þessar ávísanir, staðgenglar gullsins, byrjuðu að ganga á milli fólks sem peningar. Þegar gullsmiðirnir sáu þetta, og að fólk handfjatlaði sjálft gullið sjaldan eða vildi það aftur, að því tilskildu að það tryði að það væn öruggt, þá hófu þeir að gefa út pappírsgjaldmiðil sem hægt var að skipta í gull, án þess að eiga gull fyrir honum.“

Á dögum Cromwells var byrjað að kalla gullsmiðina „bankamenn“. Árið 1694 bundust nokkrir slíkir samtökum og fengu einkaleyfi, gegn því að lána ríkinu 1.2 milljónir sterlingspunda, til að stofna Englandsbanka (þjóðnýttur 1946). Þetta fyrirkomulag breiddist fljótlega út um allan hinn siðmenntaða heim.

Síðan þetta var skrifað 1979 hefur það helst gerst að enginn getur lengur reiknað nákvæmlega út hversu oft bankakerfið getur lánað sömu peningana. Ósýnilegi veggurinn (Glass-Stegall) sem hélt sparifé í hæfilegri fjarlægð frá braskdeildum bankanna var rofinn. Reglum um veð var breytt og ný lán voru slegin út á skuldir. Óskráð (ekki á miðlægum, opnum markaði) afleiðuviðskipti náðu hæðum sem enginn skildi eða um 12 sinnum hærri veltu en nam allri ársframleiðslu heimsins. Og mikilvægast af öllu—peningaiðnaðurinn stakk pólitíkusunum í vasann með gjöfum í kosningasjóði.

Hrunið 2008 skrifast nær alfarið á reikning banka sem fóru offari, sérstaklega á árunum eftir 2000. Næstir í röð sökudólga eru pólitíkusar og eftirlitsaðilar sem aldrei tóku í taumana. Peningaiðnaðurinn hefur hins vegar rekið stanslausan áróður í gegnum almannatengla og fjölmiðla þar sem því er haldið fram að óábyrg eyðsla almennings og ríkisstjórna hafi sökkt skútunni. Þessi barnalegu rök hafa haft ótrúleg áhrif á umræðuna. Staðreyndin er auðvitað sú að enginn fær lán í banka nema bankinn ákveði fyrst að lána viðkomandi. Bankinn er ekki aðeins sérfræðingurinn sem situr við borðið sem veit allt um áhættu—hann ber líka samfélagslega skyldu til þess að tryggja að fjármagnið renni í rétta farvegi; það er hlutverk hans í hagkerfinu. Allt tal um að fólk hafi keypt sér of stór hús eða flatskjái er hreint bull.

Bankakerfið lánaði eins og drukkinn sjómaður á árunum fyrir hrun vegna þess eins að það hafði hannað svikakerfi þar sem hægt var að endurselja fáránlegustu lánapakka á toppverði. Svokölluð matsfyrirtæki (t.d. Moody´s og Standard & Poor´s) tóku þóknun fyrir að gefa ruslinu AAA einkunn. Með þessari aðferð, endurvinnslu lána sem sífellt pumpaði inn fersku kapítali, var hægt að skrúfa upp fasteignaverð út um allan heim. Það er athyglisvert að þýskir stórbankar léku þennan leik alls staðar þar sem þeir lánuðu nema heima fyrir.

Líkt og tæknibólan sem sprakk upp úr 2000 var fasteignabólan sem sprakk 2008 dæmigerð fyrir það hvernig bankakerfið getur skapað keðjuverkun og síðan grætt á froðu. Tökum sem dæmi nýtt hverfi sem var byggt árið 2002 á grískri strönd og kostaði €1000 milljónir. Bankarnir lánuðu fjölda aðila €900 milljónir (með veði í húsunum) og endurseldu lánin. Á þessum tímapunkti var það bönkunum í hag að bjóða mjög hagstæð lán, því þeir gátu endurselt þau jafn óðum, og eftirspurn jókst og eignirnar (veðin sem hægt var að lána út á) byrjuðu eðlilega að hækka. Áður en spilaborgin hrundi höfðu bankarnir lánað út á veð sem voru metin á yfir €2 milljarða! Markaðurinn hrundi vegna þess að tekjur fólks voru ekki lengur í neinu samræmi við greiðslubyrði af ímynduðum verðmætum. Bankarnir rúlluðu líka vegna þess að þeir gátu ekki losað sig við lánin sem komu í síðustu umferð pýramída-ævintýrisins. Fjölskyldur voru síðan bornar út á götu á meðan skattgreiðendur voru skikkaðir til þess að bjarga bönkunum.

Í hnotskurn byggir brotasjóðakerfið—eins og Frosti og félagar hafa svo skemmtilega þýtt fractional reserve á íslensku—á því að bankarnir lána nýja peninga út á veð í raunverulegum verðmætum. Talsmenn bankanna hafa talið flestum trú um að „hæfileg“ verðbólga sé hagfræðilega séð mjög æskileg, sem sagan sýnir að er hrein goðsögn, en stöðug verðbólga hækkar verðgildi allra veða og gefur bönkunum færi á að lána meiri platpeninga. Hrunið 2008 lækkaði raunveruleg verðmæti víða um heim mikið og það er til marks um spilavítið sem stórbankarnir hafa þróast í að þeir einfaldlega töfruðu fram ný veð til að braska með. Í stuttu máli hafa bankarnir tekið upp á því í hættulega miklum mæli—eins og þessi skýrsla frá seðlabanka seðlabankanna, Bank for International Settlements í Sviss, ber með sér—að nota sjálfir veð viðskiptavina sinna!

Nútíma bankaviðskipti eru vissulega töfrabrögð. Þegar fyrirtæki tekur lán í banka gegn veði, t.d. í fasteign eða traustum verðbréfum, þá getur bankinn (með samþykki fyrirtækisins sem að launum fær eitthvað betri skilmála) notað þetta sama veð til þess að stunda afleiðuviðskipti eða eitthvað annað. Nú eiga að gilda einhverjar reglur um hversu langt þessi leikur getur gengið, en flækjustig t.d. afleiðuviðskipta, sem eins og áður hefur komið fram eru ekki skráð opinberlega, er slíkt að það er vitað að sömu veðin eru í stanslausri endurvinnslu. Málið er orðið svo alvarlegt að ESB er byrjað að taka í taumana.