vald.org

Þjófnaður aldanna—annar hluti

5. júní 2013 | Jóhannes Björn

Það er erfitt að trúa því að hrunið 2008 hafi komið seðlabönkum eða öðrum sérfræðingum eins mikið á óvart og þessir aðilar vilja vera láta. Öll bólueinkenni voru til staðar og þessi vefsíða varaði t.d. oft við fasteignahruni, t.d. 24. maí 2005 („Sápukúla sem springur með háum hvelli“) og 20. mars 2007 þegar sagt var beint út (meira en 18 mánuðum fyrir hrun): „Allt sem hér hefur verið skrifað á undanförnum mánuðum um útlit efnahagsmála heimsins stendur óhaggað og engar grunnstaðreyndir hafa breyst. Eins og margoft hefur verið bent á þá stefnir í efnahagslægð sem á upptök sín á bandarískum fasteignamarkaði.“

Helstu seðlabankar heimsins eru lítið annað en útibú frá stórbönkunum. Ef yfirmenn þeirra koma ekki beint frá fjármálageiranum, þá eru þeir á leið í gegnum hringdyrnar frægu og fá seinna vel launuð störf hjá bankakerfinu. Sennilega græddu stórbankarnir svo mikið á glannalegum vafningum og öðru sem árum saman blés í fasteignabóluna, að enginn blýantsnagari treysti sér til þess að stöðva leikinn. Aðgerðir seðlabanka og ríkisstjórna eftir hrun sýna líka glöggt hvar raunverulegir valdaþræðir hagkerfisins liggja.

Hrunið orsakaði verðfall á alls konar vafningum og afleiðupappírum, sem ýtti fjölda stórbanka á barm gjaldþrots. Peningakerfi margra ríkja hrundi líka vegna þess að skuldirnar voru of miklar og veð í fasteignum og fyrirtækjum voru ekki lengur raunhæf. Skatttekjur lækkuðu og ríkisfjármál þjóða röskuðust. Sum lönd höfðu bæði fleytt rjómann af síhækkandi fasteignaverði—með tilheyrandi framkvæmdum og nýjum tekjustofnum—og líka eytt um efni fram í áratug eða lengur.

Þegar einhver drukknar í skuldum—hvort sem um er að ræða heimili, banka, fyrirtæki eða heilt þjóðfélag—þá næst ekki aftur jafnvægi nema skuldir séu afskrifaðar. Flestir hlutlausir hagfræðingar eru sammála um að haustið 2008 hefði sænska leiðin svokallaða—uppgjör banka með miklum afskriftum skulda þar sem hluthafar og handhafar skuldabréfa í bönkunum tapa miklu—verið eina færa leiðin. Vegna þess að handhafar skuldabréfanna (senior bond holders) tilheyrðu elítunni var ákveðið að bæði senda skattgreiðendum reikninginn og láta seðlabanka prenta ótrúlegt peningamagn.

Þetta fyrirkomulag, að margfalda peningamagn í umferð með kaupum seðlabanka á ríkisskuldabréfum og öðrum pappírum, hefur gert þjófnað aldanna mögulegan.

Hrá peningaprentun seðlabanka—seðlaprentun sem mætir ekki aukinni verðmætasköpun í hagkerfinu, heldur keyrir stýrivexti niður á núllið með óeðlilegu framboði peninga—lætur ekki peningum rigna jafnt yfir alla. Þetta er meira eins og uppspretta sem fáir útvaldir einoka. Bankakerfið hefur t.d. gengið í þennan sjóð seðlabankanna (tæknilega sjóð fólksins) í yfir fjögur ár og fengið ókeypis lán, sem síðan hafa m.a. verið notuð til þess að kaupa skuldir fólksins (ríkisskuldabréf) á hærri vöxtum. Þetta er nokkurs konar eilífðarvél sem malar gull. Hluthafar og eigendur skuldabréfa í þessum bönkum hafa grætt ótæpilega. Næstir í röðinni eru fjárfestar af öllu tagi, aðilar sem hafa gott lánstraust og geta slegið peninga á sögulega lágum vöxtum. Þessir spekúlantar kaupa allt sem býðst á brunaútsölu og hafa skapað nýja bólu á hlutabréfamarkaði.

Þegar á heildina er litið er botnlaus seðlaprentun seðlabanka heimsins hagfræðilegur brandari og, eins og reynsla seinni ára hefur sýnt, aðgerð sem gerir lítið sem ekkert fyrir atvinnulífið. Sagan hefur sannað að það er aldrei hægt að prenta yfir sig hagvöxt. Þeir sem sitja næst kjötkötlunum, og hafa aðgang að þessu nýja gjafafé, fjárfesta ekki með langtímamarkið að leiðarljósi. Þeir eru í leit að skammtímagróða—aðallega pappírsgróða. Ráðsettir aðilar, þeir sem eiga sparifé, uppskera hins vegar neikvæða vexti og kaupmáttur þeirra rýrnar. Eðlilegt hringstreymi peninga hættir að virka og allar áherslur breytast. Lífeyris- og tryggingasjóðir leita dauðaleit að ávöxtun til þess að geta staðið við skuldbindingar sem voru teknar við allt aðrar aðstæður og hærra vaxtastig. Í stuttu máli þá ryðja skammtímasjónarmið öllu öðru úr vegi.

Gróði peningageirans í Bandaríkjunum hefur í mörg ár verið að taka sífellt stærri sneið af þjóðarkökunni. Gróðinn snarlækkaði við hrunið 2008, en náði sér strax á strik og gott betur eftir að seðlabankinn hljóp undir bagga. Þegar maður skoðar eftirfarandi línurit (gróði fjármálafyrirtækja sem hlutfall af þjóðarframleiðslu) þá er mikilvægt að muna að tekjur 90% fólksins hafa verið að lækka.

Seðlabanastjórar stærstu bankanna eru ekki heimskir. Þeir vita vel hvað þeir eru að gera og þeir sjá eins og allir aðrir að ríkasta fólk heimsins hefur orðið miklu ríkara síðan hrá seðlaprentun (sem þeir kalla quantitative easing) hófst fyrir alvöru og allir aðrir eru fátækari. 0,6% jarðarbúa eiga núna 39,3% alls auðsins og bilið hefur verið að breikka með hverju árinu sem líður. Annað hvort stendur bankastjórunum á sama um þetta ófremdarástand … eða þeir taka við beinum skipunum frá elítunni.

Það versta við hráa peningaprentun er þó að þar er verið að skapa ójafnvægi sem á eftir að orsaka enn dýpri kreppu heldur en þá sem við upplifðum 2008. Hlutabréfamarkaðir eru komir úr sambandi við raunveruleikann og eru reknir eins og spilavíti. Slæmar skuldir hlaðast upp í kerfinu, því sögulega lágir vextir hvetja menn til þess að kaupa alls konar ruslapappíra sem bera aðeins hærri vexti. Ódýrir peningar hafa gert stórbönkum kleift að þenja út afleiðumarkaðinn með töfrabrögðum sem Ponzi sjálfur hefði verið stoltur af.

Meira að segja Bank for International Settlements, helsta stjórntæki elítunnar, varar við ástandinu í nýrri ársfjórðungsskýrslu bankans. Allir tapa þegar skuldir hagkerfisins ná vissu marki og á einhverju augnabliki hætta hjólin að snúast.

Bandaríska bankaeftirlitið telur að 25 stærstu bankar landsins séu með afleiðusamninga upp á $212.525.587.000.000 eða rösklega $212.000 milljarða, sem er 24 sinnum hærri upphæð heldur en samanlagt andvirði allra bankanna. Það eru draumórar að halda að það séu fyrir hendi borgunarmenn fyrir öllum þessum afleiðusamningum ef einhvers konar keðjuverkun vanskila fer af stað. Allt þetta útskýrir hvers vegna gull hækkaði stanslaust í 12 ár og hvers vegna það á líklega eftir að hækka miklu meira á næstu árum.

Vald.org byrjaði að mæla með gulli 2004 þegar það kostaði um $400 únsan. Á þessum tíma var peningamagn í umferð að aukast hratt vegna vaxandi fasteignabólu víða um heim og eftirspurn eftir beinhörðu gulli (frekar en pappírsgulli) var að aukast. Í dag er staðan svipuð nema að því leyti að seðlaprentunin er margfalt meiri og eftirspurn eftir beinhörðu gulli hefur slegið öll fyrri met. Hvers vegna hefur gull þá lækkað um yfir $500 dollara síðan það sló öll met og fór í stuttan tíma yfir $1900?

Það eru sterk öfl á sveimi sem stöðugt reyna að halda gullverðinu í skefjum, t.d. seðlabanki Bandaríkjanna og bankar sem gefa út pappírsgull. Bandaríkin eru í þeirri frábæru stöðu að vera með viðmiðunargjaldmiðil—sem gerir þeim kleift að prenta peninga eftir þörfum til kaupa á vöru og þjónustu úti um allan heim—og hækkandi gullverð er óþægilegt vegna þess að það minnir stöðugt á þá staðreynd að pappírspeningar hafa engan raunverulegan bakstuðning. Þegar kerfinu er misboðið með glannalegri seðlaprentun eru skuldadagarnir aldrei langt undan. Hækkandi gullverð dregur úr trú almennings á platpeningum. Hækkandi gullverð er líka bein ógnun við hráa peningaprentun, sem hefur náð hæðum sem hefðu verið óhugsandi fyrir aðeins nokkrum árum.

Bankar sem braska með pappírsgull reka það sem við getum kallað brotagullssjóðakerfi. Líkt og bankar lána margfalt meira peningamagn heldur en þeir eiga, þá unga gullbankarnir út samningum upp á miklu hærri upphæðir heldur en gullið sem þeir luma á eða hafa leigt frá seðlabönkum (seðlabankar leigja gullbönkum gull gegn vægu gjaldi svo þeir geti framleitt fleiri gullpappíra). Margir sem versla með gull telja að einn eða fleiri pappírsbankar hafi verið nær uppiskroppa með raunverulegt gull í apríl og árás á gullverðið hafi því verið stríð upp á líf og dauða. Í mars 2013 hafi t.d. einn stærsti banki Hollands, ABN Amro, hætt að afhenda fólki samningsbundið gull og lét það hafa peninga í staðinn.

Það eru tvær tegundir markaða sem versla með gull. Annar er pappírsmarkaður, t.d. Comex í New York, en hin tegundin er markaður þar sem skartgripaframleiðendur, heildsalar, framleiðendur gullpeninga og aðrir slíkir kaupa raunverulegt gull. Svo einkennilegt sem það annars kann að hljóma, þá er gullverðið ákveðið á markaði sem braskar með gullpappíra—ekki þar sem raunverulegt gull skiptir um hendur.

Föstudaginn 12. apríl 2013 opnaði gull í New York á $1575 únsan. Gullverðið var greinilega undir álagi eftir að George Soros sagðist hafa selt á fyrsta ársfjórðungi, Goldman Sachs (kolkrabbinn sem teygir arma sína í öll skúmaskot) spáði lækkandi gullverði, orðrómur komst á kreik um að Kýpur þyrfti að selja gullforða sinn og markaðsnefnd seðlabankans lak upplýsingum degi fyrir opinbera birtingu fundargerðar, þar sem gefið var í skyn að dregið yrði úr hrárri peningaprentun bankans. Allt var tilbúið.

Furðulegir hlutir fóru nú að gerast. Fyrst kom 100 tonna skortsala á pappírsgulli og klukkustund síðar 300 tonna skortsala. Venjulegir viðskiptaaðilar, sem versla á þessum markaði til þess að græða peninga, hegða sér ekki svona. Menn nota ákveðinn tröppugang og mjatla inn gróðanum með vissum öryggisventlum (trailin stops) sem koma í veg fyrir óvænt tap vegna verðsveiflna. Þennan föstudag var verslað með gull að andvirði yfir 20 milljarða dollara og eftir því sem næst verður komist virðist einhver hafa tapað yfir milljarð dölum—gagngert til þess að lækka gullverðið. Aðeins aðilar sem prenta peninga geta hegðað sér svona.

Gull lækkaði meira á tveim dögum heldur en það hafði gert í 33 ár og niðursveiflan hélt eðlilega áfram og gullverðið sökk niður fyrir $1400. Pappírsframleiðendur seðlabanka og gullbraskara hafa sjálfsagt haldið á þessum punkti að gullstríðið væri unnið—Nouriel Roubini spáði því t.d. í nýlegri grein að gull fari niður í $1000 árið 2015—en viðbrögðin á raunverulegum gullmörkuðum benda hins vegar til þess að lífdagar pappírsgulls hafi verið styttir til muna.

Eftirspurn eftir beinhörðu gulli margfaldaðist, bæði vegna betra verðs og líka vegna þess að allar þessar „nöktu“ skortsölur grófu undan trausti og fældu fjárfesta frá pappír og ráku yfir í raunverulegt gull. Fólk stóð í röðum klukkustundum saman, sérstaklega í Asíu, til að kaupa gull og álagning yfir auglýst heimsmarkaðsverð snarhækkaði. Financial Times vitnaði í forstjóra Hong Kong Gold & Silver Exchange Society, Haywood Cheung, sem sagði:

„… hvað magn varðar hef ég ekki séð svona gullæði í 20 ár. Eldri starfsmenn sem hafa unnið við þetta í 50 ár hafa aldrei séð neitt þessu líkt.“

Gullmarkaðurinn í Shanghai tók kipp og seldi 150 tonn á einni viku, gullkaupmenn í Dubai margfölduðu álagningu sína (í smásölu) á meðan viðskipti á gullmarkaði landsins slógu öll fyrri met 16. apríl. Bandaríska myntsláttan setti nýtt met 17. apríl þegar hún seldi tvö tonn eða 63.000 únsur gullpeninga og 19. apríl var heildarsala ársins komin í 62% heildarsölu alls ársins 2012.

Það er augljóst að margar þjóðir í Asíu eru að hamstra gull. Nýleg gervilækkun gerir ekkert annað en að flýta fyrir þessari þróun. Kínverjar hafa verið sérstaklega iðnir gullkaupmenn og gullforði þeirra er raunverulega óþekkt stærð. Það virðist þó ljóst að þeir eru að búa sig undir að láta gjaldmiðilinn fljóta og vilja því hafa traustan gullgrunn. Það eru líka hugmyndir á sveimi um að BRIC-löndin (Brasilía, Rússland, Indland og Kína) hafi fullan hug á að koma nýjum viðmiðunargjaldmiðli á laggirnar og hann verði að hluta gulltryggður. Kínverjar grafa töluvert gull úr jörðu, sem þeir selja ekki úr landi, og innflutningur þeirra frá Hong Kong er mikill.

Margir hagfræðingar, og þar fer fremstur sá snjalli maður Nouriel Roubini, spá lækkandi gullverði. Aðrir sjá fyrir mikla hækkun og benda máli sínu til stuðnings á botnlausa seðlaprentun allra stærstu seðlabanka heimsins. Verð á öllum hlutum ræðst aðeins af seðlamagni í umferð og veltuhraða peninga. Það er rökvilla að segja að verðbólgan á Vesturlöndum sé óveruleg og gleyma að reikna hækkanir á hlutabréfum inn í dæmið. Aukinn veltuhraði peninga—sem kemur vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu eða flótta frá hlutabréfum og pappírum af öllu tagi—á eftir að skapa miklu meiri verðbólgu en flesta grunar. Það er lexía sem sagan hefur kennt okkur. Larry Edelson, sem hefur í áratugi spáð rétt um hækkanir og lækkanir gulls, sagði síðast í gær (4. júní) að hann ætti von á að gull hækkaði í $5000 únsan á næstu þrem árum. Undirritaður, sem ekki er ráðgjafi, telur að það sé nú þegar búið að baka $3000 inn í gullverðið.