vald.org

Gunnar Tómasson skrifar

24. júní 2013 | Gunnar Tómasson

Ágætu alþingismenn:

Svigrúm til skuldaleiðréttinga er talið felast í krónueignum kröfuhafa þrotabúa Glitnis og Kaupþings.

Í eftirfarandi bloggfærslu minni á eyjan.is í dag, 23. júní, álykta ég að slíkt svigrúm sé takmarkað.

Hvað er þá til ráða?

Í innleggi á Facebook í dag benti ég á annað úrræði:

„Það úrræði er uppstokkun á krónukerfinu að hætti Vestur-Þýzkalands eftir síðari heimsstyrjöld, en skuldaleiðrétting gæti verið liður í slíkri aðgerð.“

Margt annað mælir með slíkri uppstokkun á krónukerfinu.

T.d. er vandséð að gjaldeyrishöft verði afnumin á yfirstandandi kjörtímabili án slikrar uppstokkunar.

Friðrik Jónsson og Jóhannes Björn eru meðal þeirra sem hafa talað fyrir slíkri uppstokkun.

Í dag lýstu þeir stuðningi við innlegg mitt.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur

Eignir kröfuhafa og leiðrétting skulda

Í aðdraganda kosninganna 27. apríl sl. leyfði ég mér að kalla hugmyndir XB um fjármögnun leiðréttinga á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimilanna „endemis rugl“.

Í síðustu viku tjáði annar hagfræðingur sig um málið og sagði hugmyndirnar vera „galnar“.

Í beinni útsendingu á Stöð2 daginn fyrir kosningar var Sigmundur Davíð spurður um viðbrögð hans við umsögn minni. Hann vísaði henni á bug sem pólitískum áróðri en taldi það ekki vera ámælisvert þar sem ég væri í framboði (fyrir Lýðræðisvaktina). Þar var um misskilning að ræða; ég var formaður uppstillinganefndar XL en ekki í framboði.

Friðrik Már Baldursson, forstöðumaður viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, var ekki í framboði fyrir neinn flokk en er sammála mér um meint ágæti hugmynda XB. Af málflutningi XD fyrir kosningar varð ekki annað ráðið en að þar á bæ hafi menn almennt deilt skoðunum okkar Friðriks Más.

Síðar reyndist Bjarni Benediktsson vera á pari með Sigmundi Davíð og samþykkti stjórnarsamstarf milli XD og XB með framkvæmd umræddra hugmynda að hornsteini.

En hver er þá sannleikurinn í málinu?

Það má leiða fræðileg rök að umsögnum okkar Friðriks Más, sem bjóða heim mótrökum ef einhver eru.

En peningahagfræði er flókin og erfitt að rökstyðja fræðilega afstöðu í málum sem þessu þannig að gagn sé að fyrir allan almenning.

Mér datt því í hug að setja upp einfalt dæmi þar sem kjarni málsins ætti að vera flestum skiljanlegur.

 1. Íslenzk stjórnvöld boða lækkun verðtryggðra húsnæðisskulda um 400 milljarða.
 2. Erlendir kröfuhafar eiga eftirfarandi eignir:
  1. Tvo viðskiptabanka, 200 milljarðar.
  2. Kröfur á Íbúðalánasjóð, 100 milljarðar.
  3. Ríkisvíxla, 100 milljarðar.
  4. Bankainnstæður, 100 milljarðar.
  5. Gjaldeyrir utan Íslands 2.000 milljarðar.
 3. Yfirtaka stjórnvalda á lið a. án endurgjalds eykur ríkiseignir í mynd hlutafélaga um 200 milljarða.
 4. Yfirtaka stjórnvalda á liðum b. og c. og d. bætir hreina skuldastöðu ríkissjóðs um samtals 300 milljarða.
 5. Tilraun stjórnvalda til yfirtöku á e. býður heim langvarandi dómsmálum innanlands og utan.
 6. Yfirtaka b. og c. skilar engu reiðufé í ríkiskassann.
 7. Yfirtaka d. skilar 100 milljörðum í ríkiskassann en hefur engin áhrif á peningamagn í umferð.
 8. Notkun andvirðis d. til skuldaleiðréttingar eykur peningamagn í umferð um 100 milljarða.
 9. Notkun andvirðis d. er því jafngildi peningaprentunar af hálfu Seðlabanka Íslands.
 10. Um áhrif sölu tveggja banka á fjárhagslegan og greiðslujafnaðar stöðugleika fer eftir atvikum.
 11. Innlendar eignir kröfuhafa upp á 500 milljarða (a.-d.) skapa 100 milljarða „svigrúm“.
 12. „Svigrúm“ sem Seðlabanki Íslands getur skapað með pennastriki/peningaprentun.

Það er ábyrgðarhlutur að (a) vinna kosningar með endemis rugli, og (b) hafa skuldsett heimili landsins að ginningarfíflum í kjölfarið.