vald.org

Gunnar Tómasson skrifar

26. júlí 2013 | Gunnar Tómasson

Ágætur Sérstakur saksóknari.

Í viðhengi eru bloggfærslur mínar á eyjan.is 4.-21. júlí um ofangreint efni.

Í bloggfærslu í dag—Einbeittur brotavilji í „góðri trú“—réttvísi byggð á „rökleysu“—var vikið að ákveðnum kjarna málsins sem hér segir:

Það er ótrúverðugt:

1. Að samtök fjármálastofnana mótmæli fyrirhuguðu banni við gengistryggingu krónulána í umsögn til Alþingis 24. apríl 2001—en hafi síðan fyllst óvissu um ólögmæti gengistryggingar krónulána eftir samþykkt laga nr. 38/2001 þann 26. maí 2001.

2. Að Seðlabanki Íslands taki þátt í gerð frumvarps sem varð að lögum nr. 38/2001—en hafi síðan fyllst óvissu um ólögmæti gengistryggingar krónulána eftir að fjármálastofnanir ákváðu að virða bannið að vettugi.

3. Að fulltrúi samtaka fjármálastofnana flytji Alþingi mótmæli þeirra vegna fyrirhugaðs banns við gengistryggingu krónulána—en haldi því fram þegar Hæstiréttur eyðir meintri óvissu að brot fjármálastofnana gegn lögum nr. 38/2001 hafi verið framin í „góðri trú“.

4. Að Hæstiréttur Íslands kynni sér forsögu málsins—en hafi síðan í góðri trú fellt dómsorð á þeirri forsendu að báðir aðilar málsins hafi verið í góðri trú að lög nr. 38/2001 heimiluðu gengistryggingu krónulána.

5. Að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hafi í góðri trú beint þeim tilmælum til lánastofnana að láta ákveðna seðlabankavexti koma í stað samningsvaxta á forsendum sem ég hef leyft mér að kalla „rökleysu“.

6. Að dómara Hæstaréttar hafi skort rökfestu til að átta sig á rökleysunni.

Ég tel ástæðu fyrir embætti yðar að taka málið til athugunar og aðgerða.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur