vald.org

Pólitíkusar til sölu

27. ágúst 2013 | Jóhannes Björn

Elítan sem stendur á bak við stærstu banka heimsins hefur á seinni árum markvisst komið því til leiðar að mikilvægum lögum og reglugerðum hefur verið breytt. Mikilvægustu skrefin voru stigin í stjórnartíð Clinton Bandaríkjaforseta þegar Glass-Steagall lögunum var rutt úr vegi og bönkum var leyft að stunda óheft afleiðuviðskipti. Frelsið til þess að braska með sparifé fólks og stunda óbeina peningaprentun með framleiðslu afleiðna orsakaði hrunið 2008. Án þessara aðferða hefði ekki verið hægt að blása í fasteignabólur út um allan heim með sölu og endursölu lánapappíra.

Misskipting auðæfa heimsins er gífurleg. Í Bandaríkjunum eiga 400 ríkustu einstaklingar landsins jafn mikið og 160 milljónir fátækustu íbúanna [sem samsvarar því að tæplega hálfur Íslendingur ætti svipaðan auð og 160.000 Íslendingar!]. Tölur um ríkidæmi fólks í heiminum taka heldur ekki með í reikninginn að um $30.000 milljarðar – sem svarar til sex mánaða framleiðslu alls heimsins – flakka í skúffufyrirtækjum um aflandseyjar heimsins.

Frelsi elítunnar til þess að braska og fela peninga er mikið, en mesti sigur hennar kom þó sennilega þegar hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri furðulegu niðurstöðu að sjálfseignarfyrirtæki og stofnanir (peningar) njóti sömu réttinda og einstaklingurinn þegar tjáningarfrelsið er annars vegar. Í stuttu máli þá gerði þessi ákvörðun þeim sem efni höfðu á kleift að kaupa pólitíkusana með húð og hári. Rétturinn tók þessa afdrifaríku ákvörðun með naumum meirihluta, fimm á móti fjórum, og John Paul Stevens talaði fyrir hönd minnihlutans þegar hann sagði að dómurinn:

… "threatens to undermine the integrity of elected institutions across the Nation. The path it has taken to reach its outcome will, I fear, do damage to this institution." … "A democracy cannot function effectively when its constituent members believe laws are being bought and sold."

Þetta viðtal við blaðamann New York Times og höfund bókarinnar This Town, Mark Leibovich, sem lengi hefur starfað í Washington, ætti að vera á námsskrá allra sem nema stjórnmála- eða hagfræði.