vald.org

Ögurstund—fyrri hluti

8. mars 2014 | Jóhannes Björn

Talandi um tímanna tákn. Barclays bankinn hafði ásamt öðrum helstu stórbönkum heimsins sett hagkerfið á hliðina 2008 eftir margra ára viðskipti með ónýta skuldabréfavöndla. Næst var bankinn dæmdur fyrir að spila með alþjóðlega bankavexti í slagtogi við aðra stórbanka og nýleg rannsókn bendir sterklega til þess að Barclays hafi stundað áratuga svindl á gullmarkaði. Siðleysið sem viðgengst í þessum banka virðist botnlaust og nýlega kom líka í ljós að viðkvæmar upplýsingar um 27.000 viðskiptavini bankans voru seldar hæstbjóðendum þegar þær láku út.

Þrátt fyrir allt þetta, og beinan stuðning frá nokkrum seðlabönkum (skattgreiðendum), þá stendur Barclays bankinn mjög illa og hefur ákveðið að segja upp 12.000 manns. Samt hefur starfsmönnum með yfir milljón sterlingspund í árstekjur fjölgað um 12% á einu ári og topparnir hafa ákveðið að hækka eigin bónusgreiðslur um 13%!

Stórbankarnir eru ríki í ríkinu. Það er búið að skapa nokkurs konar skrímsli eða krabbamein í peningakerfinu. Okkur er sagt að umfangsmestu bankar heimsins séu of stórir til þess að þeir megi fara í gjaldþrot. Ekki nóg með það, þegar einstaklingar í þessum bönkum brjóta lög má ekki fangelsa þá af ótta við kerfishrun. Gróf brot á borð við peningaþvætti upp á milljarða fyrir eiturlyfjabaróna eða blygðunarlausar tilfærslur fjármuna á milli aflandseyja, sem hjálpa þúsundum einstaklinga að skjóta sér undan sköttum, eru afgreidd með sektum. Allir vita þó að sektir fyrirbyggja ekki frekari glæpi, því bankarnir líta á þær sem venjulegan viðskiptakostnað. Reynslan hefur sýnt að tukthúsvist er það eina sem stöðvar bankabófa og þess vegna fóru yfir þúsund einstaklingar á bak við lás og slá í Bandaríkjunum þegar sparisjóðirnir voru rændir eftir að Reagan gaf þeim „viðskiptafrelsi“ 1986.

Það eru fleiri en Íslendingar sem reyna að endurskrifa sögu hrunsins 2008. Pólitíska klíkan og fyrrverandi seðlabankastjórar í Bandaríkjunum gráta krókódílstárum þessa dagana yfir því að hafa þurft að bjarga stórbönkunum. Þetta var gert, segja þessir menn, til þess að forða algjöru hruni hagkerfisins. Þótt alltaf sé erfitt að spá í hugsanlegar afleiðingar af einhverju sem ekki gerðist, þá hafa margir hlutlausir hagfræðingar bent á (David Stockman alveg sérstaklega skarplega) að hefðbundin gjaldþrotaskipti hefðu komið sér miklu betur fyrir allan almenning. Sannleikur málsins er að venjuleg gjaldþrot hefðu komið sér mjög illa fyrir sumt ríkasta fólk heimsins og þess vegna var skattgreiðendum færður reikningurinn.

Í stuttu máli gengu hlutirnir þannig fyrir sig að bestu bankalög allra tíma, Glass-Steagall—sem héldu sparifé fólks í hæfilegri fjarlægð frá braskdeildum bankanna—voru afnumin í Bandaríkjunum 1999. Eftir það var auðvelt fyrir bankana að margfalda veltuna með afleiðuviðskiptum og öðrum flækjum. Lykillinn var að slá peninga út á skuldir og ný veð voru búin til úr lausu lofti. Í staðinn fyrir að þenja einn dollara út tífalt gátu bankarnir nú blásið blöðruna út þrjátíufalt eða meira.

Allir þessir peningar urðu að skila sér einhvers staðar og fasteignabóla myndaðist úti um allan heim. Vegna þess hversu áreynslulaus peningaframleiðslan var orðin og endurfjármögnun lánapakka auðveld, þá skipti fljótlega meira máli fyrir kerfið að veita sífellt fleiri lán frekar en að ganga úr skugga um hvort verðugir borgunarmenn væru að fá þessa bólupeninga. Meira að segja íslenskir bankaskussar voru að drukkna í lánsfé þar til 2007 og á tímabili starfaði 17% vinnuafls Spánar á fasteignamarkaði.

Ofurskuldir settu hagkerfi heimsins á hliðina 2008 og ekkert nema stórfelldar afskriftir gátu raunverulega bjargað peningakerfinu. En helstu seðlabankar heimsins ákváðu að „bjarga“ málunum með því að fleyta stórbönkunum áfram með framleiðslu miklu meiri skulda. Við skulum víkja að því síðar hvers vegna þetta var gert og hver málalokin líklega verða.

Kínverski seðlabankinn mætti öðrum vanda, samdrætti vegna kreppu í erlendis, með fáheyrðu lánafylleríi.

Peningaausturinn í Kína jók peningamagn (M2) í umferð um 175% á milli 2007 og 2013. Mannlausar borgir risu og rísa enn. Brautarstöðvar ásamt neti járnbrauta hafa sprottið upp í 25 borgum eða eru á lokastigi. Nýjar hraðbrautir sem spanna yfir 40.000 km hafa verið lagðar, oft á svæðum þar sem fáir bílar sjást. Risastórar verslanamiðstöðvar standa hálftómar og „brýr út í buskann“ nýtast fáum.

Fasteignir eru nokkurs konar trúarbrögð í Kína, en 66% heildareigna fjölskyldna landsins hvíla í steinsteypu. Þetta fólk hefur aldrei séð verulega verðlækkun eða fasteignabólu springa. Greiðslubyrði fasteignalána er að meðaltali komin í 30% tekna fólks og hefur stokkið úr 18% árið 2008. Markaðurinn virðist vera 30% yfirbyggður og verðlag miðað við tekjur komið langt yfir öll þekkt þolmörk. London, sem dæmi, er mjög dýr borg miðað við tekjur venjulegra Breta, en meira en helmingur alls íbúðarhúsnæðis sem selst þar fyrir meira en milljón pund er keypt af útlendingum. Meðalverð húsnæðis er 15 sinnum hærra en meðaltekjur fjölskyldna á svæðinu. Þegar þessi viðmiðun er notuð er meðalverð í Kína allt að helmingi hærra.

Samkvæmt útreikningum Credit Agricole CIB hafa heildarskuldir Kína—sem ná yfir einstaklinga, fyrirtæki, bankakerfið og ríkið—farið úr 160% miðað við þjóðarframleiðslu 2007 í 226% árið 2013. Vanskil hafa aukist jafnt og þétt í yfir tvö ár, en útistandandi lán bankakerfisins hafa aukist um 89.000.000 milljarða júan á fimm árum, en það svarar til um 90% árlegrar þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna. Skuldir fyrirtækja í Kína sem ekki tengjast fjármálageiranum nema sem svarar 150% þjóðarframleiðslu, en sambærileg tala í Bandaríkjunum er 90%.

Samkvæmt Financial Times hafa skuldir borga og sveitafélaga í Kína hækkað um $3 trilljónir (evrópskar billjónir) á síðustu þrem árum og 40% lánanna koma frá svokölluðu skuggabankakerfi, en það eru frekar eftirlitlausar lánastofnanir sem oft krefjast miklu hærri vaxta heldur en hefðbundna bankakerfið. Til að flækja málið hafa venjulegir bankar líka stofnað deildir á skuggasvæðinu til þess að forðast opinbert eftirlit, en þetta eru aðallega sérstakir sjóðir sem stunda eignastýringu (wealth management) fyrir ríkustu viðskiptavinina.

Það eru gömul og ný sannindi að hvorki frjálst peningakerfi né miðstýrt bákn geta afstýrt lægð eða hruni þegar hagkerfið í heild getur ekki lengur endurgreitt vexti af of miklum skuldum. Þann 20. janúar 2014 neyddist kínverski seðlabankinn til þess að dæla 255 milljörðum júan ($42 milljörðum) inn á peningamarkaðinn til þess að ná tökum á hækkandi millibankavöxtum. Á sama tíma tók bankinn það óvenjulega skref að veita minni bönkum þriggja vikna skyndilán. Stórt gjaldþrot lánafyrirtækis með tilheyrandi keðjuverkunum liggur í loftinu. Hringurinn er að lokast.

Það er ekkert til sem heitir „free lunch“ eins og sagt er. Hröð og illa skipulögð uppbygging—draugaborgir, hálftómir skýjakljúfar sem spretta upp á nokkra daga fresti, auðar verslunarmiðstöðvar o.s.frv.—á eftir að kosta Kínverja blóð, svita og tár á mörgum vígstöðvum. 80% fljóta í landsins eru svo menguð að ekkert líf þrífst í þeim. Andrúmsloftið er eitrað og þá sérstaklega í stórborgunum. Ballinu hefur verið haldið gangandi með hrárri peningaprentun síðan 2007 og afleiðingarnar hljóta brátt að gera vart við sig.

Japan á heimsmet í að framleiða ómælt peningamagn úr lausu lofti sér að skaðlausu—þ.e. enn sem komið er. Ríkisskuldirnar eru 240% miðað við ársframleiðslu og allar skuldir landsins—ríkis, borga, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga—eru yfir 500% þjóðarframleiðslu. Helmingur útgjalda japanska ríkisins er fjármagnaður með lánum. Skuldir ríkisins hljóða upp á yfir 1.000.000.000.000.000 jen, sem er eitt þúsund milljón milljónir eða quadrillion.

Það sem aðallega heldur kerfinu á floti er að innlendir aðilar—lífeyrissjóðir, tryggingafélög, fjárfestingasjóðir og aðrir slíkir—keyptu yfir 90% allra skulda ríkisins áður en seðlabankinn gerðist stórtækari. Tíu ára ríkisskuldabréf bera þó ekki nema 0,5% vexti. Hækkandi meðalaldur gengur hins vegar hratt á þetta ómetanlega forskot (að skulda sjálfum sér) og eftirlaunasjóðir eru t.d. byrjaðir að selja fleiri ríkisskuldabréf heldur en þeir kaupa.

Allar þessar tölur benda til meiri háttar hruns áður en langt um líður. Það er leiðinlegt að þurfa að mála skrattann á vegginn, en allar grundvallarstaðreyndir benda í sömu átt. Japan átti að reyna að lækka meðalaldurinn fyrir löngu með því að hleypa útlendingum inn í landið, en núna er það orðið of seint. Óbeit þjóðarinnar á útlendingum er slík að það er enn verið að borga fólki fyrir að yfirgefa landið! Það virðist líka borin von að barneignir aukist hjá þessari einkennilegu þjóð. Nýleg könnun leiddi í ljós að 45% japanskra kvenna á aldrinum 16–24 ára hafa engan áhuga á kynlífi eða fyrirlíta það. 61% ógiftra karlmanna og 49% ógiftra kvenna á aldrinum 18–34 ára eru ekki í ástarsambandi við hitt kynið. Þriðjungur fólks undir 30 ára hefur aldrei farið á stefnumót.

Japanska fasteignabólan sem sprakk í kringum 1990 var ein sú stærsta sem sögur fara af. Eðlileg gjaldþrot fjármálastofnana og miklar afskriftir hefðu fært hlutina í eðlilegt horf á nokkrum árum, en eins og eftir hrunið á Vesturlöndum 2008 þá mátti ríkasta fólk landsins ekki tapa peningum og skattgreiðendur fengu reikninginn í hausinn. Japanska ríkið reyndi 15 sinnum að prenta sig út úr vandanum á milli 1990 og 2008 en ekkert gekk.

Það er einföld staðreynd að eftir hrun peningakerfis er aldrei hægt að leysa hnútinn með peningaprentun. Aldrei. Þessir nýju peningar í umferð eru alltaf skuld einhvers (öðru vísi fara þeir ekki í umferð) og þeir skila sér illa í hlutum sem efla frjálst hagkerfi. Ódýr jen hafa ofhlaðið japanska grunnkerfið (sem skilar litlum arði) og óspart verið notuð í „carry trade“ af bröskurum sem uppskera hærri vexti í öðrum löndum.

Nýjasta fjármálaævintýri japanska ríkisins slær þó öll fyrri met í glannaskap og ber vott um mikla örvæntingu. Áður en Shinzo Abe var kjörinn forsætisráðherra 2012 boðaði hann aðgerðir sem síðan hafa verið kallaðar Abenomics. Lykilatriði stefnunnar var að ná pólitísku tangarhaldi á seðlabanka landsins og láta hann herða á prentvélunum (stafrænum innfærslum) og kaupa pappíra sem áður þóttu ekki við hæfi virðulegs seðlabanka. Takmarkið var raunverulega að fella gengið og kynda undir verðbólgu.

Seðlabankastjórinn, Masaaki Shirakawa, veitti nokkurt viðnám. Eins og Japan Times orðaði það í nóvember 2012:

Bankastjóri Seðlabanka Japans veitti á þriðjudag viðnám við þrýstingi á bankann og gagnrýndi talsmann stjórnarandstöðunnar, Shinzo Abe, fyrir að mæla með takmarkalausri peningaþenslu og hvatti til þess að seðlabankanum væri sýnd virðing.

Eftir kosningasigur Abe varð Shirakawa að víkja úr seðlabankanum áður en ráðningartíma hans lauk og strengjabrúða Abe, Haruhiko Kuroda, tók við. Hjólin byrjuðu að snúast og eins og Japan Times orðaði það:

Seðlabankastjóri Japans, Haruhiko Kuorda, greindi á fimmtudag frá áætlun sinni þess efnis að binda endi á áratug fallandi verðlags með því að herða á kaupum seðlabankans á ríkisskuldabréfum og leyfa bankanum að kaupa áhættusamari pappíra.

Margir hagfræðingar hafa fagnað Abenomics. Þeir eru eins og froskar sem eru soðnir í vatni sem er hitað upp rólega. Ef einhver seðlabankastjóri utan Suður-Ameríku hefði látið eitthvað í þessa átt fara frá sér fyrir 30 árum hefði öll hagfræðingastéttin rekið upp vein. Hrá peningaprentun (bein kaup á skuldabréfum) og kaup seðlabanka á vafasömum pappírum var ekki á dagskrá fyrr en nýlega. Þótt þeir beri sig vel og tali digurbarkalega, þá hafa helstu seðlabankastjórar heimsins ekki hugmynd um hvernig þetta ævintýri endar. Það eru engin fordæmi fyrir því sem er að gerast, en eitt er víst að það er ekki hlutverk seðlabanka að endurkaupa húsnæðis- og bílalán eða fjármagna útgjöld ríkis til jafns við skattgreiðendur. Hættan á óðaverðbólgu er augljós þegar veltuhraði peninga eykst og seðlabankarnir eru að eyðileggja eðlilega hringrás fjármagnsins.

Aðalatriðið er þó að Abenomics stenst ekki einföldustu útreikninga. Ef eitt helsta markmiðið um 2% verðbólgu næst er eðlilegt að áætla að ríkið verði að borga a.m.k. 2% vexti af 10 ára ríkisskuldabréfum, en ríkiskassi sem þegar fær lán fyrir 50% útgjalda getur það ekki. Gengið hefur fallið um 20–30% gagnvart helstu gjaldmiðlum, en hækkun innfluttrar vöru hefur meira en vegið upp á móti vaxandi útflutningstekjum, sérstaklega eftir slysið í Fukushima, sem hefur hækkað olíukostnað feikilega. Japanska hagkerfið stefnir í kreppu og endurskipulagningu (feikilegar afskriftir) og það er aðeins tímaspurning hversu lengi seðlabankinn getur haldið öllu á floti.