vald.org

Ögurstund—seinni hluti

15. mars 2014 | Jóhannes Björn

Lög um Seðlabanka Bandaríkjanna voru samþykkt í desember 1913 þegar þingheimur var að flýta sér í jólafrí og bankinn hóf starfsemi sína 1914. Það tók seðlabankann 95 ár að mjaka efnahagsreikningi sínum upp í $800 milljarða, en síðan 2008 hefur upphæðin tekið nær 95 ára stökk á hverju ári og efnahagsreikningurinn er í dag kominn yfir fjórar trilljónir dollara.

Þessar nýju trilljónir, búnar til úr lausu lofti, hafa að mestu leyti farið í kaup á ríkisskuldabréfum og öðrum pappírum, gagngert til þess að halda stýrivöxtum við núllið. Þetta er gjöf sem heldur áfram að gefa stórbönkum—þeim sem eru svo lukkulegir að hafa aðgang að lánalínum seðlabanka—sjálfvirkan gróða. Þeir taka út ókeypis peninga og fjárfesta í skuldabréfum sem bera vexti eða leggja lánin aftur beint inn í seðlabankann á vöxtum. Þetta er nokkurs konar eilífðarvél, en allur almenningur borgar þó brúsann óbeint, því vextir af sparifé eru neikvæðir miðað við verðbólgustigið. Ef þetta væri sýnt í myndrænu formi sæjum við stöðugan straum verðmæta fljóta af innlánsreikningum inn í peningahirslur bankanna.

Einu aðilarnir sem græða á „hrárri“ peningaprentun seðlabanka eru bankar og risasjóðir sem sitja næst peningauppsprettunni. Þessir aðilar skapa bólur á fasteignamörkuðum víða um heim (t.d. í Hong Kong og Singapúr) og þenja út hlutabréfamarkaði. Hagkerfi ríkja—t.d. Brasilíu, Indlands, Tælands, Tyrklands og fleiri svokallaðra „vaxandi hagkerfa“—eru sett í uppnám. Fyrst flæðir of mikið ferskt fjármagn úr prentvélunum inn á marga markaði, bólur myndast og gengi gjaldmiðla hækkar. Á einhverjum punkti dregur fjármagnið sig til baka og allt fer í baklás. Tyrkir neyddust til þess að hækka stýrivexti um 4,5% á einu kvöldi í janúarlok 2013 til að verja gjaldmiðil sinn. Brasilíski gjaldmiðillinn—sem spákaupmenn sem stunda „carry trade“ höfðu þrýst upp á við árum saman—féll um 17% á rúmlega hálfu ári og stýrivextir æddu upp í 10,5%.

Hlutfallslega mjög fáir einstaklingar græða á hrárri peningaframleiðslu seðlabanka heimsins eða quantitative easing eins og það er kallað. Þrátt fyrir fagurgala um að þetta sé gert til þess að örva hagkerfið í heild, þá hafa seðlabankastjórarnir sjálfsagt alltaf vitað að raunverulegir húsbændur þeirra, ríkasta fólk heimsins—aðilarnir sem fjármagna og stjórna alþjóðlegu bönkunum—eru þeir einu sem græða á þessari vúdú-hagfræði. Tölurnar ljúga ekki.

Þessar svimandi tölur segja þó ekki alla söguna. Aflandseyjar fela $32 trilljónir (nær tífalda þjóðarframleiðslu Þýskalands) og við getum rétt ímyndað okkur hvaða aðilar eiga þá peninga.

Það er gömul og ný saga að sauðsvartur almúginn situr uppi með reikninginn eftir styrjaldir og peningabólur. Skuldir iðnvæddra ríkja fóru úr 80% miðað við þjóðarframleiðslu 2007 í 110% 2013 og hækkuðu um $12 trilljónir. Vandinn verður sjálfsagt leystur með niðurskurði á félagslegri þjónustu og skattahækkunum … hjá þeim sem ekki fela gróðann í skattaparadís.

Kerfið er orðið svo rotið að það er vandséð hvernig það getur hangið saman mikið lengur. Nokkrir stórbankar, þar á meðal Barclays og UBS, hafa nýlega verið sektaðir um $6 milljarða, en fátt bendir til þess að glæpastarfseminni linni nokkuð. Hlutabréfamarkaðir eru reknir eins og spilavíti, sem bæði hafa hlutfallslegt forskot og svindla líka á viðskiptavinunum. Yfir 80% allra viðskipta á bandarískum hlutabréfamörkuðum fara fram með ofurtölvum sem græða milljarða dollara á því að skapa óeðlileg frávik með milljörðum gervitilboða. Þessi forrit byrja venjulega daginn með hreint borð (eiga engin hlutabréf) og enda hann á sama hátt. Þau græða samt allan daginn á tilbúnum sveiflum. Þetta er ekki ósvipað og ef ósýnileg hönd hrifsaði til sín krónu í hvert skipti sem Íslendingur tæki upp budduna.

Virtu Financial er ágætt dæmi um hvernig þessi viðskipti með ofurtölvum ganga fyrir sig. Frá 1. janúar 2009 til 31. desember 2013 verslaði fyrirtækið í samtals 1238 daga í kauphöllinni. Engin raunveruleg verðmætasköpun átti sér stað, en fyrirtækið skilaði gróða í 1237 daga. Það tapaði peningum einn einasta dag á fjórum árum! Einstaklingur sem nær 52% árangri í daglegum skyndisölum (trader) þykir snjall.

Virtu Financial hefur gert Vincent Viola, sem á 70% í fyrirtækinu, að milljarðamæringi í dollurum. Hann markaðssetti nýlega hús sitt á Manhattan (12 East 69th Street) fyrir 1300 milljónir kr. Þetta er ansi veglegt hús sem telur sjö svefnherbergi, níu baðherbergi, vínkjallara, nokkrar stofur og borðstofur. Það er ekki í kot vísað hjá þessum manni sem hefur skilað samfélaginu minna en engu með því að grafa undan trausti almennings á mörkuðum sem ofurtölvur mjólka allan sólarhringinn með gervitilboðum.

Upplýsingar eru gull og stórir verðbréfamiðlarar gefa sjálfum sér forskot með því að starfrækja „svartar tjarnir“ eða pantanir á verðbréfum sem haldið er innanbúðar þar til skýr verðsveifla myndast. Segjum að hlutabréf t.d. IBM seljist á $100. Stór hlutabréfamiðlari byrjar að fá hlutfallslega miklu fleiri pantanir um að kaupa heldur en selja. Hann geymir pantanirnar í smá stund í „svartri tjörn“ og kaupir sjálfur fyrst áður en pantanir viðskiptavinanna eru afgreiddar.

Það segir okkur allt um áhrifamátt og vald fjármálageirans að ekki skuli vera búið að banna gervisveiflur með ofurtölvur eða svartar tjarnir. Það má færa rök fyrir að báðar aðferðirnar flokkist undir hreinan þjófnað.

Frá 2002 til 2012 hækkuðu meðaltekjur 0,01% Bandaríkjamanna um 76,2% á meðan 90% fólksins lækkaði í rauntekjum um 10,7%.

Flestir helstu hlutabréfamarkaðir heimsins hafa verið blásnir út með nýjum peningum í umferð (skuldum), ofurtölvum og „peningaverkfræði“—þ.e. stjarnfræðilega umfangsmiklum afleiðuviðskiptum og tilbúningi óraunhæfra veða. Miðað við nýtt flóð skulda er hagvöxtur skelfilega lítill og atvinnuástandið á stærsta markaði heimsins, þeim bandaríska, er miklu verra heldur en opinberar tölur gefa í skyn.

Síðan 2008 hafa 5,8 milljónir vinnufærra manna horfið af bandarískum vinnumarkaði, en það jafngildir því að 5800 manns á Íslandi hættu að leita sér að vinnu. Þetta fólk er ekki tekið með inn i dæmið þegar atvinnuleysi er reiknað út. Alvarlegast er kannski að flestir sem hafa yfirgefið bandaríska vinnumarkaðinn eru undir 55 ára aldri.

Raunhæfasta talan um atvinnuástandið í BNA er prósenta vinnufærra einstaklinga sem eru starfandi. Þar kemur í ljós að ástandið hefur ekki verið verra síðan 1978, en þá var stór hópur kvenna enn heimavinnandi. Ástandið núna er því verra í beinu hlutfalli við fjölda húsmæðra á þeim tíma.

Taumlaus hnattvæðing hefur lækkað kaup flestra Bandaríkjamanna og hagkerfið hefur ekki frá lokum seinni heimsstyrjaldar skapað færri vel launuð atvinnutækifæri. Flest ný störf eru í þjónustu—hótel, barir, ferðaþjónusta, sjúkrahús og þjónusta við ört fjölgandi gamalmenni—og 40% allra starfa borga undir $20.000 árslaun. Það getur ekki verið gott í hagkerfi sem byggir 70% á neyslu.

Þegar borgaryfirvöld í Chicago nýlega auglýstu eftir 55 riturum mættu 3000 umsækjendur á staðinn og stóðu í röð allan daginn. American Airlines auglýsti eftir flugþjónum og bauð að meðaltali $1960 í mánaðarlaun (225.000 íslenskar kr). Yfir 20.000 umsóknir bárust. Samkvæmt tölum frá Bureau of Labor Statistics hefur háskólamenntuðu fólki sem vinnur fyrir lægstu löglegu launum (víðast 834 kr á tímann) fjölgað um 71% á 10 árum. Stofnunin áætlar að 30.000 einstaklingar með meistaragráðu fái greidd lágmarkslaun eða lægri greiðslur.

Síðan 1978 hafa námslán í Bandaríkjunum hækkað um 1120% og eru þau komin í $1,08 trilljónir (allar greiðslukortaskuldir standa í $683 milljörðum) og vanskil námslána eru komin í 11,8%. Engin furða þótt 29% fólks undir 35 ára aldri búi enn heima hjá pabba og mömmu. Bláa strikið sýnir hvernig heildarnámsskuldir hafa verið að þróast (tölur í þúsundum milljóna í hægri dálki) og rauða strikið sýnir vanskil og vísar til talna (þúsundir milljóna) í vinstra dálki.

Skuldabagginn er þungur því tekjur einstaklinga sem útskrifast með BA eða BS próf hafa að meðaltali lækkað um 8% síðan 2003 (reiknað í raungildi 2012 dollara)—þ.e. ef fólk á annað borð fær vinnu.

Sex stórfyrirtæki eiga flesta fréttamiðla í Bandaríkjunum og þrátt fyrir fimm ára straum frétta um að hagkerfið sé á réttri leið og blómaskeið á næstu grösum, þá hefur fordæmalaus skuldasöfnun ríkis og seðlabanka gert ósköp lítið fyrir hagkerfið.

Sögulega hafa framkvæmdir við að byggja nýtt húsnæði haft jákvæðari áhrif á hagkerfi Bandaríkjanna en flest annað. Þegar ný hverfi rísa er keðjuverkunin gífurleg. Fyrirtæki vinna við teikningar húsa, skipulag, grunnkerfi (rafmagn, vatnsleiðslur, ljósleiðara, vegi o.s.frv.), og her iðnaðar- og verkamanna mætir á staðinn. Nýjar verslanir rísa alls og konar önnur nauðsynleg þjónusta kallar á meira vinnuafl.

Flestir Bandaríkjamenn búa í einbýlishúsum. Markaðurinn hrundi 2007–2008 og hefur ekki náð sér á strik síðan. Rauða línan sýnir rauntölur en sú bláa tekur árstíðasveiflur með í reikninginn.

Framhaldið lofar heldur ekki góðu þótt vextir séu í sögulegu lágmarki og 15 ára föst og óumbreytanleg lán fáist með 3,6% vöxtum (30 ára föst lán báru að meðaltali 4,48% vexti í byrjun mars). Umsóknir um ný fasteignalán hafa ekki verið færri í 13 ár. Tölurnar á næsta grafi væru enn verri ef tekið væri mið af fólksfjölgun, sem er vel yfir milljón manns á ári og ætti að fjölga húsnæðiskaupendum jafnt og þétt.

Opinberar tölur á bandarískum vinnumarkaði (U3) sýna rétt yfir 7% atvinnuleysi. Þegar einstaklingar í hlutastörfum (U6) sem vilja komast í full störf eru teknir með í dæmið fer atvinnuleysið upp í 12,6%. Ef allir sem hafa gefist upp á að leita sér að vinnu bætast við er verið að tala um atvinnuleysi nálægt 20%. Við þetta bætist að rauntekjur 90% fólksins hafa lækkað. Það er erfitt að sjá hvernig hagkerfið getur tekist á við næstu efnahagslægð eða jafnvel hrun eins og 2008 við þessar aðstæður.

„Blaðrandi höfuð“ sem prédika endalausar hækkanir hlutabréfa á tölvudrifnum mörkuðum á CNBS og Fox sjónvarpsstöðvunum stappa ekki lengur stáli í hinn almenna borgara. Fólk skynjar eða sér í návígi að hlutirnir eru hræðilega öfugsnúnir. Nýleg skoðanakönnun á vegum AP-NORC Center for Public Affairs Research leiddi í ljós að 70% Bandaríkjamanna hafa „enga trú á að yfirvöld leysi mikilvægustu vandamál eða viðfangsefni sem þjóðin stendur andspænis 2014.“

Það hefur verið frekar hljótt um bankakreppuna í Evrópu að undanförnu, en það þýðir ekki að vandinn hafi verið leystur eða hann hafi gufað upp af sjálfsdáðum. Margir evrópskir bankar eru tæknilega gjaldþrota og ástandið í löndunum við Miðjarðarhaf heldur áfram að versna. Enginn fagurgali eða auglýsingaherferð getur breytt grundvallarstaðreyndum í álfunni.

Bankar á evrusvæðinu hafa fengið leyfi eftirlitsaðila til að fela tap í bókhaldinu eða stunda það sem gárungarnir kalla verðlagningu í draumalandi („Mark to fantasy“). Allt of há fasteignalán á Spáni eru reiknuð á fullu verði þótt húsin (veðin) hafi lækkað um helming á frjálsum markaði. Grikkland er gjaldþrota en skuldabréf ríkisins eru reiknuð í bókhaldi bankanna eins og þau séu gulltryggð. Lykillinn er að ríkisstjórnir með allt niður um sig geta slegið peninga (selt ríkisskuldabréf) á ævintýralega hagstæðum kjörum. Evrópubankinn segist standa á bak við allt ruslið og heildardæmið er eins og risastórt keðjubréf.

Atvinnuleysi í Grikklandi er 28% og fer samkvæmt greiningu Citigroup í 32% árið 2015. Atvinnuleysi hjá ungu fólki undir 26 ára er stjarnfræðilegt eða 61,4%. Þetta er ástand sem hefur varað í nokkur ár og virðist ætla að halda áfram lengi enn. Fátt hefur meiri eyðileggingarmátt en varanlegt atvinnuleysi ungmenna. Fyrir utan sálfræðilegt áfall heillar kynslóðar og alls konar félagsleg vandamál sem fylgja atvinnuleysi, þá hafa rannsóknir á hagfræðilegu samspili kynslóðanna sýnt að fólk eyðir mestum peningum á milli 27 og 41 árs aldurs (mjög ríkt fólk eyðir meira lengur). Afkoma og eftirlaun eldri kynslóða byggja á þessu mynstri og það hefur verið rofið.

Blóðtakan er átakanleg þegar ungt fólk sem getur markaðssett sig í öðrum löndum flýr. Hlutirnir stefna í mikið óefni í Grikklandi, grunnkerfið er að grotna niður, glæpir hafa færst í aukana og útlendingar kaupa fyrirtæki og fasteignir á brunaútsölu. Gott dæmi um ringulreiðina í landinu er að 147.000 einstaklingar hafa verið sektaðir á síðustu tveimur árum fyrir að aka tryggingalausir og skýrsla lögreglunnar sem lak út gerir ráð fyrir að 800.000 manns hafi ekki efni á að kaupa sér bílatryggingar. Ellefu milljónir búa í landinu.

Spánn er að ganga í gegnum sama hörmungaferlið. Þar er atvinnuleysið 26% en 54,3% hjá ungu fólki. Portúgal fylgir fast á eftir og Ítalía glímir við vaxandi vanda. Róm, Napólí og Reggio Calabrina eru gjaldþrota borgir sem ríkið verður að redda með stuttu millibili. Hallinn á fjárlögum Rómar var 816 milljónir evra á síðasta ári og einkavæðing raforkufyrirtækis borgarinnar liggur á borðinu.

Hagkerfi ríkja Suður-Evrópu geta ekki keppt við aðrar þjóðir á meðan þau nota evru, þ.e. ekki nema einhvers konar styrkja- og millifærslukerfi sé sett á laggirnar og öll ESB ríkin gefi út sameiginlegt ríkisskuldabréf (sem seldist á betri kjörum heldur en S-Evrópuríkin gætu annars fengið). Það eru litlar líkur á að kjósendur í Norður-Evrópu samþykki slíkt fyrirkomulag.

Evrópska bankakerfið og gjaldþrota ríkisstjórnir skrölta áfram á loforði Mario Draghi í Evrópubankanum, gefið í ræðu í júlí 2012, um að „gera allt sem til þarf“ til að bjarga málunum. Tæknilega gjaldþrota bankar hafa því getað keypt ríkisskuldabréf af tæknilega gjaldþrota ríkisstjórnum og notað sem veð fyrir nýju fjármagni úr seðlabankanum.

Gallinn við þetta einkennilega fyrirkomulag er að það samræmist ekki lögum um starfsemi Evrópubankans og þýski stjórnarskrárrétturinn á sennilega eftir að dæma það ólöglegt í næstu umferð bankakreppunnar. Þótt rétturinn hafi nýlega vísað málinu til Evrópudómstólsins, þá virðist augljóst að hann ætlar að taka í taumana við betra tækifæri. Eins og Spiegel orðaði það:

„[Dómsniðurstaðan] sýnir augljóslega að æðsti dómstóll Þýskalands er feikilega skeptískur gagnvart Seðlabanka Evrópu. Yfirlýsing Draghi 2012 þess efnis að bankinn muni kaupa ótakmarkað magn skuldabréfa af veikburða ríkjum Evrópusambandsins er brot á evrópskum lögum, sagði dómstóllinn … kaup [seðlabankans] á ríkisskuldabréfum á frjálsum markaði jafngilda því að sneiða hjá banni við beinum fjárstuðningi við ríkisstjórnir.“

Bleiki fíllinn í stofunni sem valdaklíkan vill ekki viðurkenna er sú staðreynd að það hefði þurft gjaldþrot fjölda banka og miklar afskriftir strax 2008 til þess að leysa bankakreppuna. Í staðinn var reynt að kreista út peninga handa bönkunum með blóðugum niðurskurði hagkerfa sem þegar voru í djúpri lægð. Árangurinn blasir við öllum í dag.

Peningaklíkan og pólitíkusar sem dingla í spottum bankamanna benda oft á Lettland sem dæmi um ríki sem hefur risið upp eftir niðurskurð útgjalda og endurgreiðslu lána. Lettland hefur á seinni árum gengið í gegnum efnahagshörmungar sem standa kreppunni 1929 fyllilega jafnfætis. Fólkið var vondu vant undir gömlu kommúnistastjórninni, en óttinn við Rússland hefur mest og best ráðið ferðinni. Engin fórn er of stór ef hægt er að mjaka landinu inn í vestrænt samstarf og hernaðarlega öryggið sem því fylgir.

Beintengingu við evru (áður en hún var innleidd í Lettlandi) fylgdu kauplækkanir og gífurlegt atvinnuleysi. Aðeins 20% íbúanna vildu þó evru. Landflótti hefur slegið öll seinni tíma met og þjóðinni hefur fækkað um 7% síðan 2007. Það er mikill flótti og tala sem venjulega sést ekki nema í náttúruhamförum eða þar sem hungursneyð ríkir. Ungt fólk, og sérstaklega það sem er tæknimenntað, er horfið til annarra landa.

Andi Miltons Friedmans svífur yfir vötnunum og talsmenn niðurskurðar (rukkarar bankakerfisins) segja að Lettland sé dæmi um hagkerfi sem réttir úr kútnum og verður betra eftir mikla endurskipulagningu (blóðtöku). Það er eins rangt og hugsast getur. Beintengingin við evru lækkaði þjóðarframleiðslu Lettlands upphaflega um 25% (!) og hún er enn 8% minni heldur en hún var fyrir tenginguna. Atvinnuleysi var gífurlegt og það hefur minnkað, en þó aðallega vegna landflótta. Á sama tíma hafa mikilvæg fyrirtæki eins og bankar og tryggingafélög lent í höndum útlendinga fyrir slikk. Lettland lét veðsetja sig og það á langa píslargöngu fyrir höndum.

Ný bankakreppa virðist óumflýjanleg og vegna ofurskulda ríkja og seðlabanka úti um allan heim verður hún dýpri heldur en kreppan 2008. Innbyrðis skuldbindingar bankanna, ofurskuldir ríkja og fáránlega yfirgripsmikil afleiðuviðskipti gera spádóma um upphaf næstu kreppu mjög erfiða.

Skuggabankar Kína gætu rúllað hver á fætur öðrum með keðjuverkun sem allt hagkerfi heimsins yrði vart við. Japanska ríkið þolir ekki 2% vexti af ríkisskuldabréfum og rauðu ljósin byrja að blikka ef japanska jenið hækkar og færri en 100 jen kaupa einn dollara (boðar endalok bæði „carry trade“ og Abenomics). Afleiðuviðskipti eru meiri en nemur tíu ára framleiðslu alls heimsins. Mest eru þetta tryggingar sem keyptar eru til að mæta óvæntum vaxtabreytingum. Ef vextir á 10 ára bandarískum ríkisskuldabréfum fara upp í 3–4% byrjar að braka í afleiðukerfinu. Það er pípudraumur að halda að 700 trilljóna dollara kerfi geti staðið í skilum ef eitthvað verulega fer að bjáta á í hagkerfinu.

Sennilega hefst næsta bankakreppa með gjaldþroti í Evrópu. Undirritaður hefur lengi spáð því að það verði ítalski stórbankinn UniCredit sem kemur skriðunni af stað. UniCredit tapaði 15 milljörðum evra á síðasta ársfjórðungi 2013 og sagði upp 8500 starfsmönnum. En í kerfi sem búið er að spenna í botn gæti gjaldþrot miklu minni banka haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Hypo Group Alpe Adria er meðalstór austurrískur banki sem yfirvöld hafa dælt í 4,5 milljörðum evra af ótta við keðjuverkun ef bankanum yrði skellt í lás. Reynt hefur verið að fá aðra banka til þess að innlima hræið með 18 milljarða evru kostnaði, en banki sem yrði að vera með í samkrullinu, Raiffeisenbank International, hefur afþakkað gott boð. Sá banki er nefnilega nú þegar í vondum málum vegna glannalegrar lánastarfsemi og aukinna vanskila í Austur-Evrópu.

Ef Rússland verður sett í víðtækt viðskiptabann gæti það hæglega ýtt nokkrum vestrænum bönkum fram af hengifluginu. Bankaveldið í London fengi sérstaklega að finna til tevatnsins. Það verður því fróðlegt að sjá viðbrögð Breta þegar rússneska viðskiptabannið verður rætt.

Þegar efnahagslífið á í erfiðleikum og of mörg ríki reyna samtímis að fella gengi gjaldmiðla sinna til þess að auka útflutningstekjurnar, þá er oft ekkert eftir nema að beina athygli borgaranna út á við og búa til óvin. Fleiri styrjaldir virðast liggja í loftinu. Hlutabréf vopnaframleiðanda í mörgum löndum hafa verið á hraðri uppleið. Ríki sem ekki hafa barist við útlendinga í áratugi, t.d. Kína og Japan, virðast vera í vígahug. Hlutabréf hergagnadeildar Fuji í Japan hækkuðu um 200% á einu ári og kannski segir það alla söguna. Höldum okkur fast.