vald.org

Gull og pappírspeningar

17. júlí 2014 | Jóhannes Björn

Munurinn á gulli og pappírspeningum nútímans liggur í skuldsetningu. Þeir sem eiga gull eru með hreina og veðfría eign í höndunum. Gallinn við peningakerfi nútímans—brotasjóðakerfið sem gerir bönkum kleift að búa til peninga með bókhaldsaðferðum—er hins vegar að allir peningar sem fara í umferð gera það í formi skulda. Það er engin önnur leið til að koma nýjum peningum í umferð en lána þá einstaklingum, fyrirtækjum eða ríkisstjórnum. Seðlabankinn veitir grunnfjármagnið (og kaupir stundum skuldir ríkisins) og bankarnir nota síðan þetta grunnfjármagn sem stuðpúða þegar þeir lána allt að þrjátíufalt hærri upphæðir. Í lokuðu hagkerfi íslenskra hafta er margföldunin sjálfsagt miklu minni eða um tíföld.

Verðgildi gulls er innbyggt í málminn á meðan pappírskerfið byggir á sífellt vaxandi skuldum sem bera vexti. Þegar þjóðarframleiðslan heldur ekki lengur í við hærri vaxtagreiðslur, skellur á efnahagslægð eða kreppa. Við sjáum því að hagvöxturinn rennur aðallega til bankakerfisins í formi vaxta. Brotasjóðakerfið lætur einstaklinginn hamast eins og hamstur á hjóli á meðan það sogar til sín raunveruleg verðmæti. Þess vegna vex peningageirinn oftast hraðar en aðrir þættir hagkerfisins.

Brotasjóðakerfi bankanna nærist á verðbólgu, því hún kallar á stöðugt meira peningamagn í umferð, sem aftur er hægt að lána út með margföldunaraðferðinni. Þess vegna hamrar peningaelítan stöðugt á þeirri lygi að „hæfileg“ verðbólga sé nauðsynleg til þess að hjólin snúist. Þessi lygi er stanslaust tuggin þótt arðsemi hátæknifyrirtækja blasi við öllum, en viðskiptamódel þeirra byggir á hraðri verðhjöðnun.

Nú til dags á fólk erfitt með að ímynda sér gjaldmiðil sem heldur verðgildi sínu í mannsaldur eða lengur. Síðan bandaríski seðlabankinn hóf starfsemi sína fyrir hundrað árum hefur kaupmáttur dollarans t.d. rýrnað um 98%. Austurrómverska keisaradæmið sló hins vegar mynt sem var notuð í viðskiptum úti um allan heim og hélt verðgildi sínu í 700 ár.

Bankaelítan hefur leynt og ljóst háð stríð gegn gulli í hundruð ára. Hún vill hömlulausa peningaframleiðslu og aginn sem gull veitir hefur kerfisbundið verið fjarlægður. Fyrst voru gefnir út seðlar sem voru ávísanir á ákveðið gullmagn, næst var settur upp gullsjóður sem jafnaði greiðslur í milliríkjaviðskiptum og Bretton Woods samkomulagið 1944 tengdi aðeins bandaríska dollarann við gull. Hann átti, alla vega fræðilega séð, að vera kjölfesta kerfisins. En 1971, eftir margra ára dýrt hernaðarbrölt í Víetnam, eftir að verulega tók að ganga á gullforða Bandaríkjamanna, var þessi tenging rofin.

Verð á gulli hefur sveiflast mikið síðan það var aftengt dollaranum og margt bendir til þess að nokkrir seðlabankar á Vesturlöndum hafi lagt mikið á sig til að halda því í skefjum. Hækkandi gullverð minnir stöðugt á fáránleika hrárrar seðlaprentunar og hve glannalega skuldum er safnað víða um heim. Framleiðendum pappírspeninga stendur ógn af gulli, því hátt gullverð dregur nekt keisarans fram í dagsljósið. Það eru miklir hagsmunir í húfi og viðmiðunarstaða dollarans hangir líka á spýtunni. Í kjölfar mestu seðlaprentunar sem heimurinn hefur séð spá margir ört hækkandi gullverði og ef það gerist er hætt við að ríkjandi peningakerfi líði undir lok.

Ekki eru þó allir að spá gulli og grænum skógum á góðmálmamarkaði. Morgan Stanley spáir því að gullúnsan standi í um $1160 í árslok 2014 og Goldman gengur enn lengra og spáir $1050. Illar tungur segja þó að þetta séu einmitt fyrirtækin sem hafa spilað mest með gull- og silfurmarkaðinn.

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að undirritaður (sem EKKI er ráðgjafi) telur að gullverðið hækki mikið á næstu misserum. Gífurleg seðlaprentun seinni ára, brask með pappírsgull, gullhamstur Kínverja, grunur um að margir seðlabankar hafi „leigt“ út gull sem þeir segjast eiga og þverrandi tiltrú fólks á peningakerfinu eru nokkrar ástæður.

Fordæmislaus peningaprentun helstu seðlabanka heimsins hefur ekki enn skilað sér í verulegri verðbólgu eða ört hækkandi gullverði síðustu þrjú árin. Ástæðan er það sem kallað hefur verið hjartsláttur hagkerfisins—veltuhraði peninga. Hann er í sögulegu lágmarki.

Sumir halda að seðlabankar geti stundað stórfellda „hráa“ peningaprentun (beina fjármögnun ríkisskulda og kaup á ruslapappírum) án neikvæðra afleiðinga, en eins og sagan hefur sýnt okkur hvað eftir annað eru það tálsýnir. Það er miklu auðveldara að prenta peninga heldur en að innkalla þá aftur. Peningarnir eru komnir í umferð og flóðgáttir vítis opnast þegar hringrás peningamagnsins nær aftur eðlilegu stigi. Trilljónirnar verða ekki teknar úr umferð nema með miklum vaxtahækkunum, sem hagkerfið þolir alls ekki. Það er miklu líklegra að vaxandi verðbólga verði látin borga fyrir syndir seðlabanka heimsins.

Margir sem skrifa um gull eða fylgjast með markaðinum treysta ekki bókhaldi sumra seðlabanka. Seðlabankar á Vesturlöndum hafa lengi stundað þá iðju að „leigja“ gull til aðila sem selja pappírsgull. Gullbanki eða hliðstæð stofnun selur viðskiptavinum sínum pappíra sem standa fyrir ákveðnið gullmagn og lofar að afhenda raunverulegt gull óski viðskiptavinurinn eftir því. Þessir pappírar eru tryggðir með gulli sem situr í geymslu bankans eða hvelfingu seðlabanka. Gullbankinn borgar seðlabankanum þóknun, en græðir vel vegna þess að hann gefur út miklu meira pappírsgull heldur en hann raunverulega á eða hefur tryggt sér leigu á í einhverjum seðlabanka. Þarna er gamla brotasjóðakerfi bankanna notað á gullmarkaði. Maðkurinn í mysunni er að seðlabanki sem leigir út gullið sitt er tæknilega séð ekki lengur eigandi þess. Ráðstöfunarrétturinn er ekki fyrir hendi fyrr en leigusamningurinn er útrunninn.

Tveir skjalfestir atburðir varpa nokkru ljósi á hvernig þessi leikur fer fram. Kannski—þegar saga gulls og froðupappíra okkar tíma verður skrifuð—á 16. janúar 2013 eftir að marka merkilegan tímapunkt og augnablikið sem hristi spilaborgina. Þann dag báðu Þjóðverjar erlenda seðlabanka sem geyma þýskt gull að senda hluta þess heim. En byrjum á eldri atburði sem gefur okkur sögulegt samhengi og gengur oftast undir nafninu „Brown´s bottom.“

Forsaga málsins er sú að heimsmarkaðsverð á gulli hækkaði óvænt 1979. Það var þó ekki almennt vitað fyrr en seinna að stórir (pappírs) gullbankar, sem höfðu veðjað rangt á væntanlega lækkun gulls með skortsölum, voru við það að riða til falls. Kerfishrun lá í loftinu. Nokkrum árum seinna, þegar bankastjóri Englandsbanka, Eddie George, ræddi við Nicholas J. Morrell (stjórnarformann námurisans Lonmin plc) í viðurvist þriggja vitna, sagði hann orðrétt:

„We looked into the abyss if the gold price rose further. A further rise would have taken down one or several trading houses, which might have taken down all the rest in their wake.

Therefore at any price, at any cost, the central banks had to quell the gold price, manage it. It was very difficult to get the gold price under control but we have now succeeded. The US Fed was very active in getting the gold price down. So was the U.K.“

Í hnotskurn höfðu einhverjir braskarar veðjað vitlaust með skortsölum—nöfn AIG (já, sama AIG og hrundi 2008) og House of Rothschild hafa verið nefnd—og hvað gerði breska stjórnin? Gordon Brown, sem þá var fjármálaráðherra Bretlands, gaf út YFIRLÝSINGU þess efnis að meira en helmingur gullforða landsins (400 tonn) yrði seldur á uppboðsmarkaði á næstu þremur árum!

Nú er það þannig að seðlabankar og aðrir sem stunda viðskipti reyna að fá sem best kjör fyrir það sem þeir eru að kaupa eða selja. Síðasta sem menn gera er að láta alla vita að miklu meira framboð sé í pípunum. Almenn skynsemi segir okkur að Gordon Brown hafi viljað lækka heimsmarkaðsverð á gulli til þess að hjálpa aðilum sem áttu samkvæmt öllum leikreglum að keppa á frjálsum markaði. Daily Telegraph (júní 2012) sagði að allt þetta mál hafi verið út í hött (downright bizarre), því þarna hafi 400 tonn gulls verið seld fyrir á milli $256 og $296 únsan, en verðið stóð í $1615 þegar greinin var skrifuð. Daily Telegraph hélt áfram að tíunda afrek Gordon Brown:

Í fyrsta lagi braut hann allar venjulegar reglur og boðaði söluna með góðum fyrirvara og sendi markaðinum þannig aðvörun um væntanlegt flóð, sem lækkað gullverðið …

Í öðru lagi ákvað Fjármálaráðuneytið að selja gullið á uppboðsmarkaði … Uppboðin gáfu hins vegar oft minna í aðra hönd heldur en hinn hefðbundni markaður. …

Það lítur helst út fyrir að Fjármálaráðuneytið hafi verið að reyna að fá sem lægst verð fyrir gull fólksins.

Atburðarásin í kringum „Brown´s bottom“ lýsir ótrúlegu virðingarleysi fyrir fjármunum almennings og sýnir raunveruleg ítök elítunnar mjög vel. Þetta sannar líka að markaðirnir eru ekki eins „frjálsir“ og flestir halda. Það er líka athyglisvert að gjaldþrot AIG í Bandaríkjunum 2008 kostaði skattgreiðendur háar upphæðir því skuldbindingar fyrirtækisins voru greiddar að fullu (sem aldrei gerist í gjaldþrotaskiptum) til að bjarga nokkrum bönkum sem AIG skuldaði afleiðutryggingar.

Grasrótin í Þýskalandi, með Peter Boehringer, formann Þýska góðmálmasambandsins í fararbroddi, hefur lengi haft áhyggjur af þýsku gulli sem er geymt erlendis. Þessi hópur óttast að erlendir bankar séu þegar búnir að selja eða skuldbinda gullið eða hluta þess. Þýsk yfirvöld létu loks undan kröfum hópsins 16. janúar 2013 og báðu um að hluti gullsins yrði sendur heim.

Viðbrögðin frá seðlabankanum í New York voru ekki beint traustvekjandi. Þótt aðeins væri um þrjá flugfarma að ræða—segjum 10 farma til að dreifa tryggingakostnaði—þá var Þjóðverjum tjáð að það tæki sjö ár (!) að afhenda gullið. Af einhverjum ástæðum þyrfti að bræða það og steypa á ný. Peter Boehringer hefur aldrei fengið svör við hvers vegna fullkomnustu málmbræðslur heims í Frankfurt séu ekki notaðar og hann hefur ekki heldur fengið svör við fjölda annarra spurninga.

Réttu ári eftir að óskað var eftir gullinu hafði seðlabankinn í New York aðeins sent 5% magnsins og nýlega lýstu yfirvöld í Þýskalandi yfir því að nú væri búið að ákveða að hætta við frekari sendingar. „Við treystum bankanum í New York fyllilega“ voru lokaorðin.

Það sem gerðist um leið og Þjóðverjar báðu um gullið sitt minnir óneitanlega á „Brown´s bottom“ og handstýringuna sem þá var notuð til þess að lækka gullverðið svo misvitrir skortsalar gætu keypt á brunaútsölu. Gullverðið hrapaði. Dularfullir aðilar keyrðu markaðinn niður með nöktum skortsölum upp á milljarða dollara, en slík vinnubrögð fela í sér áhættu sem aðeins peningaprentarar eða þeir sem eyða skattpeningum almennings geta tekið.

Lægra gullverð (sumir segja óeðlilega lágt verð sem er haldið niðri með handafli) hefur orðið til þess að tveir gjörólíkir markaðir starfa í dag—pappírsmarkaður og markaður fyrir raunverulegt gull. Pappírsmarkaðurinn í New York hefur gefið út yfir hundrað pappírsúnsur fyrir hverja únsu af raunverulegu gulli sem hann ræður yfir … og stöðugt gengur á birgðir raunverulegs gulls sem tryggir pappírana.

Raunverulegt gull flæðir látlaust frá Vesturlöndum til Asíu. Það ferðast til Sviss og er steypt í stærðir sem henta Asíu. Árið 2013 flutti Hong Kong inn 916 tonn frá Sviss, 190 tonn frá Bandaríkjunum, 176 tonn frá Ástralíu, 150 tonn frá S-Afríku og umtalsvert magn frá átta öðrum ríkjum. Gullið heldur síðan áfram til Kína, sem hefur verið að safna þúsundum tonna á liðnum árum, en þeir hafa ekki gefið upp neinar tölur síðan 2009.

Kínverjar og hin BRICS löndin (Brasilía, Rússland, Indland, Kína og S-Afríka) vita að uppstokkun peningakerfis heimsins í líkingu við Bretton Woods er ekki langt undan og þau vilja koma sterk að borðinu með stóran gullforða á bak við sig.