vald.org

Grikkir ganga að kjörborðinu

8. janúar 2015 | Jóhannes Björn

Orsök hrunsins 2008 í Evrópu og Ameríku var fáheyrt lánafyllerí bankakeflisins. Vegna þess að bankarnir gátu endurselt bæði góð og vond lán í svokölluðum afleiðupökkum (matsfyrirtækin gáfu öllu ruslinu bestu einkunn gegn þóknun), þá var það bönkunum í hag að trekkja fasteignamarkaðinn stöðugt upp og lána svo til öllum sem báðu um lán. Hækkandi fasteignaverð færði kerfinu fleiri pappíra til að selja … og þannig koll af kolli.

Líkt og „magnaukning“ peninga (hrá seðlaprentun) sem seðlabankar heimsins standa fyrir í dag á eftir að enda með skelfingu, þá hrundi fasteignamarkaðurinn þegar Ponzi-kerfið sigldi í kaf. Frekar en að líta í eigin barm hóf banaelítan gífurlega herferð gegn venjulegu fólki og sakaði um að hafa lifað um efni fram. Þetta voru ansi haldlítil rök í ljósi þess að enginn fær lán í banka nema bankinn samþykki ráðhaginn og samfélagsleg ábyrgð bankanna (og helstu rök fyrir ágæti brotasjóðakerfisins … að lána það sem ekki er til með bókhaldsaðferðum) snýst um að bankarnir láti fjármagnið falla í frjóan farveg.

Bankaelítan lét skattgreiðendur bjarga sér bæði beint og óbeint í gegnum peningaaustur seðlabanka, en rak á sama tíma fáheyrðan áróður gegn almenningi og þá sérstaklega í S-Evrópu. Þetta voru upp til hópa letingjar sem eyddu dögunum í rauðvínsþamb á sólarströndum. Áróðursdeildir og auglýsingastofur tóku Grikkland alveg sérstaklega í bakaríið. Þrátt fyrir lengri vinnuviku heldur en í Þýskalandi, verri laun og lægri bætur af öllu tagi var þeim skipað að draga saman seglin og endurlifa 1929–1939 tímabilið.

Auðvitað bjátaði á margt í Grikklandi. Goldman Sachs bankinn hafði t.d. hjálpað spilltum pólitíkusum við að falsa bókhald ríkisins (vippa framtíðartekjum í núið með flóknum afleiðupappírum) þannig að landið fékk að innleiða evru. Langstærsta vandamál Grikklands er þó að ríkasta fólk landsins er búið að taka sér bólfestu í skattaparadís. Einn stærsti skiparekstur heimsins er skráður á aflandseyjum og tekjur elítunnar skila sér ekki heim. Bankar og dinglandi pólitíkusar Evulands hafa náttúrulega ekkert stuggað við þessu fólki og geisladiskur með upplýsingum um falda reikninga auðmanna var grafinn.

Ofsi Þjóðverja gegn Grikkjum—Merkel er að hóta sviðinni jörð ef landið kýs ekki rétt—á rætur sínar í þýskum bönkum sem eiga hagsmuna að gæta. Allt annað hjal er fyrirsláttur. Grikkland átti strax haustið 2008 að losa sig við evruna og endurskipuleggja skuldabaggann. En eftir sex ára píslagöngu eru Grikkir að verða útlendingar í eigin landi, sem borga erlendum fyrirtækjum vegatolla, flugvallarskatt og hafnargjöld. Grikkir geta ALDREI borgað skuldabaggann sem búið er að hlaða á þá.

Vextir sem gríska ríkið þarf að borga fara hratt hækkandi—þetta er þó aðeins byrjunin—og þróun fimm ára ríkisskuldabréf lítur svona út:

Þótt grískum pólitíkusum sé mikið til fjarstýrt af Þjóðverjum var forsætisráðherranum, George Papandreou, nóg boðið 2011 og hann lagði til að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um neyðaráætlunina sem þá lág fyrir. Beint lýðræði féll að sjálfsögðu ekki í kramið hjá stjórnendum innan ESB og Þýskalands og Papandreou var hrakinn frá völdum. Við embættinu tók þægt möppudýr, fyrrum varastjórnarformaður hjá Evrópubankanum.

Leyniskjöl Alþjóða gjaldeyrissjóðsins frá 2010, sem Wall Street Journal komst yfir, sýna að nokkrir meðlimir sjóðsins—Argentína, Brasilía, Indland, Sviss og Rússland—vildu allir að hluti grískra skulda við einkabanka yrði afskrifaður áður en neyðaráætlunin tæki gildi. Vegna skuldabréfaeigna breskra, franskra og þó aðallega þýskra banka var þessu hafnað. Tveimur árum seinna, eftir að téðir bankar höfðu losað sig við grísku bréfin, var töluvert afskrifað.

Eins og málin standa í dag verður að afskrifa miklu meira og koma skuldum gríska ríkisins niður í 90% miðað við ársframleiðslu. Allt annað er glæpur gagnvart almenningi í landinu. Þótt Þjóðverja hóti sviðinni jörð („varnarstríði“ eins og innrásin í Pólland 1939 var kölluð) þá verða Grikkir að kjósa stjórnmálamenn sem hafa bein í nefinu og segja: Hingað og ekki lengra!